Hjartabilun er alvarlegur sjúkdómur sem hefur áhrif á líf þúsunda manna um allan heim. Að lifa með hjartabilun getur verið krefjandi þar sem sjúkdómurinn hefur margvísleg áhrif á daglegt líf og þá ekki síst maka.
Þetta krefst oft breytinga á lífsstíl þar sem báðir þurfa að taka þátt og fræðsla um sjúkdóminn er þar lykilatriði.
Í þessari grein fræðumst við um einkenni, útskýrum NYHA flokkunarkerfið, fléttum inn í umfjöllunina rannsóknum um hjartabilun og hvernig einstaklingar geta aðlagast þessu ástandi til að bæta lífsgæði sín.
Einkenni hjartabilunar
Hjartabilun getur valdið ýmsum einkennum sem hafa áhrif á lífsgæði. Þess ber þó að geta að hjartabilun er sjúkdómur sem getur verið mis alvarlegur og einkennamikill og er þá gjarnan miðað við NYHA flokkunarkerfið til að meta hvar viðkomandi er staddur í sjúkdómnum á hverjum tíma. Algengustu einkenni eru:
- Andnauð: Fólk finnur oft fyrir andnauð á seinni stigum sjúkdómsins einnig getur þetta gerst þegar vöðvar í hálsinum slakna of mikið á meðan fólk sefur, sem veldur tímabundnum öndunarstoppum eða hindrunum og fólk vaknar jafnvel. Kæfisvefn getur líka verið ástæðan. Rannsóknir sýna að öndunartruflanir eru algengar hjá sjúklingum með hjartabilun, sem leiðir til þess að súrefnismettun getur lækkað, sérstaklega í hvíld (Meyer et al., 2019
- Þreyta: Skert blóðflæði til vöðva og líffæra getur valdið þreytu, jafnvel við einfaldar athafnir. Rannsóknir hafa sýnt fram á að fólk með hjartabilun upplifir oft meiri þreytu en þeir sem ekki þjást af sjúkdómnum og getur þetta haft veruleg áhrif á daglegt líf (Rudolph et al., 2020).
- Vökvasöfnun: Vökvi getur safnast fyrir í líkamanum sem getur leitt til þess að fólk fær bjúg, sérstaklega í fótum, ökklum og kálfum. Vökvi getur einnig safnast fyrir í lungum og á kviðsvæði. Rannsóknir benda til þess að vökvasöfnun sé tengd því stjórnun á einkennum hjartabilunarinnar sé ekki nægjanlega góð eða fólk leggi meira á sig en raunveruleg geta segir til um sem veldur því að fólk verður einkennameira. (Schultz et al., 2021).
- Svefntruflanir: Eins og áður sagði eru svefnvandamál algeng meðal einstaklinga með hjartabilun. Rannsóknir hafa sýnt að andnauð á nóttunni getur leitt til ófullnægjandi svefns og fólk vaknar upp illa sofið (Rogers et al., 2019).
- Hugrænar breytingar: Kvíði og þunglyndi eru algengar fylgikvillar þar sem einstaklingar glíma við óvissu um heilsu sína. Rannsóknir hafa sýnt að andleg heilsa hefur veruleg áhrif á heilsufar og lífsgæði þeirra sem lifa með hjartabilun (Miller et al., 2022).
NYHA flokkun hjartabilunar
NYHA (New York Heart Association) flokkuninn er notuð til að meta alvarleika hjartabilunar. Það skiptir máli til að vita hvar fólk er á þessum skala til að meta ástand og einkenni og hefur það áhrif áhrif á meðferð og þær lífsstílsbreytingar sem fólk þarf að temja sér.
- Stig I: Engin takmörkun á líkamlegri virkni; venjuleg hreyfing veldur ekki óþægindum.
- Stig II: Létt takmörkun; andnauð, þreytu eða hjartsláttur við venjulega hreyfingu.
- Stig III: Veruleg takmörkun; andnauð við minni áreynslu en venjulega.
- Stig IV: Óþægindi við allar líkamlegar athafnir; andnauð í hvíld.
Aðlögun í daglegu lífi
Einstaklingar með hjartabilun þurfa að aðlagast breyttum aðstæðum og aðlaga sig að þeim í sínu daglega lífi. Hér eru nokkur mikilvæg atriði:
- Mataræði með lágu saltinnihaldi: Takmarka saltneyslu til að hafa betri stjórn á vökvasöfnun. Ráðlagt er að borða vel af grænmeti, ávöxtum og heilkorna vörum. Rannsóknir sýna að lágt saltmagn í fæðu getur dregið úr einkennum hjartabilunar (Geleijnse et al., 2021).
- Regluleg hreyfing: Hreyfing þar sem tekið er mið af líðan, getu og einkennum hvers og eins er mikilvæg. Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing getur bætt lífsgæði og dregið úr einkennum hjartabilunar. AHA (American Heart Association) leggur áherslu á mikilvægi hreyfingar fyrir þá sem glíma við hjartabilun (Higgins et al., 2020).
- Lyfjameðferð: Lyf eins og þvagræsilyf, beta-blokkar og ACE-hemlar eru algeng í meðferð hjartabilunar. Rannsóknir hafa sýnt að rétt lyfjameðferð getur dregið úr dauðsföllum tengdum hjartabilun og bætt lífsgæði (Kotecha et al., 2021). Mikilvægt er að fylgja fyrirmælum lækna varðandi lyf.
Göngudeild hjartabilunar: Deildin hefur verið starfrækt í 20 ár á Landspítalanum og þar er unnið gríðarlega gott starf. Þar er haldið vel utan um einstaklinga með hjartabilun og þeim veitt aðstoð, eftirfylgni og ráðgjöf eftir því sem þurfa þykir. Læknar geta vísað þangað sjúklingum sem þeir telja að hafi þörf á þjónustu deildarinnar.
Aðstoð sérfræðinga: Mikilvægt að vera í góðu sambandi við heilsugæslu, heimilis og hjartalækni til að passa upp á að meðferðin sé eins og mælt er með, lyf séu til staðar og í réttu magni. Meðferðarheldni varðandi lyf skiptir miklu máli. Sjúkraþjálfun getur hjálpað mikið og andlegur stuðningur eins og frá sálfræðingi getur skipt sköpum.
Að lokum
Að lifa með hjartabilun krefst aðlögunar og stuðnings sem veltur á alvarleika og einkennum hverju sinni. Rannsóknir hafa sýnt að með réttri meðferð, lífsstílsbreytingum og andlegum stuðningi er hægt að bæta lífsgæði einstaklinga sem glíma við sjúkdóminn. Stuðningur við aðstandendur er afar mikilvægur og stór partur af því að vel takist til.
Með því að vera meðvitaður um einkenni sín og hvaða aðferðir eru til staðar til að takast á við lífið með hjartabilun, geta einstaklingar búið sér betri lífsgæði og lifað innihaldsríku lífi þrátt fyrir áskoranir.
Björn Ófeigs.
Heimildir
- Geleijnse, J. M., et al. (2021). “Sodium Intake and Heart Failure: A Review of the Evidence.” Journal of the American College of Cardiology.
- Higgins, A., et al. (2020). “The Role of Physical Activity in Heart Failure Management: A Review.” Heart Failure Reviews.
- Kotecha, D., et al. (2021). “Guideline-Based Management of Heart Failure: The Importance of Early Detection and Treatment.” European Heart Journal.
- Meyer, P., et al. (2019). “Prevalence of Sleep Disordered Breathing in Patients with Heart Failure.” Chest Journal.
- Miller, D. J., et al. (2022). “The Impact of Psychological Distress on Patients with Heart Failure.” Journal of Cardiac Failure.
- Rudolph, A. E., et al. (2020). “The Burden of Fatigue in Heart Failure: A Qualitative Study.” Heart & Lung.
- Rogers, J. C., et al. (2019). “Sleep Quality and Heart Failure: A Meta-Analysis.” Sleep Medicine Reviews.
- Schultz, K., et al. (2021). “Fluid Management in Heart Failure: New Insights.” European Journal of Heart Failure.