Gunnar Skúli Ármannsson skrifar um heilbrigðiskerfið og nýtt sjúkrahús: Það er ekki oft sem maður brosir allan hringinn þegar sýnt er fram á að maður hafi haft rangt fyrir sér. Ég var allt að því sannfærður í vetur að ekki stæði til að byggja nýjan spítala. Meðal annars hafði ég tjáð áhyggjur mínar á síðum dagblaðanna. Í dag kom það skýrt í ljós að mér hafði orðið svolítið brátt í brók og ótti minn ekki á rökum reistur. Reyndar er mér vorkunn að stíflan skyldi bresta í vetur því ég hef beðið eftir deginum í dag í meir en 25 ár.
Dagurinn 27. febrúar 2008 mun lengi vera í minnum hafður á Landspítalanum. Í dag gerðist það sem allir starfsmenn Landspítalans hafa beðið eftir árum saman. Heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór, Inga Jóna og fleiri háttsettir embættismenn héldu fund með okkur starfsmönnunum. Það er ekki á hverjum degi sem svo fríður hópur mætir á fund með okkur enda var mjög vel mætt af hálfu starfsmanna. Það var mikil eftirvænting í hópnum. Við fórum ekki tómhent af fundinum.
Guðlaugur Þór og Inga Jóna tóku af öll tvímæli um að til stendur að byggja nýtt sjúkrahús fyrir Íslendinga. Auk þess var tekið fram að verkið yrði klárað en ekki skilið eftir hálfklárað. Framtíðarsýnin er komin á hreint. Til stendur að byggja nýjan og góðan spítala fyrir alla landsmenn. Hann mun þjóna öllum Íslendingum vel og lengi. Teningnum er kastað.
Svartsýnisraddir munu sjálfsagt heyrast eftir sem áður. Ég er sannfærður um að þegar úrtölumenn munu sjá nýjan spítala rísa og átta sig á muninum á gamla og nýja tímanum munu þeir skilja mikilvægi hans. Aftur á móti munum við sem höfum þráð þennan dag árum saman mæta bjartsýnni til vinnu á morgun. Sjúklingar spítalans munu kunna að meta það.
Það er ekki ónýtt að fá góðar gjafir á jólunum en það eru ekki alltaf jól. Áfram verðum við í gömlu húsunum nokkur ár til viðbótar. Á fundinum kom fram skilningur á því að gera okkur vistina bærilega meðan við bíðum eftir nýju húsi. Sjálfsagt verður það mun léttara fyrir starfsfólk og sjúklinga að þola núverandi ástand vegna þeirra tíðinda sem boðuð voru í dag.
Nauðsynlegt er fyrir alla aðila sem að þessum málum koma að byggja ekki bara hús. Þó að góð aðstaða starfsmanna og sjúklinga sé forsenda árangurs á heimsmælikvarða, sem við stefnum öll að, þá er sjúkrahús miklu meira. Sjúkrahús er fólkið sem vinnur þar, stundum nefnt mannauður nú til dags. Til að ná hámarks ávöxtun á þeim auði þarf ýmislegt að koma til. Stjórnendur þurfa að gæta þess að skapa ekki ónauðsynleg tilefni fyrir hinn almenna starfsmann að kvarta. Við sem nöldrum þurfum að gera það með góðum rökum og að vel yfirlögðu ráði. Nauðsynlegt er fyrir gæslumenn pyngjunnar að meta störf þeirra sem vinna með veikt fólk. Til að hámarka líkur þess að Íslendingar eigi kost á góðri heilbrigðisþjónustu þurfum við að tryggja það að fólk í heilbrigðisstéttum sé metið að verðleikum.
Til að ungt fólk hafi áhuga á að koma til starfa í heilbrigðiskerfinu og sinna veikum meðbræðrum sínum þurfum við sem vinnum þar að muna eftir því jákvæða í vinnu okkar og það sem fær okkur til að starfa áfram. Við þurfum að kynna störf okkar sem eftirsóknarverð. Það er áhyggjuefni að ungt fólk ætlar ekki að starfa innan heilbrigðiskerfisins í framtíðinni. Vissar forsendur liggja alltaf að baki áliti fólks á eigin starfi. Því er nauðsynlegt að þeir aðilar sem skapa þær forsendur vandi til verka og hugsi ekki eingöngu um skammtímagróða heldur ávöxtun auðs til framtíðar, eins og nýbygging Landspítalans ber með sér.
Höfundur er læknir.
Morgunblaðið 01.03.2008