Margir sem fá hjartaáfall eru á því að það hafi verið fyrirvaralaust en það er líklegt að svo sé ekki. Ástæðan er líklega sú að við þekkjum ekki viðvörunarbjöllurnar eða hundsum þær, þetta kemur ekki fyrir mig.
Svona hugsaði ég fyrst eftir hjartaáfallið, ég vissi ekki betur. Á hverjum degi upplifa margir einkenni frá hjartanu án þess að gera sér grein fyrir alvarleikanum. Að bera kennsl á þessi einkenni í tíma getur skipt sköpum. Oft eru þetta lítil atriði sem við teljum ekki endilega alvarleg sem geta reynst forboði hjartaáfalls. Þegar öll einkenni eru hins vegar skoðuð saman getur haft afdrifaríkar afleiðingar að kanna málið ekki frekar.
Á hverju ári verða milli 100 og 200 hjartastopp utan sjúkrahúsa á Íslandi. Það sorglega er að aðeins um 20% af þeim sem lenda í því lifa það af og hjartastuðtæki gegna þar lykilhlutverki.
Aðdragandinn
Í aðdragandanum að hjartaáfallinu mínu fékk ég ýmis einkenni sem hefðu átt að hringja bjöllum. Læknar sem ég hafði hitt tóku ekki eftir þessum einkennum eða tengdu þau ekki saman. Ég aftur á móti hafði ekki þekkingu til að greina þau eða átta mig á hvað þau þýddu. Eina sem ég vissi var að ég var ekki eins og ég átti að mér að vera. Ég get hreinskilningslega sagt að ég átti alls ekki von á þessu, enda innan við fertugt á þeim tíma.
Ég ferðaðist mikið vegna vinnu minnar árin á undan og álagið var oft mikið. Svefnvandamál, minnkað úthald og sívaxandi þreyta fylgdu mér undir það síðasta. Mér fannst stundum eins og ég væri að brenna út.
Einkennin mín
Ég var oft með óreglulegan hjartslátt og aukaslög sem lýstu sér þannig að það var eins og hjartað sleppti úr slagi. Einkennin versnuðu sérstaklega þegar ég var á ferðalögum. Mér var þungt fyrir brjósti, varð fljótt móður og leið illa. Ég hafði af þessu áhyggjur og fór því til heimilislæknis sem tók blóðprufur.
Læknirinn sagði mér að blóðprufurnar væru í lagi og taldi líklegt að millirifjagigt væri að hrjá mig. Hann sagði einnig að álag og streita væri líkleg skýring. Hann gerði lítið úr einkennunum og skrifaði ristruflanir á kvíða en sá ekki ástæðu til frekari rannsókna.
Það er líklegt að það sé í mannlegu eðli að hundsa einkenni sem líkaminn sendir okkur og svo var um mig. Þó mér væri órótt kunni ég ekki að túlka það sem líkaminn var að segja mér. Einkenni geta vissulega verið ruglingsleg en það gefur enn meiri ástæðu til að kanna málið til hlítar.
Lífið mánuðina fyrir hjartaáfall
- Mikið álag og streita í langan tíma
- Kvíði
- Úthaldsleysi
- Þreyta
- Mæði
- Erfitt að ná upp þreki
- Þyngsl fyrir brjósti
- Tilfinning fyrir því að mig vantaði súrefni
- Hjartsláttartruflanir undir og eftir álag
- Ristruflanir
- Of hátt kólesteról (6,9 átta mánuðum fyrir hjartaáfallið, 7,6 þegar það reið yfir)
Aldurinn segir ekki allt
Þrátt fyrir að hafa aðeins verið 37 ára á þessum tíma, hefðu þessi einkenni átt að duga til þess að heimilislæknirinn minn hefði látið athuga hjartað í mér og sent mig til sérfræðings. Sum þessara einkenna voru skýrar viðvörunarbjöllur um að eitthvað var ekki í lagi. Því miður lét hann hjá líða að senda mig í frekari rannsóknir og ég hafði engar forsendur eða ástæðu til að véfengja mat hans á þeim tíma. Átta mánuðum eftir blóðprufuna fékk ég hjartaáfall.
Mig langar að deila þessari reynslu með þér því ég veit að margir telja sig ekki finna fyrir neinu alvarlegu. En þegar nánar er skoðað gæti margt bent til þess að það sé ráð að panta tíma hjá hjartasérfræðingi til að láta kanna málið.
Þekktu gildin þín
Það er mikilvægt að þekkja gildin sín, þ.e. blóðþrýsting, kólesteról, púls og jafnvel blóðsykur. Það gæti líka verið góð hugmynd að panta tíma hjá hjartalækni, fara yfir fjölskyldusögu og jafnvel fara í áhættumat þar sem meðal annars er mældur blóðþrýstingur og kólesteról. Þrakpróf gæti líka verið góð hugmynd ef ástæða er til. Þetta mat getur hjálpað einstaklingum að átta sig á eigin áhættuþáttum og grípa til viðeigandi ráðstafana.
Að lokum
Lífið er dýrmætt og það að viðhalda góðri heilsu er lykilatriði til að njóta þess. Við verðum að hlúa að okkur sjálfum og hvert að öðru, því það er ekki sjálfsagt að fá annan séns.
Björn Ófeigs.