Eftir Davíð O. Arnar: “Aðstaðan á hjartaþræðingastofunum er að mörgu leyti góð en þræðingatækin eru orðin gömul og mjög brýnt að endurnýja að minnsta kosti eitt tækjanna.”
Gríðarlegar framfarir hafa orðið í meðferð hjartasjúkdóma á undanförnum tveimur áratugum. Þessar framfarir hafa ekki síst átt sér stað í inngripum sem unnt er að gera á kransæðum og svo leiðslukerfi hjartans með þræðingatækni. Þar ber kannski hæst möguleika á víkkun kransæðaþrengsla og svo ísetningu á stoðneti á þrengslasvæðinu. Í fyrstu var aðallega ráðist til atlögu við einfaldari þrengsli en með betri tækni hefur orðið mögulegt að gera við útbreiddari og flóknari þrengsli með góðum árangri. Kransæðavíkkun með ísetningu stoðnets er nú beitt til jafns hjá innkölluðum sjúklingum af biðlista og þeim sem koma inn með bráðan kransæðasjúkdóm. Brennsluaðgerðir vegna hjartsláttartruflana eru sömuleiðis framkvæmdar með hjartaþræðingatækni og hafa gjörbreytt meðferðinni þegar um er að ræða aukaleiðslubönd í hjarta. Brennsluaðgerðum er nú beitt í vaxandi mæli við flóknari takttruflanir.
Hjartaþræðingar hérlendis eru eingöngu gerðar á Landspítala. Við bráða kransæðastíflu er kransæðaþræðingu með víkkun á lokuðu æðinni nú beitt sem fyrstu meðferð. Kransæðavíkkun undir þessum kringumstæðum skilar betri árangri en meðferð með segaleysandi lyfjum, sem var áður notuð. Sú nálgun að beita bráðri kransæðavíkkun undir þessum kringumstæðum var fest í sessi seinni hluta árs 2003 þegar sólarhringsvakt var tekin upp á hjartaþræðingastofu. Nú er haldið úti vakt á hjartaþræðingastofu alla daga, allan ársins hring. Samhliða þessum breytingum var ráðist í endurskoðun ýmissa annarra þátta í verklagi við móttöku einstaklinga með bráðan kransæðasjúkdóm. Þetta hefur meðal annars leitt til lækkunar á 30 daga dánartíðni eftir kransæðastíflu úr rúmlega 11% um aldamótin í 4-5% á síðustu 2-3 árum. Þessi 30 daga dánartíðni er nú með því lægsta sem þekkist á heimsvísu.
Starfsemin á hjartaþræðingastofu Landspítala er mjög umfangsmikil. Alla jafna er unnið samtímis á þremur stofum. Hjartaþræðingar á kransæðum fara fram á tveimur stofum en aðgerðir vegna hjartsláttartruflana á þeirri þriðju. Á síðasta ári voru framkvæmdar 1.765 hjartaþræðingar á Landspítala og þar af voru gerðar 630 kransæðavíkkanir. Þar að auki eru gerðar rúmlega 300 gangráðsaðgerðir og rúmlega hundrað brennsluaðgerðir vegna hjartsláttartruflana árlega á þræðingastofunni. Á síðastliðnu ári var tekin upp merkileg nýjung, sem er ísetning á ósæðarloku með þræðingatækni. Alls 15 slíkar aðgerðir hafa verið framkvæmdar til þessa með góðum árangri.
Nú er einnig farið að gera brennsluaðgerðir vegna flóknari takttruflana en áður, meðal annars vegna gáttatifs. Slíkar aðgerðir krefjast mjög sérhæfðs tölvubúnaðar til kortlagningar á upptökum takttruflunarinnar og aðstoðar við ákvörðun um brennslustaði í vinstri gáttinni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að reyna að fylgja þróuninni í tækniframförum hvað þetta varðar en fjöldi tilfella gáttatifs fer vaxandi og getur verið mjög erfitt á köflum að meðhöndla það vandamál með lyfjameðferð eingöngu.
Aðstaðan á hjartaþræðingastofunum er að mörgu leyti góð en þræðingatækin eru orðin gömul og mjög brýnt að endurnýja að minnsta kosti eitt tækjanna. Elsta tækið er orðið 16 ára gamalt og komið langt fram yfir það sem getur talist eðlilegur endingartími. Því hefur reyndar verið mjög vel við haldið en það er orðið gríðarlega aðkallandi að fá nýtt tæki. Annað tæki er orðið 12 ára gamalt og þarf að endurnýja það á allra næstu árum. Nýjasta tækið var tekið í notkun fyrir fjórum árum og er í mjög góðu standi en af ofansögðu má þó vera ljóst að mikið álag er á hjartaþræðingatækjunum. Það er nauðsynlegt fyrir starfsemi hjartalækninga á sjúkrahúsinu að öll tækin séu hæf til notkunar. Því eldri sem tækin eru því lakari verða myndgæði og viðhaldsdagar fleiri. Það er eitt af allra brýnustu verkefnum Landspítala í tækjakaupamálum að fá nýtt hjartaþræðingatæki. Slíkt tæki er þó frekar dýrt og kostar um 150 milljónir króna. Eins og flestum er kunnugt hefur fé til tækjakaupa á sjúkrahúsinu verið af mjög skornum skammti og oftar en ekki höfum við þurft að reiða okkur á gjafafé þegar kaupa á ný eða endurnýja þarf mikilvæg tæki. Stuðningur einkasjóða, eins og sjóðs Jónínu heitinnar Gísladóttur, og sjúklingasamtaka, eins og Hjartaheilla, hefur verið okkur ómetanlegur í þessu tilliti.
Inngrip með þræðingatækni eru hornsteinn í meðferð bæði kransæðasjúkdóma og hjartsláttartruflana. Undanfarin ár hafa verið mjög örar tækniframfarir í bæði kransæðaþræðingum og brennsluaðgerðum. Þessar framfarir auðvelda framkvæmd aðgerðanna, bæta árangur og auka öryggi þeirra. Mikill niðurskurður í heilbrigðiskerfinu hérlendis hefur gert okkur mjög erfitt fyrir með að fylgja þessum framförum. Það er hins vegar mikilvægt fyrir okkur að dragast ekki aftur úr hvað þetta varðar. Íslendingar gera kröfur um að hér sé heilbrigðisþjónusta í fremstu röð. Til að svo megi vera þarf aðstaðan að vera í samræmi við þær væntingar.
Höfundur er yfirlæknir hjartaþræðinga á Landspítala.