Veikindi maka geta verið átakamikil fyrir báða aðila. Samskipti breytast og jafnvel hlutverk, sum okkar leggjast í vörn á meðan aðrir fara í sóknarham. Hér er frábær pistill frá Mjöll Jónsdóttir sálfræðingi hjá Sálfræðingum Höfðabakka þar sem hún varpar ljósi á varnarleik hjóna.
Það er hægt að lýsa parsambandi með því samskiptamynstri sem einkennir það. Því mynstri sem myndar þann dans sem tveir einstaklingar dansa saman í gegnum þær áskoranir og gleði sem lífið bíður upp á. Þegar vel gengur erum við örugg, dansinn er fjölbreyttur og flæðir vel, við erum í takti og við leikum okkur aðeins með sporin. Þegar reynir á verða samskiptin streitumeiri og þá stirðnar dansinn. Hann verður þrengri, einhæfari og okkur finnst við ekki hafa möguleika til tjáningar og leiks. Neikvæð mynstur taka yfir dansinn okkar sem er ekki lengur í takt.
Það er hins vegar jafn mikið mynstur í erfiðum dansi og góðum. Þegar við förum í vörn þá dönsum við yfirleitt svipað og alltaf þegar við förum í vörn. Maki okkar líka. Eins dásamlegt og það er að þekkja maka sinn vel og dansa taktfast með honum þegar vel gengur þá er mikilvægt að átta sig á takti hans þegar ekki gengur eins vel. Það er augljós gagnsemin í því að átta sig á takti hins ef markmiðið er að komast í takt við hann aftur, ekki satt? Á erfiðum augnablikum erum við hins vegar líkleg til að hlusta minna en ella og svara meira um eigin afstöðu, horfa minna á upplifun makans en færa frekar rök fyrir eigin upplifun. Við erum í vörn líkleg til þess einmitt að verja okkur, sem gerir að við lokum í stað þess að opna og leyfa flæðinu að finna sinn veg.
Ef vel er að gáð, er hægt að sjá að þegar við erum í vörn þá söknum við í raun maka okkar. Þegar við erum reið þá eru þar undir viðkvæmari tilfinningar eins og t.d. særindi eða óöryggi. Þegar við rífumst þá erum við í raun að segja að við viljum meiri athygli, að við viljum vera séð, finna umhyggju, að við séum ekki ein. Það þýðir að við viljum meira af maka okkar, ekki minna. Það er hins vegar ekki það sem við endilega segjum og það er mjög ólíklega það sem maki okkar skilur. Hann heyrir gagnrýni og hann heyrir höfnun. Sem kallar á vörn og viðbrögð sem framkallar vítahring sem gerir okkur enn sárari, enn reiðari.
Hvað ef báðir myndu átta sig á að reiður maki er oftast að kalla á tengsl? Hvað ef báðir myndu læra að þekkja þennan dans, læra að skilja að svona spor er merki um þörf en ekki ásökun? Spáðu aðeins í þeim dansi sem þú og þinn maki dansið þegar þið eruð ekki í takti. Hvernig lítur hann út? Hvaða vörn eruð þið vön að sýna og hvernig eruð þið vön að svara vörn maka ykkar? Hvaða viðkvæmu tilfinningar er maki þinn að tjá undir t.d. reiðinni eða pirringnum? Hvað myndi gerast ef þú slepptir vörninni en svaraðir frekar ákalli þeirra tilfinninga? Gæti dansinn mögulega orðið betri?
Mjöll Jónsdóttir, sálfræðingur
mjoll@shb9.is
Munið eftir að læka við okkur á Facebook