Hjartaaðgerðir eru margar og mismunandi og fara eftir alvarleika og tegund hjartasjúkdóms eða -bilunar. Hér að neðan má sjá upplýsingar um helstu tegundir hjartaaðgerða sem og tengla með frekari upplýsingum.
Hjartaþræðing og kransæðavíkkun
Hjartaþræðing er rannsókn þar sem ástand kransæða er myndað. Örmjó slanga er þrædd inn í náraslagæði og upp til hjartans. Þetta kallast vinstri þræðing. Með því að dæla skuggaefni í gegnum slönguna er hægt að taka röntgenmyndir sem sýna hugsanleg þrengsli eða stíflur í kransæðunum.
Niðurstaðan er síðan notuð til að ákveða næstu skref meðferðar. Í sumum tilfellum er hægt að víkka kransæðarnar og við það eykst blóðflæðið til hjartavöðvans. Ef þess þarf er kransæðavíkkunin yfirleitt gerð strax og myndatakan er gerð svo ekki þurfi aðra þræðingu.
Hægri þræðing er þegar þrætt er frá bláæð um hægra hjartahólf og út í lungnaslagæð. Með hægri þræðingu er metinn þrýstingur í blóðrás, súrefnismettun og hversu miklu blóði hjartað dælir á hverri mínútu.
Í kransæðavíkkun er slanga þrædd niður eftir æðinni sem víkka skal út. Á enda slöngunnar er lítill belgur og er honum komið fyrir þar sem þrengslin eru mest. Belgurinn er síðan fylltur með vökva og svo er fitunni og kalkinu, sem þrengir æðina, þrýst út að æðaveggnum.
Árangur af hjartaþræðingum á Íslandi er afar góður og rannsóknir sýna að dánartíðni sjúklinga sem greinast með hjartadrep og látast innan 30 daga er með því lægsta sem sést hefur í heiminum.
Í starfsemisupplýsingum LSH fyrir janúar-nóvember 2008 er fróðlegur pistill eftir Guðmund Þorgeirsson, prófessor og sviðsstjóra lækninga á lyflækningasviði I, um árangur við meðferð bráðrar kransæðastíflu. Þar dregur Guðmundur saman gögn úr skýrslu Efnahags- og þróunarstofnunarinnar (OECD) um gæði heilbrigðisþjónustu fyrir árið 2006 (Health Care Quality Indicators Project 2006. Data Collection Report).
Guðmundur segir m.a. annars: „Tvennt vekur sérstaka athygli þegar gögnin eru skoðuð. Í fyrsta lagi eru víðast greinilegar framfarir þótt athugunartímabilið sé stutt. Í öðru lagi er staða Íslands glæsileg í hinum fjölþjóðlega samanburði og á tímabilinu verður sláandi lækkun í dánartíðni þeirra sem leggjast inn á sjúkrahús með kransæðastíflu. Þannig lækkaði dánartíðnin úr 11,6% árið 2002 í 6,4% árið 2005 og eru Íslendingar þá ásamt Dönum með lægstu dánartíðnina meðal OECD-landa.“ Rétt er að geta þess að meðaltal OECD-landanna á sama tímabili var þá 9,6%.
Og Guðmundur heldur áfram: „Landspítalatölurnar frá 2007 eru síðan lægri en nokkrar 30 daga dánartölur eftir kransæðastíflu sem birtar hafa verið eða 3,6%. Þær koma beint úr gagnasafni Landspítalans, hafa ekki áður verið birtar og eru í þeim skilningi ekki opinber eða staðfest gögn. Þær byggja hins vegar á sams konar gagnaöflun og fyrri gögn frá Íslandi sem birst hafa í OECD-skýrslum og munu því tæpast breytast mikið. Meðan ekki hafa birst gögn frá öðrum þjóðum frá árinu 2007 er að sjálfsögðu ekki unnt að fullyrða að Íslendingar búi við heimsins lægstu dánartíðni eftir innlögn á sjúkrahús vegna kransæðastíflu. Hins vegar er unnt að fullyrða að dánartíðnin er orðin svo lág að varla verður mikið betur gert.“
Það er ljóst að sú ráðstöfun að hafa vakt á þræðingatækjum á kvöldin og um helgar skiptir sköpum til að ná þeim árangri sem Guðmundur lýsir en framkvæmdar eru um 150 bráðaþræðingar á ári.
Gangráðsísetning
Ef meðfæddur gangráður hjartans eða leiðslukerfi þess bilar þarf stundum að setja nýjan gangráð í einstakling til að tryggja eðlilegan hjartslátt. Gangráðurinn er þannig byggður að ýmist ein eða tvær leiðslur liggja frá rafhlöðu hans eftir bláæð, niður í hægri gátt og áfram niður í hægri slegil. Verði hjartslátturinn óeðlilega hægur grípur gangráðurinn inn í, sendir rafboð til hjartans og kemur í veg fyrir svima og yfirlið. Gangráðurinn er nokkurskonar rafeindaklukka sem mælir tíma og getur samræmt starfsemi hjartahólfanna og aðlagað hjartsláttarhraða í samræmi við þarfir.
Gangráðsísetning er gerð í staðdeyfingu og tekur um eina klukkustund. Lítill skurður er gerður neðan við viðbein og er gervigangráðurinn settur undir húðina í eins konar vasa. Skurðinum er svo oftast lokað með undirsaum sem eyðist. Aðgerðin er yfirleitt sársaukalítil.
Rafhlöður gervigangráðs endast yfirleitt í 5-10 ár eftir tegundum og þegar rafhlöðurnar fara að gefa sig finnur viðkomandi fyrir því að hjartslátturinn verður hægari. Einnig getur viðkomandi fundið fyrir svima og því er reglulegt eftirlit mikilvægt. Að skipta um rafhlöðu er stutt aðgerð og þarf sjúklingur yfirleitt ekki að liggja á sjúkrahúsi í nema einn dag. Rafhlöðuskiptin eru einni gerð í staðdeyfingu og með sama undirbúningi og upphaflega gangráðsísetningin.
Lokun á opi milli gátta
Aðgerðin er gerð til að loka fyrir blóðflæði milli gáttanna og þannig koma í veg fyrir blóðtappamyndun í ósamræmi í dælukrafti hjartans. Á sama tíma er vélindaómun framkvæmd bæði til þess að stýra ísetningunni og til að mæla stærð opsins. Grannur plastleggur er leiddur í bláæð frá hægri nára til hjartans og þannig er hnappnum komið fyrir. Aðgerðin er gerð í svæfingu og tekur 1-2 klukkustundir.
Hjartalokuaðgerð
Þegar hjartalokur vinna illa er talað um viðkomandi sé með hjartalokusjúkdóm. Lokurnar geta ýmist ekki opnast nægilega mikið eða þá lokast illa. Við það flæðir blóðið ekki til hjartahvolfana á eðlilegan máta. Þetta getur þýtt meira álag á hjartað eða að blóð geti safnast fyrir í lungum/líkama vegna þess að það flæðir ekki í gegnum hjartað eins og það á að gera. Aðgerðir til að laga eða skipta um lélegar hjartalokur eru algengar.
Viðgerð á hjartaloku felst í því að hringur er saumaður í kring um op lokunnar til að þrengja á því. Þá gætu hlutar lokunnar verið klipptir, styttir eða aðskildir til að hjálpa lokunni að opna og loka á réttan máta. Ef þarf að skipta um hjartaloku stendur valið á milli stálloku (mekanísk loka) eða lífrænnar loku (oftast svínaloka). Ef notuð er stálloka þarf ævilanga blóðþynningu sem ekki er þörf á þegar um lífræna loku er að ræða. Þetta er vegna þess að stállokur valda aukinni hættu á blóðseglamyndun.
Á meðan hjartalokuaðgerð stendur yfir má hjartað ekki slá. Þannig er blóðflæði um líkamann viðhaldið með hjarta- og lungnavél en vélin veitir blóðinu súrefni og dælir því út í líkamann. Þegar viðgerð eða hjartalokuskiptum er lokið er hjartað sett aftur á stað svo það slái af sjálfsdáðum.
Hjáveituaðgerð
Sýnt hefur verið fram á að sjúklingum með þrengsli í höfðustofni vinstri kransæðar farnist betur með hjáveituaðgerð en lyfjameðferð. Í aðgerðinni er tengt framhjá þrengslum í kransæðum bæði með því að nota græðlinga úr bláæðum ganglima sem og slagæðina innanvert á brjóstveggnum. Hjáveituaðgerðir hafa verið framkvæmdar hér á landi síðan árið 1986 með góðum árangri.
Þegar slagæðin er notuð er hún tengd á kransæðina handan við þrengslin í æðinni og þannig er blóðflæðið tryggt til hjartavöðvans. Bláæðagræðlingar gegna sama hlutverki en oftast eru notaðir þrír eða fleiri eftir því hver margar æðar eru þrengdar. Þá er annar endi græðlingsins saumaður við ósæðina og hinn endinn saumaður handan við þrengslin í kransæðinni.
Æðagúlpur
Æðagúlpur (aortic aneurysm) er þegar útbungun eða gúlpur myndast á ósæð, aðalslagæð líkamanns. Gúlparnir geta myndast hvar sem er á ósæðinni en þeir eru algengastir á kviðsvæðinu.
Með vaxandi þrýsting og útþenslu aukast líkur á því að gúlpurinn springi. Ef æðagúlpar eru stórir, valda sjúkdómseinkennum eða stækka hratt er hætta á því að æðin springi. Ef gúlpur á ósæð springur geta orðið alvarlegar blæðingar sem geta leitt til skyndidauða en dánartíðni við rof æðar er allt að 80%.
Í sumum tilfellum mælir læknir með því að sjúklingur með æðagúlp gangist undir skurðaðgerð. Hjá karlmönnum er yfirleitt mælt með skurðaðgerð ef sjúkdómseinkenni koma fram eða ef gúlpurinn er 5.5 cm í þvermál eða stærri. Hjá konum er oft mælt með aðgerð þó svo gúlpurinn sé lítill. Skurðaðgerð vegna æðagúlps fer þannig fram að gerður er skurður á maga eða brjóstkassa, síðan er gúlpurinn fjarlægður og skemmdi hluti ósæðarinnar er bættur með ágræðslu.
Hjartaaðgerðir á börnum
Árlega greinast á bilinu 40-50 börn með hjartasjúkdóma eða – galla á Íslandi. Þar sem samfélagið er lítið hefur ekki verið mögulegt að framkvæma allar hjartaskurðaðgerðir hér á landi. Ár árunum 1990-2000 gengust alls 75 börn undir 79 skurðaðgerðir en alla tíð hafa börn verið send til útlanda í hjartaaðgerðir, mismörg þó.
Aðgerðunum, sem hér hafa verið framkvæmdar, má skipta í tvo flokka. Annars vegar aðgerðir þar sem hjarta- og lungnavél er notuð (opin aðgerð) og hins vegar aðgerðir þar sem slík vél er ekki notuð (lokuð aðgerð).
Hjartagallar eru margvíslegir en af þeim 79 aðgerðum sem framkvæmdar hafa verið hér á landi hafa flest barnanna verið með op á milli gátta, eða 30 talsins. Fjórtán börn þjáðust að ósæðarþrengslum og tólf gengust undir framhjáveituaðgerð.
Á heimasíðunum www.doktor.is www.neistinn.is og www.hjartagattin.neistinn.is má lesa frekar um hjartaaðgerðir á börnum.
Heimildir: www.hjartaheill.is, www.doktor.is, www.americanheart.org, www.cts.usc.edu, www.webmd.com
Erlendir tenglar
Eitt af betri sjúkrahúsum í heiminum þegar kemur að hjartaaðgerðum er á nokkurs vafa Cleveland Clinic í Bandaríkjunum hér fyrir neðan er tengill inn á hjartaaðgerðasíðuna þeirra og þar er að finna gríðarlega mikin og góðan fróleik. Hjartadeildin þeirra var kosin besta hjartadeildin í bandaríkjunum á síðasta ári og hafa þeri fengið þann titil þrettán ár í röð.
Heimasíðan þeirra hefur einnig fengið silfurverðlaun sem heita “WWW Health Award for Hospital Patient Education & eHealthcare Leadership awards for Center of Excellence: Best Overall Internet Site and Best Health & Health Care Content.”
http://www.clevelandclinic.org/heartcenter/pub/guide/surgery/default.asp?firstCat=3&secondCat=469
Hér fyrir neðan eru tenglar af chfpatient.com. Þetta eru áhugaverðir tenglar um aðgerðir og hjálpartæki fyrir hjartabilaða. Það er rétt að benda á LVDs þar sem fjallað er um hjálpardælur. Á þessari síðu er að finna gríðarlegt magn af efni um hjartabilun. Mæli með henni.
Heart failure surgeries and procedures
ICDs
Pacemakers
LVDs ( hjálpardælur)
Artificial heart (gervihjörtu)