-Auglýsing-

Hjartabilun og hvernig hægt er að bæta lífsgæði

Hjartabilun er alvarlegt ástand og mikilvægt að fá góða fræðslu bæði fyrir þann sem er með sjúkdóminn og ekki síður fyrir aðstandendur því gott stuðningsnet skipti miklu máli.

Hjartabilun er alvarlegt ástand sem getur haft mikil áhrif á lífsgæði þeirra einstaklinga sem þjást af sjúkdómnum. Með einstaklingsmiðuðum aðferðum er hægt að bæta lífsgæði verulega með samstilltu átaki heilbrigðisstarfsfólks og sjúklinga.

Það er mikilvægt að skoða á hvaða stigi hjartabilunin er og þar er gjarnan stuðst við NYHA-flokkunarkerfið (New York Heart Association) sem flokkast í fjögur stig: NYHA I-IV. Þetta stigakerfi gefur innsýn í hversu alvarleg hjartabilunin er og hvernig hún hefur áhrif á daglegt líf. Í þessari grein verður farið yfir hvernig mögulega er hægt að auka lífsgæði á mismunandi stigum hjartabilunar með því að einblína á stuðning, lífsstílsbreytingar, lyfjameðferð og andlega þætti.

-Auglýsing-

Hvað er hjartabilun og áhrif hennar á lífsgæði?

Hjartabilun er ástand þar sem afkastageta hjartans er takmörkuð af einhverjum orsökum og hjartað á í vandræðum með að dæla nægjanlega miklu súrefnisríku blóði um líkamann á skilvirkan hátt. Það getur verið af völdum ýmissa sjúkdóma svo sem kransæðasjúkdóma, háþrýstings eða hjartaáfalla. Þegar hjartabilun versnar getur hún haft veruleg áhrif á lífsgæði þar sem þreyta, mæði, andþyngsli og erfiðleikar við hreyfingu setja mark sitt á þann sem er með sjúkdóminn. Lífsgæðin versna svo eftir því sem sjúkdómurinn skorar hærra í NYHA flokkunarkerfinu.

NYHA-flokkunarkerfið:

  1. NYHA I: Einstaklingar á þessu stigi upplifa enga líkamlega skerðingu. Eðlileg hreyfing veldur ekki óþægindum.
  2. NYHA II: Smávægileg líkamleg skerðing kemur fram við daglegar athafnir. Einstaklingar upplifa þreytu, mæði og andþyngsli við áreynslu.
  3. NYHA III: Veruleg skerðing á líkamlegri virkni með einkenni eins og mæði, þreytu og andþyngsli við smávægilega áreynslu.
  4. NYHA IV: Mikil skerðing þar sem einkenni koma fram í hvíld og einstaklingar hafa mjög takmarkaða getu til líkamlegrar áreynslu.

Við þetta má bæta að fólk getur færst á milli flokka bæði upp og niður en almennt er hjartabilun þess eðlis að hún versnar með tímanum.

- Auglýsing-

Lífsstílsbreytingar sem geta aukið lífsgæði

Lífsstílsbreytingar eru einn mikilvægasti þátturinn í að bæta lífsgæði þeirra sem glíma við hjartabilun, óháð því á hvaða NYHA-stigi þeir eru. Hér eru nokkur skref sem geta skipt sköpum:

1. Aukin líkamleg virkni

Líkamleg hreyfing er mikilvæg fyrir alla sem eru með hjartabilun en æfingar þurfa að vera í samræmi við getu hvers og eins. Sjúkraþjálfun er mikilvæg og sérfræðingar mæla oft með æfingum á borð við göngur, sund  eða rafmagshjólreiðar sem geta bætt lífsgæði. Hjá einstaklingum á NYHA I-II stigum er hægt að stunda hóflega hreyfingu með tiltölulega litlum takmörkunum á meðan fólk á NYHA III-IV stigi sjúkdómsins þarf að gæta sérstakrar varúðar og ætti að leita ráða hjá lækni áður en það tekur upp æfingar.

2. Hollt mataræði

Gott mataræði er lykilatriði til að halda hjartanu í góðu ástandi og lágmarka einkennin. Einstaklingar með hjartabilun ættu að forðast of mikið salt og mettaðar fitur þar sem slíkt getur hækkað blóðþrýsting og aukið bólgur í líkamanum. Mælt er með að fylgja mataræði sem er ríkt af grænmeti, ávöxtum, heilkornum, hnetum og ómettuðum fitum. Ráðlagt er að þeir sem eru á NYHA III-IV stigum þar sem einkenni eru alvarlegri, fylgist sérstaklega vel með næringunni þar sem áríðandi er að viðhalda vöðvamassa eins og hægt er.

3. Þyngdarstjórnun

Yfirþyngd getur aukið álag á hjartað, sérstaklega hjá þeim sem eru á NYHA II-IV stigi sjúkdómsins. Að halda þyngdinni innan marka getur hjálpað til við að létta álag á hjartavöðvann og auðveldar hreyfingu. Læknar og hjúkrunarfólk mælir gjarnan með hvaða leiðir eru farnar varðandi mataræði og mælt með að vigta sig reglulega til að fylgjast með vökvasöfnun sem getur verið vandamál í hjartabilun.

Lyfjameðferð og læknisfræðileg inngrip

Lyfjameðferð er nauðsynleg til að stjórna einkennum hjartabilunar og bæta lífsgæði. Hér eru nokkur lyf sem oft eru notuð við mismunandi stig NYHA-flokkunarinnar:

1. ACE-hemlar og beta-blokkarar

ACE-hemlar og beta-blokkar eru mikið notaðir til að bæta hjartastarfsemi og draga úr einkennum. Þau geta dregið úr hættu á óvæntum uppákomum og bætt lífsgæði, sérstaklega hjá þeim sem eru á NYHA I-II. Þeir sem eru á NYHA III-IV stigi njóta einnig góðs af þessum lyfjum þó þurfi oft að bæta öðrum lyfjum við til að draga úr einkennum.

- Auglýsing -

2. Þvagræsilyf

Þvagræsilyf eru sérstaklega mikilvæg fyrir þá sem eru með hjartabilun og þá sekki síst á NYHA III-IV til að draga úr vökvasöfnun og bjúg. Með því að minnka vökvasöfnun léttir á hjartanu og dregur úr andþrengslum.

3. Þjálfun og hjartaendurhæfing

Hjartaendurhæfing þar sem sjúklingar fá faglega leiðsögn um hreyfingu, mataræði og lyfjameðferð, getur skipt miklu máli fyrir alla sem glíma við hjartabilun, sérstaklega á hærri stigum NYHA-flokkunar.

Andlegt og félagslegt stuðningskerfi

Andleg vellíðan er mikilvægur þáttur í því að bæta lífsgæði þeirra sem lifa með hjartabilun. Streita, kvíði og þunglyndi eru algeng hjá þeim sem glíma við sjúkdóminn og getur haft neikvæð áhrif á heilsu og batahorfur. Það er mikilvægt að fá stuðning frá fjölskyldu, vinum og fagfólki auk þess sem hópmeðferð eða einstaklingsmeðferð getur hjálpað til við að bæta andlega vellíðan.

  • Hópmeðferð: Getur hjálpað til við að deila reynslu og fá stuðning frá fólki í svipaðri stöðu.
  • Ráðgjöf: Sérstaklega fyrir þá sem eru á NYHA III-IV stigum þar sem andlegt álag eykst með versnandi einkennum. Þá má nefna að starfandi er Göngudeild hjartabilunar á Landspítalanum þar sem hjartabilaðir frá afar góða þjónustu og haldið vel utan um þá.

Niðurlag

Hjartabilun er alvarlegt ástand sem hefur áhrif á lífsgæði en með réttum stuðningi, lyfjameðferð og lífsstílsbreytingum er hægt að bæta lífsgæði verulega. Þeir sem eru á fyrri stigum hjartabilunar eins og NYHA I-II, geta með því að gera breytingar á daglegu lífi með því að fylgja heilbrigðum lífsstíl og stunda reglulega hreyfingu haft mikiláhrif á framgang sjúkdómsins. Þeir sem eru með lengra genginn sjúkdóm NYHA III-IV, ættu að hafa gott eftirlit með heilsu sinni og fá stuðning frá heilbrigðisstarfsfólki til að stjórna einkennum og vinna að lausnum. Með því að sameina líkamlega, andlega og félagslega nálgun ásamt réttum lyfjum er í flestum tilfellum hægt að bæta lífsgæði, þrátt fyrir að hjartabilun sé erfiður sjúkdómur. Við þetta má þó bæta að einkenni geta verið mjög einstaklingsbundinn allt eftir orsökum og eðli hjartabilunarinnar.

Björn Ófeigs.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-