Ein mikilvægasta forvörnin er að fylgjast með blóðþrýstingnum. Háþrýstingur er alvörumál og helstu afleiðingarnar af háþrýstingi geta meðal annars verið hjarta- og æðasjúkdómar og í alvarlegustu tilfellunum hjartaáföll og heilablóðföll. En einnig nýrnabilanir og blinda.
Hvað þýða blóðþrýstingstölurnar þínar?
Eina leiðin til að vita hvort þú sért með háan blóðþrýsting er að láta mæla blóðþrýstinginn. Skilningur á niðurstöðum blóðþrýstingsmælinga er lykillinn að því að ná stjórn á blóðþrýstingnum.
Blóðþrýstingsviðmið
Hér að neðan má sjá töflu yfir blóðþrýstingsviðmið American Heart Association:
Athugið að alltaf ætti að fá staðfestingu á háum blóðþrýstingi frá lækni. Heilbrigðisstarfsmaður ætti einnig að meta blóðþrýstingsmælingar sem sýna óvenju lágan blóðþrýsting.
Blóðþrýstingsflokkar
American Heart Association skiptir blóðþrýstingstölum niður í fimm flokka og eru þeir eftirfarandi:
Eðlilegur blóðþrýstingur
Blóðþrýstingstölur undir 120/80 mmHg (millimetrar kvikasilfurs) eru taldar innan eðlilegra marka. Ef að niðurstöður þínar fallan í þennan flokk skaltu halda þig við heilbrigðar venjur, líkt og hollt mataræði og reglulega hreyfingu.
Hækkaður blóðþrýstingur
Blóðþrýstingur telst hækkaður þegar slagbilsþrýstingur (e. systolic) er stöðugt á bilinu 120-129 mmHg og lagbilsþrýstingur (e. diastolic) er lægri en 80 mmHg. Einstaklingar með hækkaðan blóðþrýsting eru líklegir til að þróa með sér háþrýsting nema gripið sé til ráðstafana til að ná stjórn á blóðþrýstingnum.
Háþrýstingur – Stig 1
Sé slagbilsþrýstingur stöðugt á bilinu 130-139 mmHg eða lagbilsþrýstingur stöðugt á bilinu 80-89 mmHg er jafnan talað um 1. stigs háþrýsting. Á þessu stigi háþrýstings er mikilvægt að gera lífstílsbreytingar í samráði við heilbrigðisstarfsfólk. Auk þess er metið hvort ávísa skuli blóðþrýstingslyfjum í þeim tilgangi að draga úr hættu á æðakölkunarsjúkdómum, svo sem hjartaáfalli eða heilablóðfalli.
Háþrýstingur – Stig 2
Háþrýstingur telst kominn á stig 2 þegar blóðþrýstingur er stöðugt 140/90 mmHg eða hærri. Á þessu stigi háþrýstings ávísar heilbrigðsstarfsfólk jafnan blóðþrýstingslyfjum og leggur línur varðandi lífsstílsbreytingar.
Bráður háþrýstingur
Þegar blóðþrýstingur mælist yfir 180/120 mmHg er talað um bráðan háþrýsting. Slíkt ástand krefst læknisaðstoðar, en komi svo háar tölur fram á blóðþrýstingsmælinum er þó gott að bíða í 5 mínútur og mæla svo blóðþrýsting á nýjan leik. Ef blóðþrýstingur er enn óvenju hár skal tafarlaust leita til læknis.
Ef að blóðþrýstingur er hærri en 180/120 mmHg og þú finnur fyrir einkennum sem geta bent til líffæraskemmda, t.d. brjóstverk, mæði, bakverk, dofa/slappleika, sjóntruflunum eða talerfiðleikum, skaltu ekki bíða og sjá hvort blóðþrýstingur lækki heldur samstundis hafa samband við Neyðarlínuna.
Efri og neðri mörk blóðþrýstings
Blóðþrýstingsmælingar samanstanda af tveimur tölum, eða efri og neðri mörkum:
- Slagbilsþrýstingur (efri mörk) er mælikvarði á þrýsting í slagæðum þegar hjartað dregst saman.
- Lagbilsþrýstingur (neðri mörk) er mælikvarði á þrýsting í slagæðum á meðan hjartavöðvinn hvílir sig á milli samdrátta.
Hvor talan er mikilvægari?
Slagbilsþrýstingur (efri mörk) er almennt álitinn stærri áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma hjá einstaklingum sem náð hafa 50 ára aldri. Slagbilsþrýstingur hækkar yfirleitt með aldrinum vegna aukins stífleika stórra slagæða, fitusöfnunar innan á æðaveggjum og aukinnar tíðni hjarta- og æðasjúkdóma.
Hár slagbilsþrýstingur og hár lagbilsþrýstingur geta þó hvor um sig gefið vísbendingar um háan blóðþrýsting og verið grundvöllur greiningar.
Björn Ófeigs.
Heimild: