Hjartabilun kallast það ástand þegar afkastageta hjartans takmarkast af einhverjum orsökum. Oft á þetta sér stað í kjölfar bráðrar kransæðastíflu/hjartaáfalls en auk þess geta margir aðrir þættir haft áhrif. Einstaklingur sem fæðist með hjartasjúkdóm, hefur fengið æðasjúkdóm eða hjartaáfall þarf ekki að vera með hjartabilun nema ef eitt þessara vandamála kemur í veg fyrir að hjartað dæli nægjanlegu blóði um líkamann.
Hjartabilun er ástand sem skánar ekki heldur versnar smám saman með tímanum. Það er þó mjög einstaklingsbundið hversu hratt fólki hrakar og getur lyfjameðferð haft góð áhrif og jafnvel haldið einkennum í lágmarki til lengri tíma.
Á Íslandi er meðalaldur hjartabilaðra einstaklinga 74 ár en 60% sjúklinganna látast innan fjögurra ára frá greiningu. Í Bandaríkjunum er meðalaldur hjartabilaðra 64 ár og 50% sjúklinga látast innan fimm ára frá upphafi sjúkdóms.
Þau einkenni sem oftast eru tengd við hjartabilun eru: mæði og þreyta við áreynslu (dyspnea), mæði í hvíld þá sérstaklega þegar legið er fyrir (orthopnea) vegna bólgu og vökvasöfnunar í lungum og almenn þreyta.
Framfarir í læknisfræði eru það miklar að ýmsar tilraunir hafa reynst hjartabiluðum vel. Þar má m.a. nefna hjálpardælur fyrir hjartabilaða og hjartaígræðslur. Þannig líta nýjar uppgötvanir dagsins ljós nánast á hverjum degi.
Flokkun hjartabilunar
Samkvæmt heimasíðu Landlæknisembættisins má skipta hjartabilun í fjóra flokka:
- Flokkur I Engin skerðing á þreki; venjuleg áreynsla leiðir ekki til óeðlilegrar þreytu, mæði eða hjartsláttareinkenna.
- Flokkur II Væg skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en venjuleg áreynsla veldur þreytu, mæði eða hjartsláttareinkennum.
- Flokkur III Mikil skerðing á þreki; engin einkenni í hvíld en þau koma fram við litla áreynslu.
- Flokkur IV Sjúklingur getur ekkert gert án þess að fá einkenni; Þau eru oft til staðar í hvíld og aukast við minnstu áreynslu.
Samkvæmt flokkuninni hér að ofan lýsir hjartabilun sér ekki eins hjá öllum og hver sjúklingur getur flust á milli flokka eftir því hvort hann á góðan dag eða slæman. En á heildina litið geta margir hjartabilaðir lifað nokkuð eðlilegu lífi á meðan aðrir þurfa nánast að berjast fyrir lífi sínu á degi hverjum.
Slagbilstruflun
Hjartabilun skiptist í tvö megin tilbrigði, slagbilstruflun og hlébilstruflun. Slagbilstruflun (Systolic heart failure) kallast sú tegund hjartabilunar þegar hjartað dælir ekki nægilega miklu blóði. Blóðið situr eftir í hvolfum hjartans og sest svo fyrir í lungum og æðum líkamans.
Flestir hjartabilaðir einstaklingar þjást af slagbilstruflunum. Algeng mæling vegna þessa kvilla er útstreymisbrot (ejection fraction), sem er hlutafll þess blóðs sem vinstra hvolf nær að dæla út í hverju slagi. Eðlilegt útstreymisbrot er hærra en 50%.
Hlébilstruflun
Það þegar hjartað getur ekki fullkomlega slakað á á milli slaga og þannig fyllist ekki nægilega af blóði kallast hlébilstruflun (Diastolic heart failure). Hár blóðþrýstingur, hjartavöðvsjúkdómar, bólgur í gollurhúsi, lyfjameðferðir gegn krabbameini og erfðaþættir geta leitt til hlébilstruflana. Einkenni eru svipuð og við aðra hjartabilun.
Samkvæmt heimasíðunni www.chfpatients.com eru allt að 33% hjartabilaðra með hlébilstruflanir og áhættan eykst með aldrinum. Lífslíkur sjúklinga með hlébilstruflun eru hærri en þeirra með slagbilstruflun.
Vinstri og hægri hjartabilun
Hægt er að fá hjartabilun í bæði vinstri og hægri hluta hjartans en það fer eftir því hvor hlutinn er meira skemmdur. Við vinstri hjartabilun minnkar blóðflæðið til líkamanns og vökvi safnast fyrir í lungunum. Þetta gerist vegna þess að vinstri hluti hjartans hefur breyst í nokkurskonar stíflu og vökvageymirinn bakvið hjartað er lungað.
Hægri hjartabilun orsakast einnig af skertu blóðflæði en vökvageymirinn hægra megin er líkaminn allur. Þess vegna framkallast bólgur í fótum, kviðarholi (þ.á.m. lifur). Hægri hjartabilun getur valdið verkjum hægra megin í efri hluta kviðarholsins vegna stálma í lifur. Einnig getur viðkomandi haft litla matarlyst, þjáðst af ógleði og uppþembu.
Hjartavöðvasjúkdómar
Hjartavöðvasjúkdómar (Cardiomyopathy) geta orsakast af vírus í hjartavöðvann en oft er orsökin ekki kunn. Sjúkdómar af þessari tegund eru að mörgu leyti ólíkir öðrum hjartasjúkdómum en þeir eru helsta ástæða hjartaígræðslu.
Til eru þrjár grunngerðir hjartavöðvasjúkdóma aðgreindar eftir því hverskonar vöðvavandamál eiga hlut að máli:
Hjartavöðvaslen (dialated cardiomyopathy), sem er algengasti hjartavöðvasjúkdómurinn, er þegar hjartavöðvinn missir kraft sem veldur því að hjartahólfin stækka. Sjúkdómurinn hrjáir helst fólk á miðjum aldri, frekar þó karlmenn en kvenmenn. Þó hefur hjartavöðvaslen verið greint í fólki á öllum aldri, jafnvel börnum.
Eftirfarandi ástand getur leitt til hjartavöðvaslens:
- Hár blóðþrýstingur
- Sýking
- Alkóhól og ákveðin krabbameinslyf
- Hjartalokugallar
- Viðvarandi hraður hjartsláttur
- Lélegt mataræði
- Blóðsjúkdómar
- Taugakvillar
- Meðganga
- Erfðafræðilegar ástæður
- Önnur óþekkt atriði
Ofþykktarsjúkdómur hjartavöðva (hypertrophic cardiomyopathy) er þegar hjartavöðvinn er þykkari en eðlilegt er og torveldar því blóðflæði um hjartað. Þessi sjúkdómur er sjaldgæfur en getur bæði lagst á karlmenn og konur á öllum aldri. Ekki er vitað hvað veldur því að hjartaveggurinn þykkni óeðlilega en þykkingin getur átt sér stað á nokkrum stöðum í hjartahólfunum. Þó benda erfðarannsóknir til að stökkbreyting í ákveðnu geni sé algeng orsök.
Þrjú helstu einkenni oþykktarsjúkdóms eru mæði, brjóstverkur og yfirlið í áreynslu. Auk þess geta önnur einkenni hjartabilunar látið á sér kræla. Sjúkdómurinn greinist nú oftar en fyrr með tilkomu ómsjárskoðunar.
Flestir þeir sem greindir eru með ofþykktarsjúkdóm geta lifað nokkuð eðlilegu lífi þó svo tilfellin séu mismunandi. Oft eru gefin lyf við sjúkdómnum en einnig þurfa sumir að fara í skurðaðgerð (myectomy) þar sem hluti ofþykktarinnar er fjarlægður til að létta á álagi hjartans.
Hjartavöðvakvilli með aðþrengingu (restrictive cardiomyopathy) er þegar hjartavöðvinn stífnar og getur ekki fyllst á skilvirkan hátt í þenslu, þ.e. á þeim tíma hjartsláttarins þegar hjartahólfin fyllast af blóði.
Þessi kvilli er mjög sjaldgæfur og orsakir hans eru að mestu ókunnar. Flest einkenni hjartabilunar eru algeng hjá sjúklingum með hjartavöðvakvilla með aðrengingu.
Meðferð
Lyf eru mikilvæg í meðfeð hjartabilunar ekki einungis til að bæta líðan sjúklings heldur einnig til að hefta framgang sjúkdómsins. Þá er hreyfing einnig mikilvægur hluti meðferðar eins og reyndar allra hraustra eða veikra. Áður var fólki með hjartabilun ráðlagt að reyna ekki mikið á sig en nýlegar rannsóknir sýna að regluleg hreyfing hefur góð áhrif á hjartabilaða. Hún eykur þol og styrk og getur jafnvel dregið úr einkennum. Þó er mælt með því að einstaklingar með hjartabilun byrji að þjálfa undir eftirliti.
Heimildir: www.landlaeknir.is, www.chfpatients.com, www.emedicinehealth.com, www.hjarta.is.
Hér fyrir neðan er tengill inn á bækling frá göngudeild hjartabilaðra en það er að finna mjög góðar og áhugaverðar upplýsingar um hjartabilun.
Hér fyrir neðan eru tenglar af chfpatient.com. Þessari síðu er haldið úti af einstaklingi sem að heitir Jon og býr hann í Bandaríkjunum. Það er gríðarlega mikið og gott efni þarna um hjartabilun og er þetta síða sem að sérfræðingar í þessum málum hæla óspart og mæla með.
Þetta eru áhugaverðir tenglar þar sem fjallað er um flest það sem að snýr að hjartabilun auk aðgerða og hjálpartækja fyrir hjartabilaða. Það er rétt að benda á LVDs þar sem fjallað er um hjálpardælur.
The manual (handbók um hjartabilun)
All about heartfailure (Allt um hjartabilun)
Heart failure surgeries and procedures
Artificial heart (gervihjörtu)