-Auglýsing-

Öryggi sjúklinga

Matthías Halldórsson landlæknir sagði á málþingi um öryggi sjúklinga á fimmtudag að hann hefði áhyggjur, meðal annars af Landspítalanum, sem hefði verið í fréttum vegna stjórnunarerfiðleika og manneklu. “Við verðum vör við það hjá embættinu að fólk er orðið dálítið tortryggið og að samskiptaerfiðleikar eru á milli stjórnenda og þeirra sem vinna verkin gagnvart sjúklingunum. Slíkar aðstæður geta verið einna hættulegastar,” sagði hann.

Kvörtunum til Landlæknisembættisins og kærum hefur fjölgað ár frá ári. Nú á að takast á við málin og hefja rannsókn á umfangi læknamistaka hér á landi.

-Auglýsing-

Gestur þingsins á fimmtudag var Liam Donaldson, landlæknir Bretlands, sem hefur gegnt starfinu frá 1998 og lagt ríka áherslu á öryggi sjúklinga. Í viðtali Kristjáns Jónssonar við Donaldson í Morgunblaðinu á miðvikudag segir hann að rannsóknir, sem gerðar hafi verið við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum, hafi bent til þess að tíundi hver sjúklingur, sem lagður væri inn, fengi ranga meðhöndlun. Kannanir annars staðar í Bandaríkjunum, í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi og í Bretlandi hefðu staðfest að hlutfallið væri líklega nálægt þessu.

Í lýsingu frá landlæknisembættinu á rannsóknarverkefninu, sem nú á að ráðast í, er vísað í skýrslur á borð við þær, sem Donaldson nefnir. Síðan segir: “Á Landspítalann leggjast rúmlega 30 þúsund manns á ári og sé meðaltal ofangreindra niðurstaðna heimfært þangað má gera ráð fyrir að um 2500 manns verði fyrir óvæntum skaða á spítalanum árlega, unnt hefði verið að koma í veg fyrir um 1000 þeirra, tæplega 600 manns hefðu orðið fyrir tímabundnum örkumlum, um 225 hefðu orðið fyrir langvinnum örkumlum og svipaður fjöldi hefði látist.” Með öðrum orðum hefðu rúmlega 200 manns látist vegna mistaka ef heimfæra má þessar rannsóknir hingað. Samkvæmt því er Landspítalinn hættulegasti staður á Íslandi.

- Auglýsing-

Tilgangurinn með fyrirhugaðri rannsókn á þessu máli er ekki að finna sökudólga, heldur að koma á umbótum. Heilbrigðiskerfið á ekki að fara í vörn vegna þessa máls heldur ganga til verks með opnum huga.

Markmiðið með því að fara ofan í saumana á öryggi sjúklinga er að byggja upp öruggt heilbrigðiskerfi. Það hlýtur að vera markmið allra þeirra, sem starfa að heilbrigðismálum. Þeir hljóta að fagna því að nú eigi að skapa andrúmsloft þar sem umræðan verður opnuð, óhikað verði hægt að segja frá óhöppum og segja sjúklingum frá því og biðjast afsökunar. Það myndi draga úr þeirri tortryggni, sem landlæknir nefndi, og skila sér í auknu öryggi fyrir sjúklinga.

Ritstjórnargrein af mbl.is

 

 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-