Dögunum mínum hér á Landspítalanum fer fjölgandi en hér hef ég nú verið óslitið á hjartadeildinni í rúmar tvær vikur en þar á undan hafði ég verið hér í eina viku, prófað að fara heim í átta daga en það gekk ekki upp.
Ég er lélegur til heilsunnar og hjartað mitt er þreytt. Í fyrradag kom staðfesting frá Salgrenska sjúkrahúsinu í Gautaborg að þangað ætti ég að vera mættur 1. júní til rannsókna.
Að þessu sinni á að leggja mat á það hvort ég sé kandídat í hjartaígræðslu og ef svo er þá fari ég á biðlista eftir nýju hjarta. Eins og staðan er núna er von mín sú að ég fái nýtt hjarta.
En þetta er langhlaup og erfiður vegur að feta og svo gæti það líka gerst að ég kæmist ekki á biðlistann og þá veit ég satt best að segja ekki alveg hvað tekur við. Ég veit það hinsvegar að við tökum því sem að höndum ber.
Ég veit að það eru margir fyrir utan vini og fjölskyldu sem fylgjast með úr fjarskanum og fyrir það er ég þakklátur. Ég er líka ótrúlega þakklátur fyrir hjúkrunarfólkið hér á hjartadeildinni en það hefur reynst mér ótrúlega vel og stutt mig með ráðum og dáð.
En núna styttist í nóttina og á morgun kemur nýr dagur en í minni stöðu þá tökum við einn dag fyrir í einu.
Björn Ófeigsson