-Auglýsing-

Sorgin og hjartað: Hvernig andleg vanlíðan hefur áhrif á líkamlega heilsu

Depressed middle-aged woman in her forties, sitting on a sofa. Middle age crisis, depression, divorce concept

Sorg er tilfinningalegt ástand sem allir upplifa einhvern tímann á lífsleiðinni, hvort sem það er vegna missis ástvinar, skilnaðar, missis vinnu eða annarra áfalla.

Sorgarviðbrögð eru einstaklingsbundin og við upplifum sorg á mismunandi vegu og það er ekkert eitt rétt í þeim efnum. Það eru þó nokkur sameiginleg einkenni sem fólk deilir. Rannsóknir hafa sýnt að sorg getur haft veruleg áhrif á líkamlega heilsu okkar og þá ekki síst á hjartaheilsu. Þessi áhrif eru mikilvægt að skilja og bera kennsl á þar sem þau geta valdið alvarlegum heilsufarsvandamálum ef ekki er tekið á þeim.

-Auglýsing-

Áhrif sorgar á líkamann

Sorgin getur haft mikil áhrif á líkamlega heilsu og ein helsta leiðin sem sorg hefur til að hafa áhrif á líkama okkar er í gegnum streitu. Streita er eðlilegt viðbragð við missi en ef hún verður krónísk getur hún haft mikil áhrif á hjarta og æðakerfið. Langvarandi sorg og streita getur aukið hættuna á hjartaáfalli, hækkað blóðþrýsting og stuðlað að öðrum hjartasjúkdómum.

Rannsóknir sýna að fólk sem upplifir djúpa sorg eða áfall vegna missis ástvina er í meiri hættu á að fá það sem kallast „brostið hjarta heilkenni“ (e. Takotsubo cardiomyopathy eða broken heart syndrome). Þetta ástand líkist einkennum hjartaáfalls og er oft tengt mikilli andlegri streitu. Hjartað veikist tímabundið og það veldur brjóstverkjum en án þess að kransæðar séu stíflaðar eins og í venjulegu hjartaáfalli.

- Auglýsing-

Tengsl sorgar og hjartasjúkdóma

Fjöldi rannsókna hefur skoðað tengslin á milli sorgar og hjarta og æðasjúkdóma. Ein fræg rannsókn, sem birt var í The New England Journal of Medicine, sýndi að fyrsta árið eftir missi maka eru hjartasjúkdómar algengari en meðal þeirra sem ekki upplifa slíkan missi. Hættan er mest fyrstu sex mánuðina eftir missinn. Þessi rannsókn sýndi mikilvægi þess að huga að hjartaheilsu fólks sem gengur í gegnum sorgarferli þar sem hættan á hjartatengdum uppákomum getur aukist verulega á þessum tíma.

Önnur rannsókn sem gerð var af John Hopkins University komst að því að fólk sem glímir við sorg og mikla tilfinningalega streitu er í aukinni hættu á að þróa með sér bólgur í æðum sem getur leitt til hækkaðs blóðþrýstings, þrenginga í æðakerfinu og þar með til aukinnar hættu á hjartaáföllum.

Streituhormón og áhrif þeirra á hjartaheilsu

Eitt af því sem á sér stað í líkamanum þegar við upplifum sorg er aukin losun streituhormóna, svo sem adrenalíns og kortisóls. Þetta eru hormón sem undirbúa líkamann til að takast á við hættu en þegar þau staldra við of lengi í miklu magni geta þau haft neikvæð áhrif. Kortisól getur stuðlað að hækkun blóðsykurs og þar með aukið hættuna á sykursýki og öðrum efnaskiptavandamálum sem tengjast hjartasjúkdómum.

Auk þess getur þessi langvarandi losun streituhormóna valdið því að hjartað slær hraðar sem getur aukið álag á hjartað. Þetta getur í verstu tilfellum leitt til hjartabilunar hjá þeim sem eru viðkvæmir fyrir.

Hvernig er hægt að bregðast við áhrifum sorgar á hjartaheilsu?

Það er mikilvægt að huga að bæði andlegri og líkamlegri heilsu þegar fólk gengur í gegnum sorgarferli. Fyrsta skrefið er að viðurkenna tilfinningarnar og leyfa sér að upplifa sorgina en jafnframt reyna að hlúa að líkamanum. Hreyfing, rétt mataræði, nægur svefn og reglulegar læknisheimsóknir geta hjálpað til við að draga úr neikvæðum áhrifum sorgar á hjartaheilsu.

Sálfræðileg aðstoð, eins og samtalsmeðferð eða stuðningshópar geta einnig verið mikilvæg tæki til að vinna úr tilfinningum tengdum sorginni. Fyrir þá sem eru í sérstakri áhættu, svo sem fólk með fyrri sögu um hjartasjúkdóma eða háan blóðþrýsting, er mikilvægt að fylgjast vel með andlegum og líkamlegum einkennum og leita sérfræðiaðstoðar ef áhyggjur vakna.

Að lokum

Sorg er eðlilegur hluti af lífinu en það er mikilvægt að skilja hvernig hún getur haft áhrif á andlega og líkamlega heilsu okkar. Langvarandi streita og tilfinningalegt álag sem fylgir sorg getur aukið hættuna á hjarta og æðasjúkdómum svo sem hjartaáfalli eða „brostnu hjarta heilkenni“ (broken heart syndrome). Það er því mikilvægt að huga vel að heilsunni á þessum tímum og leita sérfræðiaðstoðar aðstoðar til að lágmarka áhrifin og passa upp á heilsuna. Með því að sýna sjálfum sér umhyggju og mildi á sorgartímum er hægt að koma í veg fyrir alvarleg hjartatengd heilsufarsvandamál.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-