Norskir ráðgjafar hafa komist að þeirri niðurstöðu að óbreyttur rekstur LSH á tveimur stöðum, við Hringbraut og í Fossvogi, kosti ríkið níutíu milljarða króna en 51 milljarð verði starfsemin á einum stað í nýbyggingum og endurgerðu húsnæði við Hringbraut. Með þessu myndi sparast 31 milljarður króna.
Norsku sérfræðingarnir telja hagkvæmast fyrir ríkið að byggja við núverandi Landspítala við Hringbraut í fyrsta áfanga og nýta áfram sem flest hús sem þar eru fyrir á lóðinni. Þeir segja unnt að áfangaskipta verkefninu þannig að viðráðanlegra verði að hrinda því í framkvæmd. Spara megi sex prósent í rekstri spítalans strax að loknum fyrsta áfanga sem svarar til ríflega tveggja milljarða króna á ári.
Stjórnendur Landspítala og Háskóla Íslands kynntu tillögur Norðmannanna í gær. Þær gera ráð fyrir að við Hringbraut rísi ný hús alls um 66 þúsund fermetrar þar sem verði slysa- og bráðamóttaka, skurðstofur og gjörgæsla, legudeildir með 180 rúmum í einbýli og áttatíu herbergja sjúkrahótel. Stór hluti núverandi húsnæðis, sem er 53 þúsund fermetrar, verði nýttur áfram.
Framkvæmdakostnaður er áætlaður 51 milljarður króna. Þar af kosta nýbyggingarnar 33 milljarða, húsgögn og tæki sjö milljarða og endurbygging eldra húsnæðis ellefu milljarða. Talað er um að selja eignir í Fossvogi upp í kostnað en þó ekki fyrr en búið er að sameina starfsemina auk þess sem lífeyrissjóðirnir hafi sýnt áhuga.
Tímaáætlun gerir ráð fyrir hönnunarsamkeppni á síðari hluta þessa árs og að úrslitin verði kynnt í byrjun næsta árs. Jarðvinna hefjist sumarið 2011 og framkvæmdir 2012. Nýbyggingarnar verði reistar á árunum 2009-2015, húsgögn og tæki keypt 2015-2016 og endurbygging eldra húsnæðis 2016-2020. Á þessu ári sé gert ráð fyrir 400 milljónum króna í hönnunarvinnu þannig að hægt verði að setja hönnunarvinnu strax í gang meðal íslenskra arkitekta og verkfræðinga.
Í nýju tillögunni verður Læknagarður óbreyttur. Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor segir að það gefi Háskóla Íslands tækifæri til að nýta hann og dragi verulega úr kostnaði við háskólabyggingarnar. Næsta skref verði að fá samþykki fyrir breytingatillöguna og í framhaldinu verði háskólahlutinn endurskoðaður og sameiginlegir þættir háskólans og spítalans.
www.visir.is 22.04.2009