Án frekari rannsókna er ekki hægt að segja til um hvort að brennisteinsvetnismengun í lofti hafi áhrif á hjartasjúkdóma. Þetta segir Ragnhildur Guðrún Finnbjörnsdóttir, umhverfis- og auðlindafræðingur, sem gerði rannsókn á loftmengun og áhrif hennar á heilsu fólks. Einhver tengsl séu en ekki sé hægt að fullyrða um þau án frekari rannsókna.
Haft var eftir Árnýju Sigurðardóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í Fréttablaðinu í gær að niðurstöður nýlegra rannsókna bendi til aukinnar notkunar astmalyfja og lyfja við hjartaöng í tengslum við aukna brennisteinsvetnismengun.
Ragnhildur Guðrún gerði rannsókn fyrir meistaraverkefni sitt við heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands um heilsufarsleg áhrif loftmengunar í Reykjavík á hjartasjúkdóma, þar á meðal brennisteinsvetnismengunar. Kannaði hún fylgnina á milli nokkurra loftmengunarefna og afgreiðslu á hjartalyfjum sem gefin eru við hjartaöng í Reykjavík.
„Ég skoðaði einn stóran lyfjaflokk allra æðaútvíkkandi lyfja. Sprengitöflur við hjartaöng er í raun aðeins lítill hlutur af þeim flokki. Þegar ég skoðaði brennisteinsvetni út frá stóra flokknum sást örlítil fylgni en þegar ég skoðaði lyfin við hjartaöng var engin fylgni,“ segir Ragnhildur Guðrún.
Mengunin tengist því almennt æðavíkkandi lyfjum og ekki sé endilega hægt að segja fylgnin sé vegna brennisteinsvetnismengunar.
„Við erum svo aftarlega á merinni á Íslandi með rannsóknir á loftmengun og áhrifum hennar á heilsu manna að maður verður að álykta með varúð hvort það sé orsakasamband eða ekki. Það þarf fleiri rannsóknir til að styðja við bakið á þessari rannsókn til að segja til um það. Það eru samt sem áður einhver tengsl.“
www.mbl.is 20.05.2011