Það er auðvelt að láta lífið koma sér úr jafnvægi og hafa allt á hornum sér. Ég hef reynt að temja mér í gegnum árin að líta fram á veginn og á það sennilega til að taka Pollyönnu á þetta alltsaman og vera jákvæður, mér finnst mikilvægt að lifa í sátt.
Einn af fylgifiskum hjartabilunar er þreyta. Þetta er svona þreyta sem er erfitt að festa fingurinn á og þegar hún hellist yfir mig af fullum krafti liggur við að ég verði að kasta frá mér því sem ég er að fást við og hvíla mig með það sama.
Ég er viss um að margir kannast við þetta og þarf væntanlega ekki hjartabilun til enda þreyta fylgifiskur fjölmargra annarra sjúkdóma.
Þetta getur verið ákaflega erfitt ef ég er ekki staddur heima hjá mér því tilfinningin er svo gríðarlega sterk að það er erfitt að láta það vera að loka augunum. Ég hef lent í því að vera staddur á biðstofu þar sem ég hef hreinlega lokað augunum og dottað augnablik og ég segi það satt, það hjálpar.
Kuldinn og rokið hjálpa ekki til við að létta mér lífið þessa dagana og ég finn að þessar aðstæður draga úr mér kraftinn. Þrátt fyrir þetta nöldur mitt þá fer því fjarri að ég sitji við stofugluggann dottandi og brúnaþungur yfir þessu hlutskipti mínu. Mér líður vel í sálinni minni og mér líður vel í hjartanu mínu en ég get ekkert að þessu gert. Ég hef nóg að stússa við hér heima.
Og á meðan ég man, í síðustu viku fékk ég niðurstöðu úr prufunni sem var tekin úr lifrinni minni og niðurstaðan varð eins og best verður á kosið þannig að það er ekki áhyggjuefni.
Heimilisstörfin henta mér ágætlega og ég get gert hlutina á mínu hraða og hvílt mig á milli atriða ef dagarnir eru þannig. Uppþvottavélin er líka dálítið mitt tæki, hún er svona ferköntuð eins og ég. Ég er sérviskulegur þegar ég raða í hana og svo er að sjálfsögðu ekki sama hvernig ég tæmi vélina heldur. Mjöll finnst ég dálítið bilaður í þessari dellu minni og hún hefur örugglega rétt fyrir sér
Það má vel vera að ég geri hlutina svolítið flókna stundum en heilabúið mitt hefur þá nóg fyrir stafni og heimilisstörfin eru fín leikfimi. En ég er sáttur við lífið mitt og á góða að, ég held ég sé almennt lífsglaður, jafnlyndur og jákvæður og legg mig fram um að láta gott af mér leiða. En á sama tíma er ég örugglega líka þrjóskur, þversum, ósveigjanlegur, sérvitur og gamaldags.
Ég held að þetta sé ágæt blanda, ég tek mig ekkert sérstaklega hátíðlega og er staðráðin í því að vera sáttur og láta mér líða vel þar sem jólalögin eru farinn að hljóma í útvarpinu og stutt í aðventuna hvað svo sem veðurfari og þreytumerkjum líður.
Lifið heil
Björn Ófeigs