-Auglýsing-

Konur og hjartasjúkdómar: Að þekkja einkenni og áhættuþætti

Margir telja að hjartasjúkdómar séu algengari á meðal karla en kvenna en í Bandaríkjunum eru þeir þó algengasta dánarorsök beggja hópa. Hormónar eru þó vernandi þáttru hjá konum framan af og ekki óalgengt að einkenni þeirra komi fram allt að 10 árum seinna en hjá körlum.

Auk heilbrigðs mataræðis og hreyfingar er forvörn fólgin í því að þekkja þau einkenni og áhættuþætti hjartasjúkdóma sem einungis eiga við um konur.

Margir telja að hjartasjúkdómar séu algengari á meðal karla en kvenna en í Bandaríkjunum eru þeir þó algengasta dánarorsök beggja hópa. Þar sem einkenni hjartasjúkdóma eru í sumum tilfellum önnur hjá konum en körlum er hætta á að konur þekki síður þau einkenni sem vera þarf vakandi fyrir þegar kemur að hjartaheilsu.

-Auglýsing-

Einkenni hjartaáfalla hjá konum

Algengasta einkenni hjartaáfalla er það sama hjá körlum og konum, einhvers konar brjóstverkur, þrýstingur eða óþægindi sem vara lengur en í nokkrar mínútur eða koma og fara. 

Brjóstverkur er þó ekki alltaf alvarlegasta eða mest áberandi einkenni hjartaáfalls, og á það sérstaklega við á meðal kvenna. Konur lýsa einkennum hjartaáfalls oft sem þrýstingi eða þyngslatilfinningu. Það er líka hægt að fá hjartaáfall án minnstu brjóstverkja.

- Auglýsing-

Konur eru líklegri en karlar til að upplifa einkenni ótengd brjóstverkjum, svo sem:

  • Óþægindi aftan í hálsi, kjálka, öxl, efra baki eða ofarlega í kvið
  • Mæði
  • Verk í öðrum eða báðum handleggjum
  • Ógleði eða uppköst
  • Svitamyndun
  • Svima
  • Óútskýrða þreytu
  • Brjóstsviða (meltingartruflanir)

Þessi einkenni geta verið óljós og ekki eins áberandi og brjóstverkurinn sem gjarnan er tengdur við hjartaáföll. Ástæða þess að konur upplifa hjartaáföll oft á tíðum með öðrum hætti en karlar gæti verið sú að hjá konum eru það ekki einungis stærstu æðarnar sem hafa tilhneigingu til að stíflast, heldur einnig smærri æðar sem dæla blóði til hjartans.

Í samanburði við karla eru einkenni kvenna líklegri til að koma fram í hvíld, eða jafnvel í svefni. Tilfinningaleg streita getur einnig átt þátt í að koma af stað einkennum hjartaáfalls hjá konum.

Vegna þess að einkennin eiga það til að vera ólík þeim einkennum sem karlmenn upplifa er hætta á að konur séu síður greindar með hjartasjúkdóma heldur en karlmenn. Konur eru líklegri til að fá hjartaáfall án alvarlegrar stíflu í slagæð (e. nonobstructive coronary artery disease) en karlmenn.

Hvenær skal leita til læknis?

Ef þú finnur fyrir einkennum hjartaáfalls eða heldur að þú sért að fá hjartaáfall er mikilvægt að hafa strax samband við Neyðarlínuna í 112 og óska eftir hjálp. Ekki setjast undir stýri og keyra upp á bráðamóttöku nema engir aðrir valkostir séu í stöðunni.

Áhættuþættir hjartaáfalla hjá konum

Nokkrir hefðbundnir áhættuþættir kransæðasjúkdóma eru þeir sömu á meðal karla og kvenna – má þar nefna hátt kólesteról, háan blóðþrýsting og offitu. Aðrir þættir geta þó spilað stærra hlutverk í þróun hjartasjúkdóma hjá konum.

Áhættuþættir hjartasjúkdóma hjá konum eru meðal annars:

  • Sykursýki – Konur með sykursýki eru líklegri til að þróa með sér hjartasjúkdóma en karlmenn með sama sjúkdóm. Sjúkdómurinn getur einnig breytt skynjun kvenna á sársauka og eru konur með sykursýki því líklegri til að fá hjartaáfall án einkenna (e. silent heart attack).
  • Tilfinningaleg streita og þunglyndi – Streita og þunglyndi hafa meiri áhrif á hjartaheilsu kvenna en karla. Þunglyndi getur gert það að verkum að erfiðara er að viðhalda heilbrigðum lífsstíl og fylgja ráðlagri meðferð við öðrum heilsufarsvandamálum.
  • Reykingar – Reykingar eru stærri áhættuþáttur hjartasjúkdóma hjá konum en körlum.
  • Hreyfingarleysi – Skortur á hreyfingu er stór áhættuþáttur hjartasjúkdóma.
  • Tíðahvörf – Lágt magn estrógens í kjölfar tíðahvarfa eykur hættuna á að smærri æðar stíflist.
  • Fylgikvillar meðgöngu – Hár blóðþrýstingur eða sykursýki á meðgöngu getur aukið langtímaáhættu á að móðir þrói með sér háþrýsting og sykursýki, áhættuþætti sem geta aukið líkur á hjartasjúkdómum.
  • Fjölskyldusaga um hjartasjúkdóma – Fjölskyldusaga virðist vera stærri áhættuþáttur á meðal kvenna en karla.
  • Bólgusjúkdómar – Liðagigt, rauðir úlfar og aðrir bólgusjúkdómar geta aukið líkur á hjartasjúkdómum hjá bæði konum og körlum.

Konur á öllum aldri ættu að vera vakandi fyrir einkennum hjartasjúkdóma. Konur undir 65 ára aldri, sérstaklega þær sem hafa fjölskyldusögu um hjartasjúkdóma, ættu einnig að vera meðvitaðar um áhættuþætti.

Lífstílsráð

Heilbrigður lífstíll getur hjálpað til við að draga úr hættu á hjartasjúkdómum. Gott er að tileinka sér eftirfarandi:

  • Hættu að reykja – Ef þú reykir ekki skaltu ekki byrja. Reyndu einnig að forðast óbeinar reykingar, en þær geta líka skaðað æðakerfið.
  • Neyttu hollrar fæðu – Veldu heilkornafæði, ávexti, grænmeti, fitusnauðar mjólkurvörur og magurt kjöt. Forðastu mettaða fitu og transfitu, viðbættan sykur og mikið magn salts.
  • Hreyfðu þig og viðhaltu heilbrigðri þyngd – Sértu í yfirþyngd dregur hvert kíló sem þú missir úr hættu á hjartasjúkdómum. Fáðu heilbrigðisstarfsfólk til að ráðleggja þér hvaða þyngd sé æskilegt að miða við að ná.
  • Hafðu stjórn á streitu – Streita getur valdið því að slagæðar þrengist, sem síðan getur leitt til aukinnar hættu á hjartasjúkdómum, sérstaklega í smærri æðum. Hreyfing, núvitund og stuðningshópar eru nokkrar þekktar leiðir til að draga úr streitu.
  • Slepptu eða takmarkaðu neyslu áfengis – Drekkirðu áfengi er mikilvægt að gæta hófsemi. Almennt er miðað við að konur skuli takmarka neyslu við eitt glas á dag og karlmenn við tvö glös á dag.
  • Fylgdu leiðbeiningum lækna – Eigirðu við heilsufarsvandamál að stríða er mikilvægt að fylgja ráðlagðri meðferð og taka blóðþrýstingslyf, blóðþynningarlyf og aspirín eins og mælt er fyrir um.
  • Fylgstu með öðrum heilsufarsþáttum – Hár blóðþrýstingur, hátt kólesteról og sykursýki eru áhættuþættir sem mikilvægt er að fylgjast með og hafa stjórn á.

Hreyfing og hjartaheilsa

Regluleg hreyfing hefur jákvæð áhrif á hjartaheilsu. Almennt er gott að miða við að lágmarki 30 mínútur af hóflegri hreyfingu, t.d. röskri göngu, flesta daga vikunnar. Sé það of mikil áreynsla fyrir þig er gott að byrja rólega og byggja smám saman upp þol og styrk. Jafnvel fimm mínútna hreyfing á dag hefur í för með sér heilsufarslegan ávinning.

- Auglýsing -

Viljirðu bæta heilsuna enn frekar er gott að miða við 60 mínútur af hóflegri til kröftugri hreyfingu á dag, allavega fimm daga vikunnar, og styrktaræfingar að minnsta kosti tvisvar í viku.

Henti það þér betur að skipta æfingunum upp, t.d. í nokkrar 10 mínútna lotur yfir daginn, hefur það ekki áhrif á ávinning æfinganna þar sem jákvæð áhrif á hjartaheilsu eru þau sömu.

Svokölluð interval þjálfun, þar sem kröftugar þolæfingar og léttari æfingar eru teknar til skiptis, er önnur leið til að viðhalda heilbrigðri þyngd og bæta blóðþrýsting og hjartaheilsu. Dæmi um interval þjálfun væri að bæta stuttum sprettum inn í skokkæfinguna, eða skokki eða röskri göngu inn í göngutúrinn.

Þú getur líka bætt hreyfingu við daglega rútínu á eftirfarandi hátt:

  • Taka stigann í stað lyftunnar.
  • Ganga eða hjóla í og úr vinnu eða þegar þú þarft að útrétta.
  • Ganga á staðnum þegar þú horfir á sjónvarpið.

Meðferðarúrræði fyrir konur

Almennt eru meðferðarúrræði við hjartasjúkdómum nokkuð svipuð hvort sem um er að ræða konur eða karla og geta falið í sér lyfjagjöf, útvíkkunaraðgerðir og stoðnet eða kransæðahjáveituaðgerðir.

Þó að meðferðarúrræði séu að mestu leyti sambærileg hefur þó mátt greina eftirfarandi mun á milli meðferða karla og kvenna:

  • Konur fá sjaldnar aspirín og statínlyf til að fyrirbyggja hjartaáföll en karlar. Rannsóknir benda þó til þess að ávinningur sé sambærilegur hjá báðum hópum.
  • Konur gangast sjaldnar undir kransæðahjáveituaðgerðir en karlar, líklega vegna þess að hjartasjúkdóma kvenna má oftar rekja til stífla í minni slagæðum eða smáæðum.
  • Hjartaendurhæfing getur bætt heilsu og flýtt bata eftir hjartaaðgerðir. Konum er þó sjaldnar vísað í hjartaendurhæfingu en körlum.

    Við þetta má bæta að greinin er byggð á athugunum erlendis og því hvernig meðferð er háttað þar. Hjartasamtök hafa víða vakið athygli á því að konur fái ekki jafn góða meðferð og karlar. Veit ekki til að þetta hafi verið rannsakað hér á landi en reikna ekki að þetta sé eitthvað betra hér á landi.

    Björn Ófeigs.

Heimild: https://www.mayoclinic.org/diseases-conditions/heart-disease/in-depth/heart-disease/art-20046167?fbclid=IwAR3hJEMs562E2jLQ38g74yL1sxowsoU8rpcW3vSYM_iJQKNOQv6Dw6fFy04

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-