Bandarísk stjórnvöld hafa höfðað mál gegn dótturfélagi Actavis vegna hjartalyfsins Digitek.
Dótturfélagið, Totowa LLC, tók lyfið af markaði í apríl sl.l. þar sem talið var að hluti þeirri taflna sem framleiddar höfðu verið innihéldu tvöfalt meira magn af virku efni lyfsins en þær ættu að gera.
Samkvæmt frásögn af málinu á Bloomberg-fréttaveitunni hefur Actavis síðan unnið að því endurbæta framleiðsluferlið í verksmiðju Totowa í New Jersey svo það samræmdist stöðlum Matvæla- og lyfjastofnunnar Bandaríkjanna (FDA).
Einhver snuðra er hlaupin á þráðinn í þeirri vinnu því bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur hafið málsókn gegn Totowa fyrir hönd FDA og gerir kröfu um að framleiðslan á Digitek verði stöðvuð.
John LaRocca lögmaður Actavis segir í samtali við Bloomberg að Totowa hefði óskað eftir því í síðasta mánuði að fulltrúar FDA kæmu í verksmiðjuna og gerðu úttekt á þeim breytingum sem gerðar hefðu verið. FDA hefði enn ekki svarað þeim óskum.
www.visir.is 14.11.2008