Í vikunni var skipaður starfshópur vegna sameiningarinnar, sem Már Kristjánsson, sviðsstjóri lækninga á bráðasviði LSH, fer fyrir. Hópurinn þarf að vinna hratt, en hann á að skila verkefnisáætlun eftir tvær vikur. Til grundvallar starfinu er að skoða hvernig tryggja megi öryggi sjúklinga og þjónustu við þá. Sérstaklega er lögð áhersla á að hópurinn hafi samvinnu og samráð við neyðarþjónustu og sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu.
„Eitthvað þarf að láta undan“
Fram til þessa hafa bráðamóttökurnar verið á tveimur stöðum. Til móttökunnar á Hringbraut hafa einkum leitað sjúklingar með hjarta- og kviðvandamál, krabbameinssjúklingar og sjúklingar með blóðsjúkdóma og þvagfæravandamál. Þar eru einnig legudeildir fyrir þessa sjúklingahópa. Í Fossvogi er starfrækt slysa- og bráðadeild.
Einn möguleiki sem til greina kemur er að efla flutninga milli húsa, en annar að flytja ákveðna starfsemi á milli, segir Már Kristjánsson. „Við þurfum að reikna út hvað er hagfelldast í þessu.“
„Núna er ljóst að það þarf að hagræða í ríkiskerfinu. Eitthvað þarf að láta undan og við ákváðum að leggja þetta til,“ segir Björn Zoëga. Hann segir sameiningu hafa verið rædda í mörg ár og hún feli í sér faglegt hagræði.
Skoða þurfi aðstöðumálin vegna sameiningarinnar. Áhöld séu um það hversu mikið sé hægt að bæta við húsnæði bráðamóttökunnar í Fossvogi, en Björn segir hugsanlegt að hægt sé að nýta það öðruvísi en nú er gert.
Bylgja Kjærnested segir að menn vilji bíða niðurstaðna starfshópsins áður en hægt verði að gefa ítarlega umsögn um fyrirætlunina. Ljóst sé að standa þurfi vel að flutningum fólks milli sjúkrahúsa, sem muni mjög líklega aukast. Þá þurfi að huga að vinnuaðstöðu starfsmanna. Bylgja segir að sér lítist vel á nefndina sem skipuð hefur verið, þar hafi margir verið kallaðir til.
Már Kristjánsson segir að með sameiningu verði hugsanlega hægt að fækka vaktalínum. Starfsfólk hafi eðlilega áhyggjur af fækkun starfa. „En eins og málin standa er ekkert sem segir að við þurfum að segja fólki upp,“ segir hann.
Hann bendir á að mikilvægt sé að skoða kostnaðinn eftir sameininguna ekki aðeins með því að líta til eins fjárlagaárs. „Ef þetta gerist árið 2009 þá væri fyrirsjáanlegt að við gætum kostað meira það ár en 2008. En svo myndum við sjá heilmikinn arð [af breytingunum] 2010 og 2011.“
Komur á slysa- og bráðadeild í Fossvogi og á bráðamóttöku við Hringbraut eru um 70 þúsund á ári.
Eftir Elvu Björk Sverrisdóttur elva@mbl.is
Morgunblaðið 06.12.2008