fbpx
-Auglýsing-

Vegvísir um hjartað

gcug0522.jpgBjörn Ófeigsson fæddist árið 1966 og ólst upp á Hvanneyri. Hann starfaði á árunum 1990 til 2000 við sölu og markaðsmál hjá Brunnum hf. þar sem hann var stjórnarmeðlimur. Árin 2000-2003 var Björn tryggingamiðlari hjá Ísvá en frá 2003 hefur hann verið frá vinnu vegna hjartaveikinda en einkum unnið að gerð og umsjón Hjarta.net eins og heilsa hefur leyft. Unnusta Björns er Mjöll Jónsdóttir og eiga þau tvo syni.

Hjarta.net er upplýsingavefur um allt sem við kemur hjartasjúkdómum. Björn Ófeigsson er stofnandi og umsjónarmaður vefjarins, en Björn fékk hjartaáfall í ársbyrjun 2003: “Þegar ég kom loks heim af spítalanum vissi ég ósköp lítið um í hvaða stöðu ég væri, og hafði raunar litla hugmynd um hvað hafði í reynd komið fyrir mig,” útskýrir Björn. “Ég hóf að leita upplýsinga á Netinu, og rak mig þá á að þó finna mætti töluvert af lesefni um hjartasjúkdóma var fátt til á íslensku, og það fræðsluefni sem finna mátti á íslensku á dreif hér og þar í stað þess að vera aðgengilegt á einum stað.”

 Það var þá sem sú hugmynd kviknaði hjá Birni að búa til íslenskan upplýsingabrunn um hjartasjúkdóma: “Hjarta.net fór fyrst í loftið í mars 2005. Hægt og bítandi hefur aðsókn í síðuna aukist og fær Hjarta.net nú tæplega 10.000 heimsóknir á mánuði,” segir hann.

Á síðunni má finna upplýsingar um ýmsar hliðar hjartaveikinda: “Leitast er við að hafa efnið aðgengilegt og auðskilið. M.a. eru upplýsingar um áhættuþætti, hjartaaðgerðir, líffæragjafir, endurhæfingu, og réttindi sjúklinga,” útskýrir Björn. “Hjarta.net leitast einnig við að upplýsa aðstandendur hjartasjúklinga, og má m.a. finna á vefnum reynslusögur aðstandenda sem fylgt hafa ástvini gegnum hjartveikindi.”

Hjartabilun fær einnig sérstaka umfjöllun: “Margir gera sér ekki grein fyrir hversu alvarleg hjartabilun er, en lífslíkur hjá fólki með alvarlega hjartabilun eru oft verri en hjá t.d. krabbameins- eða HIV-sjúklingi, og hjartabilun hendir ekki aðeins aldraða, heldur einnig ungt fólk.”

- Auglýsing-

Með vefnum vill Björn líka minna á þá ógn sem hjartasjúkdómar eru: “Hjartasjúkdómar eru ekki áberandi í umræðunni, miðað við marga aðra sjúkdóma. Þó deyja um 650 manns úr hjartaáföllum á Íslandi ár hvert, og hjarta og æðasjúkdómar eru algengasta dánarorsökin í Evrópu,” segir Björn. “Áríðandi er að almenningur sé meðvitaður um hættuna, og geri sér rétta grein fyrir þeim áhrifum sem áhættuþættir og fyrirbyggjandi þættir í mataræði, lífsstíl, og heilsufarssögu geta haft á lífslíkur og lífsgæði.”

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 20.08.2007

Auglýsing
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-