GoRed átakið miðar að því að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og hvernig draga megi úr líkum á sjúkdómunum. Aukin vitund kvenna um áhættuþættina hefur einnig óbein áhrif á lífsstíl karla og ungmenna.
GoRed átakið er alheimsátak, á vegum World Heart Federation. Um er að ræða alþjóðlegt langtímaverkefni sem hófst í Bandaríkjunum og víða í Evrópu árið 2004 og hefur verið haldið á Íslandi frá árinu 2009.
Verndari átaksins á Íslandi er Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrum heilbrigðisráðherra. Formaður stjórnar GoRed er Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir sérfræðingur í hjartasjúkdómum.
Hjarta- og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annarsstaðar í heiminum. Jafnmargar konur og karlar látast árlega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma en oft gera konur sér ekki grein fyrir eigin áhættu.
Einkenni sjúkdómsins eru oftar óljósari hjá konum en körlum þannig að greiningarferli og áhættumat vegna hjarta- og æðasjúkdóma tefst oft auk þess sem konum hættir til að fara ekki strax til læknis.
Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar eykst tíðni áhættuþátta hjá konum eftir 50 ára aldur, sem sem hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról, sykursýki og ofþyngd. Með hollu mataræði og reglubundinni hreyfingu má minnka líkurnar á flestum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma.
GoRed á Íslandi er samstarfsverkefni Hjartaverndar, Heilaheilla og Hjartaheilla, auk fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga og og fleiri fagaðila. GoRed stendur nú í fimmta skiptið fyrir átaki til að fræða konur um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, einkennin og hvernig hægt er að minnka líkurnar á að fá þessa sjúkdóma. Við viljum benda á að “GoRed fyrir konur á Íslandi” er á facebook og þú getur smellt hér til að gera “like” við síðuna.
Hjartanlega velkomin á GoRed í Kringlunni laugardaginn 22. febrúar klukkan 14
Dagskráin er ekki fullmótuð en verður auglýst þegar nær dregur.
Til mikils að vinna, því markmið átaksins er að fræða konur og karla um einkenni hjarta- og æðasjúkdóma en sú þekking getur bjargað mannslífi.
Hvaða konur eru í forgangi?
Einkennalausar konur, 40 ára og eldri, ættu að fara í áhættumat til greiningar á áhættuþáttum á 5 ára fresti.
Einkennalausar konur yngri en 40 ára sem hafa ættarsögu um hjarta- og æðasjúkdóm hjá 1. gráðu ættingjum og/eða með sögu um ættgenga blóðfituröskun reglulega
Helstu áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum
- Aldur
- Reykingar. Kona sem reykir er í þre- til fjórfaldar áhættu sína á að fá hjartasjúkdóm
- Sykursýki er alvarlegur áhættuþáttur hjá konum.
- Blóðfituröskun
- Háþrýstingur
- Ættarsaga um kransæðasjúkdóm hjá 1. gráðu ættingjum
- Ofþyngd (BMI > 25-30) sérstaklega aukin kviðfita
- Offita (BMI>30)
- Hreyfingarleysi
Ofangreindir áhættuþættir eru margir hverjir einkennalausir og því þarf að mæla þá sérstaklega.
Einkenni hjartaáfalls og heilaslags – Konur eru öðruvísi
Konur eru líklegri til að upplifa eftirfarandi einkenni hjartaáfalls:
- Óútskýrðan slappleika eða þreytu
- Óeðlilegt kvíðakast eða verða taugaóstyrkar
- Meltingartruflanir eða verk vegna uppþembu
Konur og karlar upplifa eftirfarandi einkenni hjartaáfalls:
- Þyngsl eða verk fyrir brjósti eða fyrir neðan bringubein
- Óþægindi eða verk milli herðablaða, í hálsi, kjálka eða maga
- Verk sem kemur við áreynslu og hverfur við hvíld og getur verið fyrirboði kransæðastíflu
- Stöðugan verk fyrir brjósti etv. með ógleði og kaldsvita sem getur verið einkenni um bráðakransæðastíflu og krefst tafarlausrar meðferðar
Konur og karlar upplifa eftirfarandi einkenni heilaslags:
- Dofa eða máttleysi í andliti, handlegg eða fæti, aðallega í öðrum helmingi líkamans
- Ringlun, erfiðleika með að tala eða að skilja
- Erfiðleika með að sjá með öðru eða báðum augum
- Erfiðleika með gang, svima, skort á jafnvægi eða samhæfingu
- Slæman höfuðverk af óþekktri orsök
- Yfirlið eða meðvitundarleysi