Eitt af því sem reynir á þegar veikindi ber að garði er hjónabandið. Á slíkum stundum er mikilvægt að fólk passi vel upp á hvort annað en því miður og jafnvel eðlilega, reynist það mörgum erfitt og stundum myndast gjá milli fólks. Sumum finnst ekki hlustað á sig á meðan öðrum finnst eins og hin aðilin skilji ekki viðkomandi. Hér er pistill frá Mjöll um málið.
Í byrjun ástarsambands vitum við hversu óendanlega gaman er að lifa. Nýi makinn okkar er besta útgáfan af mannveru sem við höfum kynnst, við svífum um í þéttum dansi og snertum nánast ekki jörð. Maki okkar er sérstakur að svo mörgu leyti og það sem gerir hann sérstakan er það sem við elskum mest.
Eftir því sem tíminn líður tekur hið hversdagslega óhjákvæmilega við. Það er ekki lengur bara mikilvægt að vera saman, hugsa um mig og þig heldur tekur lífið við með húsnæðislánum, barnauppeldi, menntun og mismunandi störfum. Það er eðlilegt og gott. Ástin breytist úr spennu augnabliksins, hún er ekki farin þó hún hafi breyst, hún hefur sett sig í stöðu til framtíðar og því fylgir öryggi og færi til að eflast.
Í gegnum lífið upplifum við mismunandi hluti sem hafa áhrif á okkur sem einstaklinga og par. Samskiptin þróast og ef vel er að gáð er hægt að sjá í þeim mynstur; takt þess dans sem við dönsum. Fátt er fallegra en öruggur dans sem ber með sér áralanga samveru, reynslu og skilning. Traustið sem skín heillar og hvetur um leið. Á einhverjum tíma, af mismunandi orsökum, lenda mörg pör í því að mynstrið breytist, þróast neikvætt. Dansinn flýtur ekki lengur fyrir ofan jörð heldur rekumst við á, tosum og ýtum og upplifunin þreytir og særir en gefur ekki lengur lífsgleði og skjól. Margir finna fyrir því, takast á við það og eru sterkari fyrir vikið. Við lærum af reynslunni og það skilar sér í dansinum þegar takti er náð á ný.
Það er mikilvægt að vera vakandi fyrir því hvernig takturinn þróast. Nútímasamfélag hefur opnað heiminn en einnig minnkað fjölskyldur og það stuðnings- og samstarfsnet sem þær eitt sinn voru. Makinn er stækkandi hluti lífsgæða okkar og sá sem við reiðum okkur einna mest á. Það getur því skapað fjarlægð og minnkuð tengsl ef ekki er brugðist við höktandi dansi og samskiptin festast í neikvæðu mynstri. Það kemur fljótt niður á getu okkar til að vera til staðar hvort fyrir annað, líðan okkar og lífsgæðum.
Hvernig birtist fjarlægð og minnkuð tengsl í þínu sambandi? Ertu einmana eða efastu um ástina? Er gagnrýni ráðandi samtalsform? „Þú hlustar ekki á það sem ég segi!“ Hvað gerið þið og segið sem bendir til að dansinn sé ekki í takt? Hlustaðu, horfðu og finndu. Taktu eftir því hvernig þér líður.
Það getur verið erfitt að fara inn að tilfinningum sínum, finna hvað þar er, viðurkenna og takast á við, ræða málin. En það getur verið svo gott að vera þar með maka sínum. Muna hvað gerir hann sérstakan, finna traust, elska, dansa þétt og njóta lífsins saman.
Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur
mjollj@heilsustodin.is