Með því að leggja meiri áherslu á heilbrigt líferni en að lækna sjúkdóma væri hægt að spara verulega í heilbrigðiskerfinu, sagði kanadískur prófessor í sjúkraþjálfun sem kom fram í fréttatíma sjónvarps í kvöld.
Elizabeth Dean er prófessor í sjúkraþjálfun við læknadeild Háskólans í British Columbia í Kanada og aðjunkt við læknadeild HÍ. Hún hefur undanfarna áratugi rannsakað hvernig lífstíll fólks getur haft áhrif á alvarlegustu sjúkdómana og hvernig rétt mataræði, hvíld og hreyfing geta skipt sköpum. Hún segir að heilbrigðiskerfi Vesturlanda verði að breytast. Leggja þurfi meiri áherslu á að koma í veg fyrir sjúkdóma.
„Þið leitið leiða til að draga úr fjárveitingum til heilbrigðismála. Enginn vafi leikur á því að og öll gögn staðfesta það að þessi einföldu atriði, að reykja ekki, að borða aðeins meira af grænmeti og ávöxtum, að hreyfa sig ögn meira; þessi einföldu atriði, einkum vegna þess að fólk verður sífellt eldra og aldrinum fylgja oft þessir krónísku kvillar; að jafnvel smávægilegar breytingar geta bætt heilsuna til muna,“ segir Elizabeth. Og hún segir að of mikil áhersla sé lögð á lyfjagjöf. „Hvað getum við gert með heilbrigðum lífsstíl? Stundum kemur hann í stað lyfja. Við vitum að við getum stundum lækkað háan blóðþrýsting og úthýst sykursýki 2, jafnvel losað stíflur í slagæðum. Þetta gengur ekki hjá öllum og sumir þurfa að taka lyf með, og það er gott og blessað, en við verðum að draga úr lyfjagjöf eins og við framast getum.“
Hreyfingarleysi og of mikil salt- og sykurneysla sé þegar farin að hafa alvarleg áhrif á heilsu barna. „Þetta er fyrsta kynslóð barna sem áætlað er að verði skammlífari en foreldrar sínir. Þetta er sláandi. Frá því sögur hófust hefur hver kynslóð barna lifað lengur en forverar sínir.“
Hér má sjá umfjöllunin í fréttatíma sjónvarpsins í heild sinni