Miðjarðarhafsmataræðið leggur áherslu á að við neytum hollrar fitu og forðumst unnin kolvetni. Nokkur eðlismunur er á þessu mataræði og því sem venjulega er mælt með á vesturlöndum til að forðast hjarta-og æðasjúkdóma. Miðjarðarhafs-mataræði inniheldur ólífuolíu, hnetur, ferska ávexti og grænmeti, feitan fisk og annað sjávarfang, baunir og hvítt kjöt. Oft er mælt með hóflegri vínneyslu. Mælt er gegn neyslu gosdrykkja, sykraðs bakkelsis, sælgætis, feits viðbits, rauðs kjöts og unninar kjötvöru. Stór spænsk rannsókn sem birtist nýlega í hinu virta tímariti New England Journal of Medicine bendir til þess að Miðjarðarhafsmataræðið geti dregið umtalsvert úr hjarta-og æðasjúkdómum miðað við hefðbundið lágfitumataræði.
Alls tóku 7.447 einstaklingar þátt í rannsókninni. Enginn þessarra einstaklinga hafði þekktan hjarta-eða æðasjúkdóm. Allir höfðu hins vegar sykursýki eða þrjá af eftirtöldum áhættuþættum hjarta-og æðasjúkdóma: reykingar, háþrýstingur, hátt LDL-kólesteról (vonda kólesterólið), lágt HDL-kólesteról (góða kólesterólið), ofþyngd eða offitu eða ættarsögu um hjarta-og æðaáföll.
Einstaklingunum var skipt í þrjá hópa. Einum hópnum var ráðlagt að neyta hefðbundins Miðjarðarhafsmataræðis með mikilli ólífuolíu (extra virgin olive oil). Þessir einstaklingar fengu olíuna sér að kostnaðarlausu meðan á rannsókninni stóð. Annar hópurinn neytti svipaðrar fæðu en í stað ólófuolíu var lögð áhersla á blandaðar hnetur. Fengu einstaklingarnir hneturnar ókeypis meðan á rannsókninni stóð. Þriðji hópurinn fékk ráðleggingar um að mataræði með litlu fituinnhaldi. Þessum hóp var ráðlagt að borða fitusnauðar mjólkurvörur, brauð, kartöflur, hrísgrjón, pasta, ferska ávexti og grænmeti, magran fisk og sjávarfang. Þeim var ráðlagt að borða ekki jurtaolíur (þ.m.t. ólífuolíu), sætt bakkelsi, sælgæti, hnetur, djúpsteiktar matvörur, rautt kjöt, unnar kjötvörur, dýrafitu, feitan fisk og feit viðbit.
Alls fengu 288 einstaklingar í rannsókninni hjartaáfall, heilablóðfall eða létust vegna hjarta-og æðasjúkdóms á tímabilinu 2003-2010. Af þessum einstaklingum voru 96 í Miðjarðarhafsmæataræðishópnum sem fékk ólífuolíu, 83 voru í Miðjarðarhafsmataræðishópnum sem fékk hnetur og 109 voru í hópnum sem neytti fæðu með lágu fituinnihaldi. Höfundar rannsóknarinnar telja sig hafa sýnt fram á að Miðjarðarhafsmataræði lækki hættuna á hjarta-og æðaáföllum um 30 prósent miðað við hefðbundið lágfitumataræði. Þessi áhrif eru svipuð þeim sem ná má með notkun blóðfitulækkandi lyfja hjá einstaklingum með háa áhættu á hjarta-og æðaáföllum.
Spænska rannsóknin staðfestir það sem margar aðrar rannsóknir hafa sýnt, að áherslur Miðjarðarhafsmataræðisins eru gagnlegar til að draga úr hættunni á hjarta-og æðaáföllum. Niðurstöðurnar eru einnig í samræmi við stærstu rannsókn sem gerð hefur verið hingað til á áhrifum minnkaðrar fituneyslu á tíðni hjarta-og æðasjúkdóma, The Womens Health Initiative (WHI). Í þessarri rannsókn var stórum hópi kvenna fylgt eftir í rúm átta ár. Helmingur þeirra fékk ráðleggingar um mataræði og hvatningu um að draga úr fituneyslu og auka neyslu á kornvörum, ávöxtum og grænmeti. Hinn helmimgurinn fékk engin slík ráð. Hlutfall fitu í heildarorkuneyslu minnkaði um 8.2 prósent í fyrrgreinda hópnum. Enginn munur reyndist hins vegar á tíðni hjarta-og æðaáfalla milli þessarra hópa. Því tókst ekki að sanna tilgátuna að minnkuð fituneysla dragi úr tíðni hjarta-og æðasjúkdóma.
Rannsóknir hafa nú endurtekið sýnt að minni fituneysla og hlutfallslega aukin kolvetnaneysla er ekki lykillinn að fækkun hjarta-og æðajsúkdóma. Þá virðist lausnin heldur ekki felast í að auka neyslu á fitusnauðum mjólkurvörum, kornvörum og sterkju. Rannsóknir benda hins vegar til að hægt sé að draga úr hættunni á hjarta-og æðaáföllum hjá einstaklingum í áhættuhóp með því að velja matvæli sem eru rík af hollum fitum eins og einómettuðum fitusýrum og omega-3 fitusýrum.
Þessi pistill er eftir Axel F. Sigurðsson hjartalækni sem heldur úti Mataræði.is