Að njóta rólegrar stundar á laugardagsmorgni með fjölskyldunni getur haft margvíslegan ávinning fyrir heilsuna.
Morgunpúlsinn er einn mælikvarði sem tengist bæði andlegri og líkamlegri vellíðan og rólegir helgarmorgnar geta hjálpað til við að halda honum í skefjum. En hvað þýðir morgunpúlsinn í raun fyrir heilsuna þína og hvernig getur hann tengst blóðþrýstingi og almennri vellíðan og hvað segja rannsóknir?
Hvað er morgunpúls?
Morgunpúlsinn er einfaldlega sú hjartsláttartíðni sem líkaminn hefur eftir góðan nætursvefn þegar líkaminn er mest afslappaður. Fyrir flesta liggur hann á milli 60 og 100 slaga á mínútu en það getur verið einstaklingsbundið. Morgunpúlsin getur gefið mikilvægar upplýsingar um almennt heilsufar þitt. Ef púlsinn er hærri en venjulega getur það verið vísbending um streitu, þreytu, eða jafnvel veikindi. Rannsóknir hafa sýnt að reglulegur hvíldarpúls á neðri mörkum er betri fyrir hjartaheilsu. Rannsókn sem birt var í Journal of the American College of Cardiology sýndi að hækkun á hvíldarpúls um 10 slög á mínútu getur aukið hættuna á hjarta- og æðasjúkdómum um allt að16% hjá fullorðnum einstaklingum.
Gildi rólegrar morgunstundar fyrir blóðþrýsting
Róleg morgunstund getur lækkað bæði púls og blóðþrýsting. Þegar við tökum okkur tíma til að njóta stundarinnar, hvort sem það er með góðum kaffibolla, samveru með fjölskyldunni eða einfaldlega með því að slaka á í rólegheitum, minnkar streituhormónið kortisól í líkamanum. Þetta hormón getur haft áhrif á bæði hjartslátt og blóðþrýsting þannig að þegar við náum að róa huga og líkama dregur það úr álagi á hjartað.
Rannsóknir á áhrifum streitu á blóðþrýsting
Rannsóknir hafa sýnt að aukið magn kortisóls getur haft neikvæð áhrif á blóðþrýsting og hjartsláttartíðni. Rannsókn sem birt var í tímaritinu Hypertension var bent á að streita hefur langvarandi áhrif á hækkaðan blóðþrýsting en streitulosandi aðferðir, svo sem slökun á morgnana geta dregið úr þessum áhrifum.
Fjölskyldustundir sem stuðla að bættri heilsu
Það að eyða gæðastundum með fjölskyldunni getur haft mikil áhrif á andlega heilsu og vellíðan, sem aftur hefur áhrif á líkamlega heilsu og lífsgæði. Aukin samkennd og samfélagsleg tengsl eru nauðsynleg til að draga úr einmanaleika og streitu en bæði eru þættir sem tengjast auknum líkum á hjarta- og æðasjúkdómum. Rólegur morgun með fjölskyldunni skapar tækifæri til að endurstilla, vera til staðar og njóta án þess að flýta sér – sem getur haft bein áhrif á hjartaheilsu.
Að lokum
Morgunpúlsinn er ekki bara tala, heldur spegill á heilsu þína og vellíðan. Með því að taka því rólega og eiga ljúfa morgunstund með fjölskyldunni, geturðu haft jákvæð áhrif á hjartaheilsuna, lækkað blóðþrýsting og stuðlað að jafnvægi í lífi þínu. Mundu að stundum er besta heilsuráðið að hægja aðeins á og njóta.
Björn Ófeigs.