Lyfjagreiðslunefnd ákvað ásamt fulltrúum apótekara í ágústmánuði síðastliðnum að breyta smásöluálagningu á lyfseðilsskyldum lyfjum. Ódýr lyf, sem að jafnaði eru að fullu greidd af sjúklingum, munu hækka í verði, svo sem svefnlyf og ýmis róandi lyf.
Meðaldýr og dýr lyf munu hins vegar lækka í verði, eins og sýklamixtúrur fyrir börn, getnaðarvarnalyf, magalyf og astmalyf, stinningarlyf og fleira.
Rúna Hauksdóttir, formaður lyfjagreiðslunefndar, segir að heildarálagning apóteka vegna lyfseðilsskyldra lyfja muni væntanlega lækka um 180 milljónir króna á ári vegna hinna nýju reglna nefndarinnar um álagningu lyfja. Segir hún að rúmlega helmingur af lækkuninni muni koma til lækkunar á útgjöldum sjúkratrygginga, en tæplega helmingur til lækkunar á útgjöldum sjúklinga.
„Ég tel að breytingarnar, sem munu taka gildi hinn 1. janúar næstkomandi, séu mjög til bóta,“ segir Rúna. „Verið er að taka upp svipað fyrirkomulag og er í Danmörku og Noregi, sem við miðum okkur mest við í þessum málum. Þetta er skref í þá átt að smásöluverð lyfja verði sambærilegt og á Norðurlöndunum. Lyf sem hafa verið ódýr hækka í verði, en millidýr og dýr lyf lækka hins vegar. Þá er talið að með þessum breytingum muni álagningin endurspegla betur en hingað til þá raunverulegu vinnu sem er við það að afgreiða lyf. Það kostar nefnilega alveg jafn mikið fyrir apótek að afgreiða pakka af ódýru lyfi og dýru.“
www.mbl.is 18.12.2008