Með vaxandi þekkingu á hjarta- og æðasjúkdómum kvenna eru ráðleggingar hjartalækna að breytast.
Konur hafa í gegnum tíðina verið varaðar við „ódæmigerðum“ einkennum hjartaáfalls, ólíkum þeim sem karlar upplifa.
Nýlegar viðmiðunarreglur, gefnar út af hjartalæknum við Harvard háskóla, kollvarpa þó þessum hugmyndum. Svo virðist sem brjóstverkur, helsta einkenni hjartaáfalls, sé ekki eins sértækt fyrir karla eins og læknar töldu og sé í raun algengasta merki um hjartaáfall óháð kyni. Konur sem fá hjartaáfall eru þó líklegri til að tilkynna fleiri einkenni, þar á meðal mæði, ógleði eða þreytu.
Að sögn Dr. Deepak L. Bhatt, prófessors í læknisfræði við Harvard háskóla og framkvæmdastjóra inngripsáætlana vegna hjarta- og æðasjúkdóma við Harvard-tengda sjúkrahúsið Brigham and Women‘s Hospital, töldu læknar í mörg ár að raunverulegur munur væri á þeim brjóstverk sem konur og karlar upplifðu vegna hjartaáfalls. „Þessi mýta hefur talist til grundvallarþekkingar á sviði hjarta- og æðasjúkdóma en í ljós kemur að þetta er ekki rétt og hefur líklega valdið meiri skaða en ekki“, segir hann.
„Í langan tíma höfum við haldið því fram að einkenni kvenna séu ódæmigerð, sem ýtir undir þá hugmynd að einkenni karla séu dæmigerð“, segir Dr. Emily Lau, hjartalæknir við Massachusetts General Hospital sem sérhæfir sig í hjarta- og æðasjúkdómum kvenna. „Sem samfélag erum við að reyna að breyta hugsunarhætti þegar kemur að hjartasjúkdómum og hjartaheilsu kvenna“, bætir hún við.
Fylgdu eftirfarandi ráðleggingum ef þú finnur fyrir brjóstverk
Að sögn Dr. Bhatt eru konur eldri en 65 ára stærstur hluti sjúklinga sem leita á bráðamóttöku með brjóstverki. Konur eru þó ólíklegri til að fá viðeigandi umönnun í tæka tíð, að hluta til vegna þess að þær nefna gjarnan önnur einkenni, líkt og ógleði, þreytu eða mæði, fyrst. Í mörgum tilvikum líta þær einnig framhjá þessum einkennum, telja þau ekki hættuleg og leita því ekki á bráðamóttöku nægilega snemma.
Dr. Bhatt ráðleggur öllum sem finna fyrir brjóstverk að fylgja þessum þremur skrefum:
- Hringdu í Neyðarlínuna 112. Þó þú sért ekki viss um að þú sért að fá hjartaáfall skaltu óska eftir sjúkrabíl. Það fylgja því engin eftirmál komi í ljós að þú sért ekki að fá hjartaáfall en afleiðingarnar geta hins vegar alvarlegar ef hjartaáfall er ekki meðhöndlað í tæka tíð.
- Þegar heilbrigðisstarfsmaður biður þig að lýsa einkennum skaltu nefna brjóstverkinn áður en þú lýsir öðrum einkennum. Ekki draga úr þeim einkennum sem þú finnur fyrir í lýsingu þinni.
- Það er mikilvægt að átta sig á því að blæbrigði brjóstverkjar geta verið með ýmsu móti og að fólk upplifir hann á mismunandi vegu. Í sumum tilfellum getur verið um sáran verk að ræða en í öðrum tilfellum líkist hann frekar þrýstingi eða óþægindum.
Nýjar uppgötvanir á sviði kynbundinna einkenna hjartasjúkdóma
Nýju viðmiðunarreglurnar um mat á sjúklingum með brjóstverki voru skrifaðar af Dr. Bhatt og birtar í ritrýnda tímaritinu Circulation þann 30. nóvember 2021. Þær eru hluti af víðtækum breytingum sem eru að eiga sér stað innan læknasamfélagsins og auknum skilningi á mismunandi upplifun karla og kvenna á hjarta- og æðasjúkdómum.
Harvard háskóli leiddi einnig nýlega rannsókn á hjartabilun, sem einn af hverjum fimm einstaklingum getur búist við að upplifa á lífsleiðinni. Þar kom í ljós að konur eru líklegri til að fá ákveðna tegund hjartabilunar, sem kallast hjartabilun með varðveittu útfallsbroti (e. HfpEF / diastolic heart failure). Þessi tegund hjartabilunar einkennist af því að hjartavöðvinn stífnar, sem minnkar getu hans til að dæla blóði.
Nýleg rannsókn Dr. Jennifer En-Sian Ho, hjartalæknis við Harvard-tengdu læknastöðina Beth Israel Deaconess Medical Center, sem sérhæfir sig í langt genginni hjartabilun og ígræðslu, bendir til þess að konur sem glíma við offitu séu líklegri til að fá hjartabilun með varðveittu útfallsbroti heldur en karlmenn sem glíma við offitu. Að auki bendir rannsókn Dr. Ho, Dr. Lau og fleiri frá árinu 2020 til þess að konur með hjartabilun með varðveittu útfallsbroti eigi erfiðara með að stunda líkamsrækt þar sem hjörtu þeirra nái síður að halda í við þarfir líkamans.
Því miður hafa vísindin enn ekki fundið árangursríkar meðferðir við þessari tegund hjartabilunar. Mun fleiri lyf eru fáanleg til að meðhöndla hjartabilun með minnkað útstreymisbrot (e. HfrEF / heart failure with reduced ejection fraction), en það er sú tegund hjartabilunar sem algengust er á meðal karla. „Stórt þekkingarbil er til staðar þar sem við vitum einfaldlega almennt minna um hvernig meðhöndla eigi konur með hjartabilun á árangursríkan hátt“, segir Dr. Ho.
Æxlunarsaga og hjartasjúkdómar
Þó að rannsóknir haldi áfram að skýra kynbundinn mun þegar kemur að hjartasjúkdómum þá virðist aukin þekking fræðasamfélagsins ekki endurspeglast í vitundarvakningu meðal almennings. Raunar virðist vitund meðal kvenna um alvarleika hjartasjúkdóma fara hríðlækkandi. Könnun American Heart Association frá árinu 2019 leiddi til að mynda í ljós að einungis 44% kvenna tilgreindu hjartasjúkdóma sem helstu dánarorsök kvenna, samanborið við 65% árið 2009.
„Það er átakanlegt að minna en helmingur kvenna sé meðvitaður um þessa staðreynd“, segir Dr. Lau.
Þó að vísindamenn hafi enn ekki fyllilega áttað sig á hvers vegna hjarta- og æðasjúkdómar leggist með mismunandi hætti á kynin hefur það orðið ljóst á undanförnum árum að tengsl eru á milli æxlunarsögu kvenna og hjartaheilsu þeirra. Að sögn Dr. Lau geta hjarta- og æðasjúkdómar verið háðir þáttum eins og:
- Meðgöngusykursýki og háum blóðþrýstingi á meðgöngu
- Einkennum tíðahvarfa og á hvaða aldri þau áttu sér stað
- Ófrjósemi
Dr. Lau segir mikilvægt að ganga úr skugga um að læknirinn þinn spyrji þig spurninga um æxlunarsögu þína. Þrátt fyrir að margir leiði ekki hugann að eða tengi eitthvað sem gerðist á meðgöngu fyrir 20-30 árum við hjartaheilsu geti það verið mjög hjálpleg vitneskja.
Björn Ófeigs/MH