Öflugt frumkvöðlastarf fer fram á líffæraígræðslustofnun Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg. Þrjú sjúkrahús á Norðurlöndum kynna yfirvöldum starfsemi sína vegna viðræðna um samstarf.
„Í MAÍ flytur stofnunin í nýja byggingu svo það eru spennandi tímar framundan. Þar höfum við aðstöðu til líffæraígræðslna á heilli hæð og gott rými fyrir umönnun sjúklinga eftir aðgerðir. Það er ekki oft sem sjúkrastofnanir flytja í nýbyggt húsnæði og þetta verður aðstaða sem mun uppfylla hæstu gæðakröfur,“ segir Michael Olausson, sérfræðingur í líffæraígræðslum og yfirmaður ígræðslustofnunar Sahlgrenska sjúkrahússins í Gautaborg.
Náist samningar milli stofnunarinnar og íslenskra heilbrigðisyfirvalda myndi biðtími íslenskra sjúklinga eftir líffærum styttast töluvert að sögn Olausson, yfirmanns stofnunarinnar.
Kynntu starfsemina
Olausson var staddur á Íslandi í vikunni ásamt fylgdarliði til að kynna heilbrigðisyfirvöldum starfsemi stofnunarinnar. Íslensk yfirvöld leita nú eftir samstarfi við aðrar ígræðslustofnanir á Norðurlöndunum og hafa greint Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn frá því að samningum verði sagt upp. Ástæðan er fyrst og fremst langur biðtími eftir aðgerðum en dæmi eru um að biðtími eftir lifur hafi farið upp í þrjú ár.
Olausson er vel þekktur frumkvöðull á sviði lifrarígræðslu í heiminum. Hann hefur m.a. þróað meðferð til að minnka áhættuna á því að líkami þegans hafni nýja líffærinu. Meðferðin felst í því að hluti af lifur líffæragjafans er græddur í lifur þegans, jafnvel þó hann bíði eftir ígræðslu á öðru líffæri en lifur. Lifrarbúturinn frá gjafanum virkar eins og sía og ekki verða jafnsterk mótefnisviðbrögð vegna nýja líffærisins.
Allt undir einn hatt
Starfsemi Sahlgrenska hefur vaxið jafnt og þétt frá því að líffæraflutningar hófust þar á miðjum sjöunda áratugnum. Fyrir tveimur árum var öll starfsemin sameinuð undir einn hatt en slíkt fyrirkomulag er ekki algengt í Evrópu. „Við sameininguna runnu saman ólíkar hefðir og slíkt tekur alltaf tíma en nú erum við farin að sjá árangurinn,“ segir Olausson.
Hann segir það mikinn kost að sérfræðingar læri hver af öðrum í stað þess að hjartaígræðsla sé á einni deild, nýrnaígræðsla á annarri og engar samræður eigi sér stað.
Stofnunin er sú eina á Norðurlöndum með þessu fyrirkomulagi en slíkt er einnig sjaldgæft í Evrópu. Þá er stofnunin sú eina á Norðurlöndunum sem sinnir öllum tegundum líffæraflutninga og jafnframt sú eina sem framkvæmir smáþarmaígræðslur.
Jákvæðir á samstarf
Íslendingar voru með samning við Sahlgrenska á árunum 1993-1996 uns samningur var gerður við Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn. „Við höfum áður unnið með Íslendingum og það samstarf var mjög ánægjulegt. Við vonumst því til að geta hafið samstarf á ný og ég veit að við munum geta stytt biðtíma íslenskra líffæraþega nokkuð,“ segir Olausson.
Hann segir fjölda íslenskra lækna starfa á Sahlgrenska en sjúkrahúsið hefur verið vinsælt meðal íslenskra læknanema.
„Í Gautaborg er eitt stærsta samfélag Íslendinga á Norðurlöndunum og það er mjög gott samskiptanet þeirra á milli,“ segir Olausson. Hann segir kosti þess ótvíræða fyrir sjúklinga sem þurfi að leita til annarra landa í viðamiklar aðgerðir.
Í hnotskurn
» Heilbrigðisráðuneytið hefur fengið jákvæð viðbrögð frá þeim sjúkrahúsum sem sendar voru fyrirspurnir vegna mögulegs samstarfs á sviði líffæraflutninga.
» Í næstu viku er von á teymi Háskólasjúkrahússins í Ósló en jákvætt svar hefur einnig borist frá Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.
» Á fyrstu fundunum er um kynningar á starfsemi stofnananna að ræða en á seinni stigum verður samið um verð þjónustu og annað.
» Gert er ráð fyrir því að samningar við nýtt sjúkrahús náist á vormánuðum en samningurinn við Dani er laus tvisvar á ári.
Eftir Jóhönnu Maríu Vilhelmsdóttur
Morgunblaðið 13.03.2009