Sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni leita í flestum tilfellum á heilsugæslu eða sjúkrastofnun (bráðamóttöku) vegna brjóstverkja.
Ef einkenni vekja grun um kransæðasjúkdóm kallar það á tafarlaust mat við komu. Sjúkrasaga er tekin, skoðun, mat áhættuþátta, hjartalínurit og blóðprufur. Æskilegt er að hjartaafrit og úrlestur þess eigi sér stað innan við 10 mínútna frá komu sjúklings.
Hvikul hjartaöng (brjóstverkur)
Hvikul hjartaöng eða brjóstverkur er hluti af svokölluðu bráðu kransæðaheilkenni (bráður kransæðasjúkdómur). Þá koma brjóstverkir í hvíld eða við minniháttar áreynslu. Þessir sjúklingar eru í hættu að fá drep í hjartavöðvann, sem getur verið lífshættulegt, sérstaklega ef það veldur alvarlegum hjartasláttartruflunum og hjartastoppi.
Brjóstverkur við bráðan kransæðasjúkdóm lýsir sér með herpings- og seyðingsverk með þyngslatilfinningu undur bringubeini eða þvert yfir brjóstið, gjarnan með leiðni upp í axlir og handleggi, annan eða báða, upp í háls, kjálka og tungu. Í vissum tilvikum getur verkurinn líka verið í baki eða ofanverðum kvið. Þessu fylgir oftar en ekki mæði og andþyngsli en líka kaldur sviti, ógleði og angistarilfinning. Konur og aldraðir eru oftar með ódæmigerðan verk og sjúklingar með sykursýki geta verið verkjalausir.
Bráð kransæðavíkkun er í boði á Landspítala allan sólarhringinn, alla daga ársins. Henni er beitt strax við alla þá sjúklinga sem taldir eru vera með yfirvofandi drep í hjartavöðva. Ef ekki er hægt að koma sjúklingum í þræðingu á Landspítala innan 2ja klst er gefið segaleysandi lyf til að leysa upp blóðtappann í kransæðinni. Allir sjúklingar með brátt kransæðaheilkenni fá aspirín við greiningu ásamt fleiri lyfjum sem hemja blóðflögur og stuðla þannig að því að halda kransæðunum opnum.
Heimild: Kransæðabókin
Munið eftir að læka við okkur á Facebook