-Auglýsing-

Sátt og sólargeislar

joy4Eftir öll vonbrigðin og endalausa sorg og reiði eru sólargeislarnir auðfúsu gestir. Enn einu sinni hefur sannast að myrkustu stundirnar í lífinu eru rétt fyrir dögun. Af einhverjum orsökum sem mér eru allsókunnar og reyndar fyrir ofan minn skilning hef ég öðlast frið í sálinni minni eftir ólgusjó síðustu ára. Sú hlið lífsins sem sneri að sólinni fór að láta á sér kræla og geislar hennar tóku að skína.

Smám saman eftir því sem æðruleysi mínu og þolinmæði hefur vaxið fiskur um hrygg kom sáttin. Sáttin við að sumum hlutum get ég ekki breytt í lífinu en öðrum get ég breytt eða haft áhrif á. Satt best að segja var ekki svo ýkja erfitt að vera ég þegar ég var búinn að meðtaka það að líf mitt yrði aldrei sem fyrr, ég var sáttur.

-Auglýsing-

Á erfiðustu tímum lífs míns urðu á vegi mínum manneskjur sem breyttu lífsviðhorfum mínum til frambúðar.
Hjúkrunarkonan sem strauk mér um ennið og talaði við mig meðan á hjartaþræðingu stóð. Læknirinn sem hlustaði á mig til enda af mikilli þolinmæði og útskýrði fyrir mér hvernig staðan væri á sinn einstaka hátt í hvert skipti sem mér fannst á mér troðið. Læknirinn sem sá um endurhæfinguna mína tók mér alltaf fagnandi, horfði í augun á mér af mikilli einlægni og sagði mér ávallt sannleikan um ástand mitt hversu sár sem hann var. Hjúkrunarkonan á gjörgæslunni sem talaði fallega til mín, klappaði mér og strauk,  gaf skilningi mínum um mannlega nálægð nýja vídd. Sjúkraþjálfarinn minn sem tók á móti mér viku eftir viku, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár og mér leið oftast eins og ég væri alveg að ná þessu.
 
Ástin bankaði upp á hjá mér á vormánuðum 2003 og Mjöllin mín kom inn í lífið mitt af fullum krafti. Þó að við höfðum þekkst í um eitt og hálft ár hafði okkur ekki alveg tekist að stilla strengina, en núna tókst það. Ekki nóg með það heldur hljómaði af þeim strengjum undra fögur tónlist sem ég hafði ekki kynnst áður. Eftir það höfum við gengið saman veginn og okkur fundist við sólarmegin.
 
Sólargeislarnir eru allt hið fallega og það frábæra fólk sem gaf sér tíma til að hlusta á okkur Mjöll. Fólk sem hefur grátið með okkur. Fólk sem hefur hlegið með okkur. Fólk sem hefur haldið í höndina á okkur þegar blés á móti. Fólk sem hefur haft trú á okkur og síðast en ekki síst fólk sem hefur umborið þetta brölt okkar og stutt okkur áfram með ráðum og dáð frá fyrstu stundu.

Tengsl mín við fjölskyldu mín breyttust og ég er þakklátur fyrir að eiga þau að og það er gott að sitja með þeim í sólinni.

- Auglýsing-

Þrátt fyrir ágreining minn við kerfið eða spítalann og suma meðferðarlækna mína var ég svo lánsamur að hitta eins og áður sagði  lækna og hjúkrunarfólk sem létu sér annt um ástand mitt og reyndust mér einstaklega vel, fyrir það verð ég ævarandi þakklátur. Þetta fólk hjálpaði mér að að greina á milli þess sem var rétt og þess sem var rangt við meðferð mína.

Allt mitt líf hafði ég verið rekinn áfram af miklum metnaði og kannski ekki veitt litlu hlutunum í kringum mig nægjanlega mikla athygli en nú blasa þeir hvarvetna við mér. Þrátt fyrir allt er ég ennþá uppfullur af eldi og ástríðum þótt hugur minn fari alloft fram úr líkamanum.

En í gegnum árin hef ég skrifað hjá mér eitt og annað. Mig óraði ekki fyrir því þegar ég skrifaði fyrsta pistilinn minn á hjartalíf.is um hjartaáfallið að nú sex árum seinna fylltu þeir pistlar sem við Mjöll höfum skrifað hátt í 100 blaðsíður og 50.000 þúsund orð.

Þann 4. Febrúar næstkomandi verð ég 45 ára. Þann 9. febrúar næstkomandi verða komin átta ár frá hjartaáfallinu. Á þessum 8 árum sem liðin eru hef ég farið í 12 hjartaþræðingar í þrem löndum. Ég hef farið í einn stóran hjartauppskurð. Farið í TURP aðgerð vegna góðkynja stækkunar í blöðruhálskirtli. Hef farið í tvo skurði þar sem fjarlægð hafa verið góðkynja æxli í nára. Á þessu tímabili greindist ég ólæknandi lifrarsjúkdóm sem heitir Primary Biliary Chirrhoses eða PBC. Ég hef ekki tölu hversu oft ég hef farið til læknis eða á bráðmóttöku vegna ástands míns en hér er ég enn og hef gaman að.

Það var þess vegna mikil uppgötvun fyrir mig að þó lífið væri kannski smærra í sniðum en ég hafði hugsað mér væri það síst verra, bara öðruvísi.

Árósum 02.02. 2011

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-