Á hverjum tíma kljást fjölmargir við langvarandi og erfið veikindi. Misjöfn veikindi í eðli og afleiðingum sem hafa áhrif á líf og lífsgæði bæði þess sem veikist og ekki síst maka.
Að baki hverjum sjúklingi stendur fjölskylda, maki og vinir sem allir upplifa að einhverju marki áhrif veikindanna, óvissuna og afleiðingarnar.
Bakland fólks er auðvitað misjafnt að stærð og gæðum en það er ljóst að stuðningur getur skipt sjúklinga sköpum og jafnvel svo að stór munur er á bata og heilsu þeirra sem fá góðan stuðning og þeirra sem búa við meiri einangrun eða takmarkaðri stuðning sinna nánustu. Sjúklingar berjast nefnilega ekki fyrir heilsu sinni í einangrun og þeir eru ekki heldur þeir einu sem þjást.
Maki sjúklings er mikilvægur hluti stuðningsnets sjúklingsins, en það gleymist þó oft að makinn þarf ekki bara að sinna sjálfum sér til þess að geta sinnt stuðningshlutverki sínu við sjúklinginn heldur einnig til að geta sjálfur tekist á við það álag og þær breytingar sem alvarlegum veikindum fylgja. Fyrir eigin heilsu og fyrir eigin líf.
Margar rannsóknir sýna að óháð eðli sjúkdómanna hafa makarnir það oft jafnvel verra andlega en sjúklingarnir sjálfir. Þeir þurfa að taka að sér aukna ábyrgð og ný hlutverk á heimili, stunda og standa sig í vinnu eftir sem áður, sinna börnum og nú jafnvel sjúklingnum sjálfum ásamt því að reyna að halda venjubundnu lífi eins mikið gangandi og mögulegt er. Allt í skugga áfalls, sem það sannarlega er þegar maki manns, nánasti vinur og helsti stuðningsaðili veikist. Þó að makinn standi sterkur í bylnum og láti ekki endilega mikið á bera, þá mæðir á honum. Spurningarnar, efasemdirnar, óttinn og tilfinningarnar sem bærast um eru erfiðar og mjög margir makar eru kvíðnir og finna til þunglyndis einmanaleika og vonleysis. Það er auðvitað eðlilegt að bregðast við í svona óeðlilegum aðstæðum en til lengri tíma getur streita og erfiðar tilfinningar haft áhrif á getu fólks til að takast á við líf sitt og verkefni. Líka það verkefni að eiga veikan maka.
Það er algert grundvallaratriði að muna að þegar einn aðili hjónabands eða sambands veikist þá þurfa báðir aðilar stuðning.
Ef þú átt veikan maka og kannast við þessar erfiðu tilfinningar eða erfiðleikana við að ná áttum í breyttum aðstæðum og lífsgæðum, íhugaðu þá að sækja aðstoð sálfræðings. Það er hægt að fá hjálp og það er styrkleiki að sækja hana og taka þar með afstöðu um að taka stjórn og bæta líðan sína og lífsgæði.
Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur
P.S. Ekki gleyma að læka við okkur á Facebook