Í tilefni af alþjóðadegi um öryggi sjúklinga þar sem sjónum er beint að röngum greiningum/mistökum birti ég þennan pistil um mína sögu. Mistök hafa sannarlega afleiðingar.
Þann 9. febrúar síðastliðinn voru liðinn tuttugu og eitt ár síðan ég fékk alvarlegt hjartaáfall. Mistök voru gerð við greiningu mína og meðferð og í kjölfarið fylgdu málaferli sem stóðu í níu ár.
En ég er lánsamur því ég er á lífi og þrátt fyrir erfið veikindi og slæmar horfur á stundum er ég sáttur þó óneitanlega verði maður stundum meyr þegar hugsað er til baka. því er þó ekki að neita að leiðin að sáttinni var stundum erfið og reyndi á. Með sáttinni kom svo fyrirgefningin og hún skipti máli.
Mistök hafa afleiðingar
Frá áfallinu hef ég farið í um tuttugu hjartaþræðingar, einn stóran opinn hjartauppskurð og farið þrjár ferðir til Svíðþjóðar þar sem var lagt mat á hvort hjartaskipti væru kostur í stöðunni. Í dag er ég með hjartabilun og geng með gangráð/bjargráð en spítalaferðirnar hef ég ekki lagt í að telja. Eins undarlega eins og það kann að hljóma þá held ég að þessi reynsla mín hafi gert mig að betri manneskju og ég get sagt frá innstu hjartarótum að ég sé sáttur þó stundum verði ég meyr þegar ég hugsa til baka. Ég fór í mál við spítalann og það tók 9 ár að fá úr því niðustöðu sem var mér í hag. Eftir að málaferlunum lauk hitti ég læknirinn sem bar ábyrgð á mistökunum og það var bæði gott og hollt fyrir okkur báða. 12 árum eftir mistökin fékk ég síðan afsökunarbeiðni frá spítalanum.
Fyrstu árin eftir hjartaáfallið voru sérstaklega erfið og lífsgæðin léleg. Ég rétt svo náði að sinna mínum daglegu þörfum en nánast ekkert umfram það. Smám saman náðust betri tök á ástandinu og því er að þakka góðu fólki bæði læknum og hjúkrunarfólki sem sífellt leitaði leiða til að bæta lífsgæði mín. Straumhvörf urðu síðan þegar ég fékk tveggja slegla gangráð fyrir rúmum 9 árum síðan. Í framhaldi af því prófaði ég að hjóla á rafhjóli og það hefur veitt mér mikla gleði að hjóla á rafhjóli og þannig hjóla ég fyrir hjartað eftir því sem heilsan leyfir. Ég hef lært að lifa með afleiðingum áfallsins en afkastageta hjartans er skert og takmarkar það ýmislegt sem mörgum þykir sjálfsagt.
Hjartaáfallið
Sunnudaginn 9. febrúar fyrir 21 ári síðan vaknaði ég eins og venjulega nema mér leið ekki sérlega vel. Ég var með ónot eða óþol í kroppnum sem ég kannaðist ekki við. Ég fékk mér morgunteið mitt og hugsaði með mér að sennilega væri líkaminn að jafna sig eftir streitu undangenginna ára. Ég var langþreyttur og hugsaði með mér að kannski væri ég bara að verða gamall. Ég brosti með sjálfum mér, gamall þú ert 37 ára.
Það var svolítið eins og morgunmaturinn færi öfugt í mig þannig að ég ákvað að halla mér aðeins. Þegar ég vakna þá er kominn einhverskonar herpingur í brjóstið og ég er stífur í öxlunum, verk milli herðablaðanna á erfitt með andardrátt og ólíkur sjálfum mér. Auk þess sat eins og hella á brjóstkassanum og hugsaði með mér hvort ég væri að fá hjartaáfall en bægði þeirri hugsun frá mér. Ég reyndi að harka af mér fæ mér verkjatöflu, skelli mér í jakka, sest upp í bíl og set stefnuna á tónleika.
Félagi minn hoppar inn í bílinn og við brunum af stað. Þegar á áfangastað er komið snarast ég út úr bílnum og lít upp tröppurnar tuttugu sem ég þarf að ganga upp til að komast að tónleikahúsinu. Verkurinn í brjóstinu er enn að plaga mig og ég yggli mig í framan áður en ég legg í hann upp tröppurnar. Í tröppu þrjú byrja ég að vera móður og ég finn hvernig snarþyngir fyrir brjóstinu en áfram held ég upp tröppurnar og verkurinn heldur áfram að versna. Nú er hann farinn að leiða út í axlirnar, það slær út á mér köldum svita og mér líður orðið mjög illa og er lafmóður. Vinur minn hafði skokkað léttilega á undan mér og lent á spjalli við fólk. Hann lítur framan í mig þegar ég loksins kem upp tröppurnar náfölur, móður og kaldsveittur að niðurlotum kominn. Hann er fljótur að átta sig og segir við mig ”heyrðu karlinn við erum að fara með þig á spítala því mér sýnist þú vera að fá hjartaáfall” ég styn og hann grípur um mig, leiðir mig niður tröppurnar og inn í bíl og keyrir rösklega í áttina að Borgarspítalanum á bráðamóttökuna.
Bráðamóttökurnar
Ég á erfitt með andardrátt og finnst eins og mig vanti súrefni. Verkurinn er stöðugur eins og haldið sé heljartaki um brjóstið á mér og verkurinn leiðir út í axlir og báða handleggi, það perlar af mér kaldur sviti og mér finnst ég vera að deyja. Mér er hjálpað út úr bílnum og ég stend ekki undir mér, verkirnir óbærilegir og ég gefst upp. Fólk kemur hlaupandi og mér er komið fyrir á börum og um leið fæ ég töflu undir tunguna. Ég er keyrður inn á stofu, rifinn úr jakkanum og nálum komið fyrir í báðum handleggjum og allskonar leiðslum komið fyrir á brjóstinu á mér og tækin fara að pípa allt í kringum mig. Það er mikið um að vera og margar hendur á lofti.
Sú hugsun skítur upp kollinum hjá mér að hugsanlega sé ég að lifa síðustu andartökin í þessu lífi. Fyrst verð ég meir og hugsa um hver tilgangur minn hafi þá verið í þessu lífi eftir allt saman. Mér vöknar um augun yfir örlögum mínum og verkirnir eru svo miklir að lausn frá þeim væri kannski ekki svo slæmur kostur í stöðunni.
Skyndilega var eins og regla kæmist á hugsanir mínar og yfir mig færðist ró og ég hugsaði með mér að já það hefur verið tilgangur með lífi mínu og ef þetta er mín hinsta stund í lífinu þá er það allt í lagi. Allt er eins og það á að vera.
Ég veit ekki hvort það voru lyfinn sem ég hafði fengið sem gerðu það að verkum að mér leið betur og tækin píptu ekki í sífellu. Hjúkrunarfólkið í kringum mig er elskulegt og segir mér að nú séu þau búin að ná tökum á ástandinu og verið sé að panta sjúkrabíl sem flytji mig á bráðmóttöku brjóstverkja niður á Hringbraut þar sem frekari greining og meðferð fari fram. Verkirnir í brjóstinu eru ekki farnir en mér líður betur en ég er þreyttur og eftir mig en finnst ég vera í góðum höndum.
Rúmlega klukkustund eftir að ég kom inn á Borgarspítalann er ég fluttur með sjúkrabíl niður á Hringbraut með fullt fangið af pappírum sem eiga að fylgja mér þangað (seinna kom í ljós að hluti þessara pappíra týndust og hafa aldrei komið fram). Það eru smá vandræði með að koma mér fyrir á Hjartagáttinni en á endanum er ég settur í hliðarherbergi sem er heldur kuldalegt. Engin bjalla og það er hent yfir mig teppi. Það er hafist handa við að taka blóðprufur, taka hjartalínurit og svo er mér sagt að bíða.
Biðin – mistökin
Við tekur löng bið og ég skoða umhverfi mitt sem er frekar óvistlegt svo ekki verði meira sagt og ég er með eitt teppi yfir mér og ég skelf úr kulda. Verkirnir eru farnir að sækja að mér aftur með auknum krafti og ég byrja að kalla á einhvern sem getur hjálpað mér. Loks kemur hjúkrunarkona og ég spyr hvort hún geti ekki gefið mér eitthvað kröftugra við verkjunum. Hún er ekki fús til þess í fyrstu en eftir dálítið þras þá fæ ég aðeins meira morfín og það léttir um stund, en bara um stund.
Sérfræðingurinn á vakt birtist snögglega og segir að blóðprufurnar hafi komið ágætlega út og hjartalínuritið líka þannig að við höldum bara okkar striki og tökum blóðprufur og nýtt rit eftir þrjá tíma. Hann lítur hvasst á mig og spyr mig hvort verkurinn breytist við innöndun og ég anda djúpt, hugsa, anda meira og er ekki viss en jú það getur verið að hann breytist við innöndun. Mér finnst erfitt að meta þetta og finnst ég settur í óþægilega stöðu enda búinn að fá mikið af verkjalyfjum yfir daginn. Sérfræðingurinn segir mér að líklega sé þetta gollurhúsbólga og hún geti verið sársaukafull en ekki hættuleg. Mér er létt.
En tíminn líður og mér líður ekki betur. Það eru teknar fleiri blóðprufur og hjartalínurit en verkirnir eru allir að færast í aukana.
Ég kalla síendurtekið eftir aðstoð en fæ lengi vel ekkert svar en ég heyri í fólki frammi á ganginum á þönum. Ég held áfram að kalla og loks kemur hjúkrunarkonan og ég kvarta. Hún segir mér að ég sé búinn að fá svo mikið af verkjalyfjum að það sé ekki hægt að dæla þessu í mig endalaust. Ég ber mig aumlega, ég er þjáður. Hjúkrunarkonan fer fram til að athuga málið og kemur að mér finnst löngu seinna og segir að ég geti fengið einn lítinn skammt í viðbót. Hún segir mér jafnframt að nú styttist í að við tökum þriðju blóðprufuna og nýtt rit. Ég kinka kolli og loka augunum.
Tíminn líður og mér finnst eins og engin hugsi um mig. Verkirnir hellast yfir mig af fullum krafti og ég úrvinda af þreytu og orðin lítill í mér þar sem ég hýrist í þessu kalda og óvistlega rými. Ég skelf úr kulda. Tilfinningin segir mér að ég sé ekki í góðum málum, það sé ekki allt með felldu. Það er enginn að sinna mér og mér vöknar um augun. Mér finnst ég ósköp lítill og aumur og aleinn í heiminum.
Loksins er teknar fleiri blóðprufur og hjartalínurit og klukkan orðin rúmlega tíu um kvöldið. Það eru liðnir sex klukkutímar síðan ég kom inn á slysó á Borgarspítalanum.
Það talar engin við mig og ég er orðin viðþolslaus af verkjum. Aftur kalla ég og kalla en fæ ekkert svar mér finnst ég gleymdur.
Greiningin
Skyndilega birtist sérfræðingurinn í dyrunum og hann er alvarlegur í bragði og segir mér að hann ætli að fara með mig í ómskoðun. Hann keyrir mig sjálfur, segir ekkert en er alvarlegur. Hann rennir stykkinu með gelinu yfir bringuna á mér og setur í brýnnar. Skyndilega stendur hann upp og fer í símann en ég greini ekki orðaskil en ég finn að honum er brugðið. Hann keyrir mig rösklega til baka inn á bráðamóttökuna og framhjá kuldalega herberginu sem ég hafði verið í allan daginn. Hjúkrunarfólk kemur á móti okkur og er alvarlegt en elskulegt. Það er eitthvað í gangi sem ég átta mig ekki á enda er ég algjörlega búinn eftir daginn og athyglisgáfan að gefa sig. Það er farið með mig inn á stofu. Innst inn í horni sé ég uppábúið rúm og ég gleðst yfir því að fá loksins að komast inn í hlýjuna og meira að segja í rúm með sæng og bjöllu.
Ég er háttaður upp í rúm og það eru margar hendur í kringum rúmið mitt að koma fyrir tækjum og pokum og nálum, allir elskulegir en alvarlegir á svipinn. Sérfræðingurinn kemur gangandi og hann er þungbrýnn. Hann segir mér að rannsókn hafi leitt í ljós að ég hafi fengið stórt hjartaáfall og ómunin hafi sýnt að það var lítill sem engin samdráttur á stóru svæði framan á hjartavöðvanum. Ég jánka en skil ekki það sem hann er að segja mér og get ekki sett það í neitt samhengi. Ég geri mér þó grein fyrir því að staðan er grafalvarleg og hugsanlega sé lífi mínu ógnað.
Hann segir mér að nú eigi að gefa mér segaleysandi meðferð til að reyna að losa upp tappann sem stíflar kransæðina í hjartanu og kemur í veg fyrir að hjartað fái nægjanlegt súrefnisríkt blóð en á þessum tíma var ekki kominn sólahringsvakt á hjartaþræðingatækin. Án þess að skilja nákvæmlega hvað hann er að segja þá er staðan þannig að það lítur út fyrir að stórt drep hafi myndast á hluta hjartans vegna þess að hjartað hefur ekki fengið næringu svo klukkutímum skipti. Að mér læðist sá grunur að hér hafi átt sér stað hræðileg mistök sem átti svo eftir að koma á daginn.
Hjartadeildin
Stuttu seinna er ég svo fluttur upp á hjartadeild og komið þar fyrir á lítilli einsmanns stofu. Þar er ég settur í gott rúm og hlúð vel að mér. Dagurinn hefur verið erfiður og ég á enga orku eftir en verður hugsað til þess að ekki hafi verið vel hugsað um mig niðri á bráðamóttökunni, það var nöturleg og einmannaleg vist. Ég veit ekki hvað um mig verður eða hvað framtíðin ber í skauti sér en hér talar fólk fallega við mig og er umhugað um að ég hafi það sem best. Ég verð viðkvæmur við þessa nýtilkomnu hlýju sem mér er sýnd og þar sem ég er við það að sofna finn ég hvernig tárin taka að streyma.
Minningarbort frá 9. febrúar 2003
Björn Ófeigs.