Nýlega sögðu bæði velferðarráðherra og landlæknir að engin gögn sýndu fram á að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hefði skert öryggi sjúklinga. Nokkrir starfsmenn spítalans hafa aftur á móti ítrekað sagt í fjölmiðlum að við séum komin fram á bjargbrún í heilbrigðiskerfinu og jafnvel lengra.
Þegar afleiðingar niðurskurðar fara að sjást í gögnum þá er það vegna þess að lífi og heilsu fólks hefur verið stefnt í voða. Það þarf að hafa gerst mörgum sinnum til þess að koma fram í marktækum tölulegum upplýsingum. Þess vegna þurfa heilbrigðisyfirvöld að leggja við hlustir þegar hver heilbrigðisstarfsmaðurinn á fætur öðrum varar við ástandinu. Þið verðið að trúa okkur og bregðast við áður en það er um seinan.
Skaðlegur niðurskurður
Ég vil benda á nokkur dæmi um skaðleg áhrif niðurskurðar á Landspítala.
-Fárveikir sjúklingar liggja á göngum þar sem erfitt er að hvílast og ná bata.
-Sjúklingar eru færðir fram og til baka um spítalann. Oft er ekki pláss á þeim deildum þar sem sérþekking á viðkomandi sjúkdómi er til staðar. Fyrir vikið verður meðferðin ekki eins markviss.
-Hvíldartími heilbrigðisstarfsmanna er ekki virtur og margir neyðast til að vinna lengur en þeir vilja eða geta. Oft eru þeir með umsjón yfir fleiri sjúklingum en þeir ráða við. Þreyttir og yfirkeyrðir starfsmenn eru líklegri til að gera mistök.
-Sjúklingar eru útskrifaðir eins fljótt og hægt er, stundum of fljótt.
-Mikil ólga er meðal heilbrigðisstarfsmanna vegna álags og kjaramála. Það leiðir til þess að við missum fært fagfólk frá spítalanum.
-Tækjabúnaður er gamall og úr sér genginn. Fresta þarf rannsóknum og aðgerðum af þeim sökum.
-Biðlistar hafa lengst. Afleiðingar þess geta verið alvarlegar.
Við megum ekki bíða eftir að dánartíðni aukist, biðlistar lengist úr hófi fram eða hvað eina sem mælir virkni heilbrigðiskerfisins. Of mikið hefur verið hagrætt á Landspítala og langlundargeð starfsmanna er á þrotum. Það mun kosta tíma og peninga að byggja aftur upp þjónustuna og snúa þessari óheillaþróun við.
Eygló Ingadóttir, formaður hjúkrunarráðs á Landspítala
Pistillin birtist í Fréttablaðinu í dag og á vísi.is
www.visir.is 07.03.2013