Á mbl.is er sagt frá rannsókn sem skilaði rannsakendum niðurstöðum sem þeir áttu ekki von á. Það skal þó sagt í upphafi að aðferðin sem notuð var er í meira lagi vafassöm. Það kom semsagt í ljós að með því að borða aðeins í átta klukkustundir á dag en fasta síðan það sem eftir er dagsins gæti tengst aukinni hættu á dauðsföllum af völdum hjartaáfalla og heilablóðfalla, að sögn vísindamanna.
Almennt hafa vísindamenn tengt fösturnar við betri niðurstöður til skamms tíma þegar kemur að blóðþrýstingi, blóðsykri og kólesteróli en samkvæmt rannókninni gegnir öðru máli um langtíma áhrif þess.
Takmarkaðar upplýsingar um matarvenjur
Niðurstöður til langs tíma hafa aftur á móti núna verið kannaðar í einni af fyrstu rannsóknum þess efnis, að því er The Times og fleiri miðlar greina frá.
Eftir að hafa fylgst með um 20 þúsund fullorðnum einstaklingum í Bandaríkjunum kom í ljós að þeir sem sögðust borða innan átta klukkustunda glugga voru næstum því tvisvar sinnum líklegri til að deyja af völdum hjartaáfalla eða heilablóðfalla, samanborið við þá sem sögðust dreifa máltíðum sínum og millimálum á 12 til 16 klukkustundir.
Vísindamennirnir sem gerðu rannsóknina lögðu áherslu á að taka skuli niðurstöðunum með fyrirvara, þar sem rannsókn sem þessi geti ekki sannað orsök og afleiðingu. Einnig sögðust þeir hafa takmarkaðar upplýsingar um matarvenjur þátttakendanna.
Niðurstöðurnar komu á óvart
Victor Wenze Zhong aðalhöfundur rannsóknarinnar sagði niðurstöðurnar hafi komið mjög á óvart. “Við höfðum reiknað með því að langtímaáhrif þess að borða innan átta tíma glugga á sólahring myndi leiða til minnkandi áhættu á hjarta og æðasjúkdómum og dauða af öðrum orsökum.”
“Við urðum því mjög undrandi þegar í ljós kom að þeir sem stunduðu hlutaföstu og neyttu einungis matar innan 8 tíma glugga en föstuðu 16 tíma til lengri tíma voru í meiri hættu að deyja úr hjarta og æðasjúkdómum. Þó þessi tegund af matarvenjum hafi verið vinsæl vegna jákvæðra skammtímaáhrifa sýnir rannsóknin að borðið saman við hefðbundnar matarvenjur þar sem neysla matar dreifist yfir 12-16 tíma á sólahring virðist hlutafasta til lengri tíma ekki tengjast lengra æviskeiði.
Frekari rannsókna þörf
Það er mikilvægt fyrir sjúklinga og þá helst þá sem eru nú þegar með hjarta og æðasjúkdóm eða krabbamein að vera meðvitaðir um tenginguna á milli hlutaföstu til lengri tíma og aukinni áhættu á dauða af völdum hjartasjúkdóma.
Niðurstöður rannsóknarinnar hvetja til meiri varkárni við val á mataræði/matarvenjum og mikilvægi þess að vera með einstaklingmiðaðar leiðbeiningar þar sem tekið er mið af heilsufari einstaklingsins og nýjustu vísindalegu niðurstaðna.”
Aðstandendur rannóknarinnar viðurkenna að rannsóknin hafi takmarkanir vegna þess hún er byggð á því að þáttakendur skiluðu sjálfir upplýsingum um mataræði sitt og þá jafnvel eftir minni og geti það gefið skakka mynd af raunverulegu munstri á matarvenjum viðkomandi.
Rannsóknin er áhugaverð en annmarkar á framkvæmd hennar eru svo miklir að ber að taka niðurstöður hennar með mikilli varúð. Í öllu falli er ljóst að frekari rannsókna er þörf.
Hægt er að lesa nánar um rannsóknina hér
Björn Ófeigs.