Í Morgunblaðinu í gær kom fram að erfiðlega hefði gengið að vinna á biðlistum eftir hjartaþræðingum á spítalanum. Til þess skorti tæki og fleiri rúm. Sjúkrahúsið á nú tvö hjartaþræðingartæki og er von á því þriðja á næsta ári. “Við erum sífellt að reyna að anna þessari gríðarlegu þörf sem allstaðar er uppi,” sagði Niels. Hann sagði vissulega óþægilegt að hafa langa biðlista, en benti á að nú væri verið að hjartaþræða um 150 sjúklinga í hverjum mánuði. Á þessu ári stefndi í að slíkum aðgerðum fjölgaði í 1.800, en þær voru 1.600 í fyrra. Niels sagði að biðtími sjúklinga sem biðu hjartaþræðingar væri tiltölulega stuttur að meðaltali eða einn og hálfur til tveir mánuðir. Vegna forgangsröðunar þyrftu þó einstaka sjúklingar að bíða lengur.
Niels taldi að kaupin á hjartaþræðingartækinu yrðu ekki erfiðasti þröskuldurinn sem þyrfti að yfirstíga. Stærsti vandinn yrði að koma tækinu fyrir í þrengslunum á sjúkrahúsinu. “Við viljum hafa þessi þrjú tæki í nálægð hvert við annað til þess að samnýta mannskap og annað. En þetta er ekki auðvelt mál í þessum gríðarlegu þrengslum,” sagði Niels.
Niels sagði að oft þyrftu sjúklingar sem fara í hjartaþræðingu ekki að dvelja nema fram eftir degi á sjúkrahúsinu eftir aðgerð, þótt í sumum tilvikum væru þeir yfir nótt. Því þyrfti ekki að bæta við svo mörgum gæslurúmum. Hann var vongóður um framhaldið. “Við aukum afköstin, það er stefnt að því að bæta nýju tæki við og ég vona að við getum leyst önnur vandamál samhliða.”
Morgunblaðið 10.08.2007