Gunnar Skúli Ármannsson skrifar í fréttablaðið 28.03 2008.: Jón Kaldal skrifar leiðara 17. mars sl. í Fréttablaðið undir yfirskriftinni: Versti vinnustaður landsins. Ég vinn sem sagt á versta vinnustað landsins, það var og.
Máli sínu til stuðnings telur Jón til fréttir af málefnum Landspítalans. Þær eru neikvæðar. Fréttir eru í eðli sínu neikvæðar. Jón tiltekur tvö dæmi um aðgerðir stjórnenda spítalans til að spara. Það er aldrei vinsælt og veldur ólgu. Síðan lætur Jón í það skína að þess vegna hafi Magnúsi Péturssyni verið sparkað, vegna ólgu í starfsmönnum vegna sparnaðar og stjórnsemi. Að lokum hvetur Jón nýja stjórnendur spítalans til dáða, dýrt sé kerfið og nú þurfi að nýta fjármunina enn betur.
Ekki auðvelt að spara
Gömlu stjórnendurnir reyndu að stjórna og spara. Fyrir vikið sköpuðu þeir sér óvinsældir bæði hjá hluta starfsmanna og yfirmanna. Þrátt fyrir það má almennt segja að engin sérstök óánægja hafi ríkt með gömlu stjórnendurna. Að fullyrða að sífelldar skærur hafi átt sér stað er orðum aukið. Nýir stjórnendur eiga að gera enn betur. Sjálfsagt geta þeir lent í sömu klemmu og forverar þeirra.
Það er ekki auðvelt að spara. Ég tel að vandamálið sé flóknara en að einhverjir kommúnistar séu að spreða peningunum okkar innan báknsins.
Íslendingurinn er að nota kerfið og það ekki lítið. Fólki finnst það eiga rétt á því. Fólk kemur stundum með vandamálin á ranga staði á röngum tíma. Slysadeildin hefur stundum þurft að kljást við vandamál sem eiga heima í heilsugæslunni. Fólk hefur ótakmarkaðan aðgang að sérfræðingum. Flestar nágrannaþjóðir okkar hafa tilvísunarkerfi í einhverri mynd. Síðustu sex mánuðirnir í lífi hvers einstaklings eru oft þeir kostnaðarmestu. Við getum stöðugt gert meira en er það til góðs? Að minnsta kosti er það mjög dýrt.
Tilgangur heilbrigðiskerfisins
Ég tel mjög mikilvægt að við ræðum til hvers við ætlumst af heilbrigðiskerfinu af fullri alvöru. Eru öll þessi sjúkrahús nauðsynleg? Eiga konur að geta fætt í hverju húsi? Hversu langt eigum við að ganga við að halda lífi í okkur? Hver er ábyrgð einstaklingsins fyrir eigin heilsu? Hvað skortir til þess? Hvernig er forgangsröðunin? Er ekki þörf á tiltekt í hugum nýríkra Íslendinga?
Er hugsanlegt að versti vinnustaður landsins endurspegli það þjóðfélag sem hann er staddur í? Mótast hann ekki af íslenskri þjóðarsál? Er sparnaður og ráðdeildarsemi aðalsmerki Íslendingsins? Landspítalinn er eins og húsmóðir sem á alltaf að vera til taks en á ekki að kosta neitt. Þess vegna er Landspítalinn svo fjarri því að eiga sér einhverja virðingu og mönnum leyfist að kalla hann versta vinnustað landsins. Saga Landspítalans er samhnýtt sögu íslenskra kvenna. Það voru þær sem börðust fyrir honum, söfnuðu peningum og nánast neyddu íslenska ráðamenn til að byggja hann. Síðan byggðu íslenskir karlmenn hann í atvinnubótavinnu þegar atvinnuleysi var mikið hjá karlmönnum í kreppunni. Stundum hefur maður á tilfinningunni að Landspítalinn og konur hafi sömu stöðu í þjóðfélaginu.
Flatur sparnaður virkar ekki
Það er kannski lausn spítalans að einkavæða hann allan. Þá sendir hann reikninga og ef þeir eru ekki greiddir fær kaupandinn ekki frekari þjónustu. Þá fara menn kannski að bera einhverja virðingu fyrir honum. Við þá breytingu myndu menn gera sér betur grein fyrir því að umræða um heilbrigðismál sem alltaf snýst um kostnað og eyðslu er niðurdrepandi og engum til gagns. Ef til vill munu menn þá kannast við að heilbrigðiskerfið framleiðir mikla og góða vöru. Að minnsta kosti myndu þeir kunna að meta vöruna ef þeir þyrftu að greiða hana fullu verði.
Ég vinn á Landspítalanum og þar finnst mér gott að vinna. Tel mig alls ekki vinna á versta vinnustað landsins. Landspítalinn er að sjálfsögðu hvorki gallalaus né hafinn yfir gagnrýni. Ég tel að virkja verði þá þekkingu og færni sem er til staðar hjá almennum starfsmönnum. Við vitum nokkurn veginn hvernig á að spara, bara ef við erum spurð og fáum einhverja gulrót. Flatur sparnaður að ofan hefur aldrei virkað, hvorki hér né annars staðar. Ég tel það mjög mikilvægt að auka sjálfstjórn hinna minnstu eininga innan spítalans og láta þær kljást við sparnað í návígi.
Með sameiginlegu átaki allra mun okkur Íslendingum takast að skapa hér besta heilbrigðiskerfi í heimi á viðráðanlegu verði. Neikvæð umræða mun einungis tefja för.
Höfundur er læknir.
Fréttablaðið 28.03.2008