Í Morgunblaðinu í dag er að líta þennan pistil sem ég skrifaði af tilefni þess að alþjóðlegi hjartadagurinn er næsta sunnudag.
Staðan er þannig að ég heyri fréttir, nánast í hverri viku, af fólki á besta aldri sem deyr í kjölfar hjartaáfalls. Árlega látast um 700 Íslendingar af völdum hjarta- eða æðasjúkdóma eða 40% þeirra sem látast á hverju ári.
Þessi staða minnir okkur á að það skiptir máli, og getur reyndar bjargað lífi okkar, að panta okkur tíma hjá sérfræðingi og láta kanna blóðsykur, kólesteról, finna út þyngdarstuðul og mæla blóðþrýsting. Það er nefnilega nauðsynlegt að þekkja gildin okkar þótt við kennum okkur einskis meins. Það skal hins vegar tekið fram að það að fara í skoðun er ekki endilega trygging fyrir því að hjartað geti ekki bilað en gera má ráð fyrir að slíkar ráðstafanir auki verulega líkur á að fyrr komist upp um hjarta- eða æðasjúkdóm. Fleira kemur þó til en að þekkja líkama sinn.
Þegar ég fékk hjartaáfall fyrir fimm og hálfu ári var ég 37 ára gamall. Afi minn hafði fengið hjartaáfall sjötíu og fjögurra ára og dáið. Amma mín hafði farið í hjartaskurðaðgerð 64 ára en samt leit ég aldrei svo á að það væri veruleg saga um hjarta- eða kransæðasjúkdóma í ættinni. Fólk var bara að eldast og eitthvað hlaut þá að koma upp.
Það merkilega gerðist þó að um einu og hálfu ári eftir mitt hjartaáfall fékk pabbi minn vægt hjartaáfall en vegna þess að þá var farin að myndast fjölskyldusaga var ekki tekin nein áhætta varðandi hann, brugðist var skjótt við og slapp hann því nokkuð vel eða með hjartaþræðingu og sett var stoðnet í kransæð. Móðurbróðir minn fór um svipað leyti í opna hjartaskurðaðgerð. Í lok árs 2006 fór bróðir minn, þá 32 ára, í hjartarannsókn, án þess að kenna sér nokkurs meins, en fjölskyldan var orðin ansi uggandi vegna þessarar sögu sem virtist koma meira og meira í ljós, og viti menn; 15 til 20% þrengingar voru í sömu æð og stíflaðist hjá mér. Hann fór tímanlega í rannsókn, fékk lyf og því varð enginn skaði. Skyndilega var fjölskyldusaga okkar farin að taka á sig allverulega breytta mynd frá því ég veiktist árið 2003.
En sögunni var ekki lokið því pabbi minn fékk annað hjartaáfall og alvarlegra um páskahelgina 2007. Að hans sögn var aðdragandinn stuttur og hann hafði ekki fundið fyrir óþægindum fyrr en síðustu dagana fyrir áfallið. Hann hafði þá notað sprengitöflur og gaf verkurinn eftir og því taldi hann ekki að um hættu væri að ræða. Aðfaranótt páskadags eftir um klukkustundar svefn kom verkurinn í brjóstið og leiddi út í handlegg, ógleði og slappleiki. Fyrsta sprengitaflan virkaði ekki og það var ekkert annað að gera en að hringja í 112. Hann var reyndar staddur uppi í sumarbústað svo það var ekki annað hægt fyrir konuna hans en að rjúka með hann út í bíl og keyra á móti sjúkrabílnum.
Við hjartaþræðingu kom í ljós að 90% lokun var á slæmum stað í kransæð. Ef hún hefði lokast hefði hann dáið.
Svona er þetta nú knappt stundum og það er örstutt lína sem liggur milli lífs og dauða.
En af honum pabba mínum er allt gott að frétta, hann fór í hjáveituaðgerð (bypass) í kjölfarið sem gekk vel. Þökk sé skjótum viðbrögðum.
Manni bregður illilega við svona uppákomur og þrátt fyrir fjölskyldusögu og fyrri sögu einstaklings verður maður hræddur þegar lífi nákomins ættingja er ógnað með jafnskýrum hætti.
Þetta minnir okkur líka öll á að brjóstverkir eða hjartaverkir eru dauðans alvara og þá ber að taka grafalvarlega og það strax, líf þitt eða þinna nánustu getur oltið á viðbrögðum þínum.
Taktu ábyrga afstöðu, þekktu þína áhættu og eigðu gott hjartalíf alla ævi.
Morgunblaðið 26.09.2008