Mikilvægt skref hefur verið stigið í að lagfæra brostin hjörtu sem hafa hlotið skaða eftir hjartaáfall. Aðferðinn gæti hjálpað milljónum hjartabilaðra um allan heim, en frá þessu var sagt í Ríkissjónvarpinu í gærkvöldi.
Kanadískum læknum hefur í fyrsta sinn í sögunni tekist að lagfæra vefjaskemmdir í mannshjarta með því að beita samtímis stofnfrumu- og genameðferð. Vonir standa til að aðferðin geti nýst milljónum hjartasjúklinga um allan heim.
Konan sem gekkst undir aðgerðina á sjúkrahúsi í Ottawa, höfuðborg Kanada, fékk hjartaáfall í júlí síðastliðnum. Hjartsláttur hennar stöðvaðist um tíma og áður en endurlífgun bar árangur höfðu miklar skemmdir orðið á vefjum í hjarta. Læknarnir einangruðu stofnfrumur úr blóði konunnar og til að auka virkni þeirra bættu þeir í þær erfðavísi, sem er nýbreytni.
Ættingjar konunnar sem hafa fylgst grannt með meðferðinni segja árangurinn framar vonum.
Áður en meðferðin hlýtur almenna viðurkenningu er frekari rannsókna þörf en þetta mikilvæga skref gefur góð fyrirheit um framhaldið.