Andlega hliðin getur ekki síður en líkamlegir þættir haft áhrif á hjartaheilsuna. Samkvæmt nýlegri rannsókn þá eru konur í meiri hættu heldur en karlar á að fá hjartasjúkdóm sem orsakast af andlegri streitu og konur upplifa alvarlegri vandkvæði undir mikilli streitu heldur en karlar.
Rannsóknin var birt í the Journal of the American College of Cardiology. Þátttakendur rannsóknarinnar voru 56 konur og 254 karlar sem greind höfðu verið með hjartasjúkdóm. Einstaklingarnir voru nú þegar þátttakendur í rannsókn sem nefnist REMIT og skoðar áhrif lyfsins Escitalopram samanborið við lyfleysu á hjartasjúkdóm sem kemur sökum streitu.
Þátttakendur tóku þátt í þremur andlega streituvaldandi verkefnum – verkefni í hugarreikningi, teikna upp eftir spegli, og að muna reiði (e. recall anger) í ákveðnu prófi. Í kjölfarið gerðu þátttakendur æfingu á hlaupabretti.
Á meðan á verkefnunum stóð og í hvíldartímanum á milli þeirra þá framkvæmdu rannsakendur echocardiography, sem er aðferð sem ómskoðar hjartað, og skoðuðu þannig breytingar á hjartavöðvanum. Einnig tóku þeir blóðprufur fyrir og eftir prófin, sem og mældu blóðþrýsting og hjartslátt.
Þrátt fyrir að meiri breytingar hafi orðið á blóðþrýstingi og hjartsláttartíðni hjá körlum sem svar við andlegu streitunni, þá voru breytingarnar á líkama kvenna hættulegri. Einnig sögðu konur frá meiri aukningu á neikvæðum tilfinningum og færri jákvæðum tilfinningum við gerð verkefnanna heldur en karlar.
Konurnar urðu frekar fyrir minnkuðu blóðflæði til hjartans, sem kallast blóðþurrð í hjartavöðvanum (e. myocardial ischemia) og getur eyðilagt hjartavöðvann með því að minnka getu hans til að pumpa blóði á áhrifaríkann hátt. Fleiri konur í rannsókninni sýndu einnig merki um myndun blóðtappa, ferli sem kallast „aukin blóðflögu þyrping“ (e. increased platelet aggregation). Blóðtappar geta stíflað æðar og þannig leitt til hjartaáfalls.
Fyrri rannsóknir hafa sýnt tengsl milli streitu og hjartasjúkdóma þar sem streita getur leitt til óheilsusamlegra vana eins og reykinga, drykkju og ofáts sem eru þekktir áhættuþættir hjartaáfalla. Streita getur einnig aukið magn streituhormóna í blóði. Þessi hormón geta orsakað hærri blóðþrýsting og hjartsláttartíðni sem getur á endanum leitt til hjartasjúkdóma, þar sem hjartað þarf þá að erfiða meira til að pumpa blóði um líkamann. Eins og rannsóknin sem fjallað er um sýndi, þá getur streita einnig haft áhrif á það hvernig blóðtappar myndast sem getur leitt til hjartasjúkdóma eða hjartaáfalls.
Dr. Zainab Samad, við Duke University Medical Center in North Carolina í Bandaríkjunum segir að læknar eigi að taka með í reikninginn, þegar verið er að meðhöndla einstaklinga með hjartasjúkdóma, þá staðreynd að konur verði fyrir meiri áhrifum af streitu heldur en karlar. Hún segir „sambandið milli andlegs stress og hjartasjúkdóma sé vel þekkt. Þessi rannsókn gefur til kynna að andlegt stress hafi mismunandi áhrif á hjartaheilsu karla og kvenna. Við verðum að viðurkenna þennan mun þegar við erum að meta og meðhöndla einstaklinga með hjartasjúkdóma“. Prófessor Samad tekur einnig fram að„ á þessum tímapunkti er þörf á frekari rannsóknum til að skoða tengsl þessa kynjamuns á viðbrögðum hjartans við andlegu stressi og skoða einnig langtíma útkomur“. Að lokum bætti Samad við að núverandi tæki sem til eru til að mæla áhættu á hjartasjúkdómum séu ófullnægjandi þar sem þau taka áhrif sálfræðilegrar streitu á líkamann ekki með í reikninginn.
Hjartasjúkdómar valda flestum dauðsföllum í heiminum og hrjá almennt karlmenn frekar en konur, en eftir 50 ára aldurinn þá jafnast líkurnar á hjartasjúkdómum og eru svipaðar hjá körlum og konum.
Björn Ófeigs.
P.S. Ekki gleyma að læka við okkur á Facebook