-Auglýsing-

Veikindi maka: Hugað að eigin heilsu

Veikindi maka er mikil áskorun og það er mikilvægt að reyna að eiga í góðum samskiptum og tala við fjölskyldu og vini og vera til staðar fyrir hvort annað.

Þegar maki eða náinn ættingi fær hjartaáfall eða glímir við langvarandi hjarta- og æðasjúkdóma hefur það veruleg áhrif á alla fjölskylduna. Steitustigið hækkar og fólk verður kvíðið og sorgmætt.

Áhyggjur, streita og aukin ábyrgð geta gert það að verkum að makar setja jafnvel eigin heilsu til hliðar. Þetta getur komið í bakið á fólki því það er mikilvægt að huga vel að sinni eigin heilsu til að vera betur í stakk búnir til að styðja við ástvin á vegferðinni til bata. Í þessum pistli verður farið yfir hvernig makar og aðrir aðstandendur geta unnið úr þessum erfiðu aðstæðum og hvaða leiðir eru til að viðhalda heilsu á meðan makinn glímir við veikindi.

-Auglýsing-

Að viðhalda eigin heilsu

Það er auðvelt fyrir aðstandendur að einblína algjörlega á þarfir hins veika en rannsóknir sýna að langvarandi álag og streita getur leitt til heilsutengdra vandamála hjá aðstandendum. Samkvæmt rannsókn sem birtist í Journal of the American Heart Association eru aðstandendur fólks með hjartasjúkdóma í aukinni hættu á að þurfa að glíma við sinn eigin heilsufarsvanda, svo sem háan blóðþrýsting, svefnvandamál og þunglyndi. Það er því mikilvægt að aðstandendur geri ráðstafanir til að huga að eigin vellíðan.

1. Að setja mörk og leita aðstoðar

Það er ekki hægt að vera alltaf til staðar og sinna öllum þörfum hins veika. Að setja mörk er ekki eigingirni heldur nauðsynlegt til að geta staðið undir þeirri ábyrgð sem fylgir því að vera aðstandandi. Aðstandendur ættu að nýta sér stuðningskerfi eins og fjölskyldu, vini eða heimaþjónustu þegar þörf er á. Rannsóknir sýna að þeir sem fá utanaðkomandi aðstoð og stuðning við umönnun eru síður útsettir fyrir kulnun.

2. Viðhalda reglulegri hreyfingu

Hreyfing er lykilatriði í því að stjórna streitu og viðhalda líkamlegri heilsu. Það þarf ekki að vera flókið – einfaldir göngutúrar, stuttur hjólatúr, léttar æfingar eða jóga geta hjálpað við að losa um spennu og bæta svefn. Samkvæmt rannsókn sem birt var í American Journal of Lifestyle Medicine getur jafnvel 30 mínútna dagleg hreyfing dregið verulega úr streitu og bætt andlega líðan.

3. Huga að andlegri líðan

Að sjá ástvin glíma við alvarleg veikindi getur reynst þungbært andlega. Það er mikilvægt fyrir aðstandendur að gefa sér tíma til að ræða tilfinningar sínar við einhvern sem þeir treysta hvort sem það er vinur, fjölskyldumeðlimur eða fagaðili. Rannsóknir hafa sýnt að aðstandendur sem sækja sálfræðilega aðstoð eru líklegri til að geta betur tekist  á við erfiðar aðstæður og minnka líkur á þunglyndi.

- Auglýsing-

4. Góð næring og svefn

Heilbrigður lífsstíll og þar með talin góð næring og góður svefn getur einnig haft mikil áhrif á líðan aðstandenda. Rannsóknir benda til þess að streita geti valdið ójafnvægi í mataræði og svefnvenjum. Það er því mikilvægt að borða reglulega og reyna að halda í venjur varðandi matmálstíma, velja næringarríkan mat og tryggja nægilega hvíld. Ráðlagt er að fá að minnsta kosti 7–8 tíma svefn á nóttu ef þess er nokkur kostur til að viðhalda bæði líkamlegri og andlegri orku.

5. Að viðhalda félagslegum tengslum

Eitt af því mikilvægasta sem aðstandendur geta gert er að viðhalda sterkum félagslegum tengslum. Einangrun getur aukið álagið svo það er mikilvægt að aðstandendur haldi áfram að hitta vini og fjölskyldu, faðma fólkið sitt og tala. Í rannsókn sem birt var í Health Psychology kemur fram að þeir aðstandendur sem eiga traust félagslegt net ná betur að halda jafnvægi milli eigin þarfa og umönnunar ástvinar.

Niðurlag

Það getur verið mjög erfitt og því fylgir mikið álag að vera aðstandandi maka sem hefur fengið hjartaáfall eða glímir við langvinnan hjarta- og æðasjúkdóm. Álagið getur verið yfirþyrmandi, en það er mikilvægt að muna að án góðrar eigin heilsu getur verið erfitt að styðja við ástvini á uppbyggilegan hátt. Með því að huga að eigin heilsu – hvort sem það er með því að hreyfa sig, setja mörk, leita aðstoðar eða huga að andlegri vellíðan – geta aðstandendur betur tekist á við þær áskoranirnar sem óhjákvæmilega fylgja veikindum maka. Rannsóknir styðja mikilvægi þess að huga að sjálfum sér og með réttri umönnun geta aðstandendur fundið jafnvægi milli umönnunar og eigin heilsu. Enn og aftur, talaðu við fólkið þitt og faðmaðu það því það léttir lífið á erfiðum stundu.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-