Björg Eva Elendsdóttir skrifar í 24 stundir: Breið samstaða er í tveimur stærstu stjórnmálaflokkunum um verulegar breytingar á heilbrigðiskerfi landsmanna. Þetta er víðtækari endurskipulagning en gerð hefur verið í áratugi. Sjálfstæðisflokkur og Samfylking liggja undir gagnrýni fyrir að tala út og suður í sumum stórum pólitískum grundvallarmálum. Bent er á ólíka afstöðu flokkanna til evrunnar og til ESB. Og ekki síður á ágreining í auðlinda- og orkumálum.
Í heilbrigðismálum er annað uppi á teningnum. Guðlaugur Þór Þórðarson heilbrigðisráðherra nýtur fulls stuðnings ríkisstjórnarflokkanna í viðleitni sinni við að hagræða og breyta heilbrigðiskerfinu með útvistun verkefna og auknum einkarekstri.
Stjórnarandstaðan hrópar í eyðimörk
Stjórnarandstæðingar í Framsóknarflokki og VG hafa hrópað varnaðarorð um einkavæðingu úr ræðustól Alþingis, án mikilla undirtekta. Þeir segja þögn Samfylkingarinnar æpandi. Össur Skarphéðinsson, ráðherra Samfylkingarinnar, æpir ekki með þögninni um heilbrigðismálin. Þvert á móti bloggar hann fullum hálsi um stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og segir hana vera jafnaðarstefnu í framkvæmd, mótaða innan Samfylkingarinnar. Orðrétt segir Össur: „Ég fæ ekki betur séð en að þessi stefna Samfylkingarinnar sem ég mótaði öðrum fremur ásamt Einari Karli Haraldssyni og fékk samþykkta á landsfundi 2005 sé orðin að stefnu ríkisstjórnarinnar. Hún stefnir vissulega að
Jón gamli á Vesturgötunni jafn Jóni Ásgeiri
Össur vill að Jón gamli í kjallaranum á Vesturgötu, sem lifir á ellistyrk, fái sömu þjónustu og Jón Ásgeir og Björgólfur Thor í íslensku heilbrigðiskerfi og að því segir hann að verið sé að vinna. Siv Friðleifsdóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, segirað Össur sé á harða hlaupum á eftir stefnu Sjálfstæðisflokksins og það eina sem vanti sé að hann fari að tala um beinharða einkavæðingu eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðað á síðasta landsfundi sínum, í heilbrigðis-, orku- og menntamálum. „Þeim finnst geðveikt æðislegt að einkavæða heilbrigðiskerfið, eins og fram kom á landsfundinum í fyrra.“ Siv veltir fyrir sér hvort verið sé rífa niður það sem
Ögmundur Jónasson, VG, er líklega hvað fastastur fyrir í andstöðu við allar gerðir einkarekstrar og -væðingar. „Fréttir úr heilbrigðiskerfinu eru ógnvekjandi. Ráðherra ryður úr vegi þeim sem hafa félagslegar taugar og brottför forstjóra Landspítalans hlýtur að skoðast í því samhengi. Hlutskipti Samfylkingarinnar er óendanlega vesælt,“ segir Ögmundur. „Einkareksturinn verður Jóni á Vesturgötunni síst til góðs. Þjóðin virðist sofa, en það verður óþægilegt að vakna við heilbrigðiskerfi á markaðstorgi,“ segir Ögmundur. Össur segir stjórnmálamenn sem leggjast í víking gegn jafnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar ekki gera það af umhyggju fyrir skattborgurum eða sjúklingum. Þeir séu að hugsa um úrelt viðhorf eins og stéttarfélagsaðild eða að skora billega punkta í kappræðu dagsins.
beva@24stundir.is
24 stundir 15.03.2008