-Auglýsing-

Tryggingaverndin reyndist 100% falskt öryggi

Eftir Ástu Huldu Markúsdóttur: “… maðurinn minn má teljast ótrúlega heppinn að „þjónusta“ VÍS, VISA og SOS í Kaupmannahöfn varð honum ekki til enn frekara tjóns en orðið var á heilsu hans.”

Í tilefni af skrifum Antons Bjarnsonar í Morgunblaðið 3. apríl sl., um einkennilega tryggingavernd VISA og aðstoð við Íslendinga erlendis sem lenda í slysum eða veikindum, tel ég mig knúna til að koma eftirfarandi á framfæri. Maðurinn minn var ásamt nokkrum félögum í golfferð í Cadiz á Spáni sl. haust og fékk þar alvarlegt hjartaáfall, auk þess sem hann ökklabrotnaði í fallinu. Í kjölfarið fengum við að reyna einkennilega þjónustu hjá SOS í Kaupmannahöfn, sem er neyðarþjónusta tryggingafélagsins VÍS vegna sjúkdóma og slysa tryggingataka.

Eftir að mér bárust hinar skelfilegu fréttir hingað heim til Íslands hafði ég strax samband við VISA Ísland en við erum viðskiptavinir SPRON með VISA Platinum-kort sem felur í sér hámarkstryggingavernd erlendis. Mér var sagt hjá VISA að hringja sjálf í SOS-þjónustuna í Kaupmannahöfn, sem héldi utan um tilfelli sem þessi. Hjá SPRON, þar sem ég fékk mjög góða þjónustu, var mér sagt að tala við sérfræðing ferðaslysatjóna hjá VÍS. VÍS staðfesti að ég ætti sjálf að tala við SOS. Ég varð sem sagt, í miðri angist yfir því hvort maðurinn minn myndi komast lífs af syðst á Spáni á ótilgreindu sjúkrahúsi, að leggjast í símann til SOS í Kaupmannahöfn og eiga þar samtöl á ensku um sérhæfðar sjúkdómslýsingar og tryggingamál. Hér heima var enga hjálp að hafa, nema hjá kunningja okkar sem er læknir og gaf hann mér dýrmæt ráð og ábendingar.

-Auglýsing-

Ég flaug út til mannsins míns fimm dögum eftir áfallið með fyrsta beina flugi sem bauðst. Í millitíðinni höfðu kransæðar verið víkkaðar og fóðraðar af læknum, hann settur á þríbýli á sjúkrahúsinu og var svo sendur heim á hótel, einn, fárveikur og ökklabrotinn. Þegar ég kom út voru golffélagar hans á heimleið og fararstjóri ferðaskrifstofunnar þeirra hafði útvegað okkur annað hótel næstu tvær nætur, eftir það urðum við að sjá um okkur sjálf. Þarna stóðum við ein og urðum bara að bjarga okkur. Mér tókst með minni þrjósku að fá okkur bókuð lengur á þessu fína hóteli, fá hjólastól, skipta um herbergi, við fengum herbergi með hjólastólaaðgengi sem breytti öllu í þessari stöðu hjá okkur. SOS hafði samband við mig og bað um pappíra frá spænska sjúkrahúsinu á faxi. Þá fyrst hreyfði SOS við málum, fimm dögum eftir að samband hafði verið haft við þá. Maðurinn minn, sem er að öllu jöfnu hinn mesti harðjaxl, var svo kvalinn að átakanlegt var að horfa á hann. Ég bað um lækni strax er við komum á hótelið. Sá sendi hann í röntgenmyndatöku af fætinum brotna en þar sást ekki brotið vegna mikillar bólgu. Svo hann fékk svona umbúðir til málamynda, dálítið af verkjalyfjum og var sendur aftur á hótelið við svo búið. Það skal tekið fram þegar heim til Íslands var komið sást með myndatöku að maðurinn var ökklabrotinn.

Næstu dagana vorum við bara eins og „Palli var einn í heiminum“. Ég reyndi eftir bestu getu að hringja í þá sem gætu og áttu að hjálpa okkur úr þessari gildru syðst á Spáni, þaðan sem við komumst hvorki lönd né strönd. Í hvert skipti sem þeir hjá SOS hringdu í mig var alltaf ný rödd á línunni, það er ótrúlega erfitt þegar maður verður fyrir slíku áfalli, verður maður einhvern veginn allur dofinn og heyrir ekki allt í kringum sig. Oftar en ekki var það líkast sem viðmælandinn vissi bara ekkert um hvað tryggingavernd Platinum-korthafa snerist. Þetta var ólýsanlega erfitt og oft féllu tár örvæntingar þegar hvorki gekk né rak í að finna leiðir til að koma okkur heim til Íslands. Ekki síst þegar okkur var sagt af SOS að við yrðum á hótelinu a.m.k. næstu tíu daga. Læknirinn, kunningi okkar heima á Íslandi, reyndist okkur vinur í raun. Hann hætti ekki fyrr en sjúkrahúsið í Cadiz sendi honum upplýsingar og umbeðna pappíra varðandi íslenska sjúklinginn. Þeim var snarað úr spænsku á íslensku og kom í ljós að ekki væri óhætt að fljúga með manninn minn heim í almennu farþegaflugi, hann yrði að fá sjúkraflug. Þessu var skilmerkilega komið til VÍS. En SOS valdi að hunsa þetta og eftir 16 langa, stranga og nánast óbærilega daga lá leiðin heim, til að byrja með með leigubíl, klukkustundarakstur að flugvelli við Cadiz í almennt innanlandsflug til Madríd. Þaðan til Frankfurt og svo til Keflavíkur á almennu farrými. Við fengum nokkuð auðveldlega hjólastóla á erlendu flugvöllunum en það var öðruvísi í Leifsstöð, þurftum að bíða dágóða stund. Þetta var 15 klukkustunda ferðalag, erfiðara en orð fá lýst og mikið álag fyrir hjartveikan manninn og að auki ökklabrotinn. Við tók dvöl á hjartadeild Landspítalans og sex vikna endurhæfing á Reykjalundi, þegar fóturinn leyfði, ásamt yfirgengilega undarlegum samskiptum við þá aðila sem brugðust algerlega um tryggingavernd og aðstoð þegar á bjátar. Hjartaáfallið var ófyrirsjáanlegt eins og oftast er og kraftaverki líkast að maðurinn skyldi lifa af. Blóðgildi og rannsóknir á Spáni bentu strax til alvarlegs tilfellis og staðsetning blóðtappa í hjartanu til mikillar hættu á lífshættulegum hjartsláttartruflunum við og eftir áfallið. Íslenskir læknar lögðu ríka áherslu á að eina leiðin til að flytja manninn heim væri með millilendingalausu sjúkraflugi undir náinni umsjá læknis. Almennt farþegaflug kæmi ekki til greina fyrr en eftir mánuð hið minnsta. Þessu var skilmerkilega komið til fulltrúa hjá VÍS og jafnframt algerlega hunsað þar á bæ.

- Auglýsing-

Við töldum að VISA Platinum-kortið væri 100% trygging sem veita myndi okkur bestu tryggingavernd á erlendri grund sem í boði er, þess vegna fannst okkur skrítið að þegar ég fór með alla reikningana til okkar tryggingafélags kom í ljós að maturinn sem þú borðar er ekki inni í tryggingunni, svarið var, „þú þarft alls staðar að borða“.

Við vorum á hóteli, maðurinn fárveikur í hjólastól, svo við vorum eiginlega kyrrsett á þessu hóteli, ekki annað í boði.

Já það er margt skrítið í þessu ferli og ótrúlegt hvað raunverulega er hægt að bjóða manni.

Okkur var selt þetta sem hámarkstryggingavernd. Hún stóðst ekki þegar á reyndi.

Niðurstaðan er sú að maðurinn minn má teljast ótrúlega heppinn að „þjónusta“ VÍS, VISA og SOS í Kaupmannahöfn varð honum ekki til enn frekara tjóns en orðið var á heilsu hans. Mætti jafnvel segja að „þjónustan“ hafi beinlínis verið lífshættuleg eins og á stóð. Eftir heimkomuna sendum við greinargerð, sem innihélt m.a. álit íslensks læknis á atburðarásinni, til SOS. Við fengum viðbrögð heilum þremur mánuðum síðar. Upplýsingar varðandi endurgreiðslu kostnaðar voru mjög á reiki. Aðkoma tryggingafélagsins VÍS brást í meginatriðum þegar á reyndi. SOS-neyðarþjónustan reyndist ekki starfi sínu vaxin og klúðraði algerlega praktískum hliðum málsins. Eindregnar ráðleggingar íslenskra lækna voru að engu hafðar og valið að fara að sjónarmiðum erlendra aðila sem gerðu sér ekki grein fyrir alvarleika málsins. Hver bæri ábyrgð ef illa hefði farið í fluginu til Íslands? Hvað áttum við yfirhöfuð að gera ef hann hefði veikst alvarlega í fluginu heim?

Nokkrum dögum eftir heimkomu kom í ljós að rifa var á hjartaloku, mikil vatnsuppsöfnun í lungum, drep var komið í hjarta, kannski má tengja þetta álaginu vegna þessarar erfiðu heimferðar?

Hver ber ábyrgð? Eru tryggingafélagið VÍS og VISA skaðabótaskyld í slíkum tilvikum?

Völdu þessi fyrirtæki að spara peninga á kostnað öryggis tryggingatakans? Við skiljum nú að tryggingaverndin var falskt öryggi. Okkur er jafnframt ljóst að tugir annarra Íslendinga hafa lent í sambærilegu eða svipuðu. Málið er allt með miklum ólíkindum og þau fyrirtæki sem að því koma ættu að sjá sóma sinn í því að veita skilmerkilega og án undanbragða þá þjónustu sem viðskiptavinum er lofað í hvívetna. Einnig ættu þau að sýna þeim sem liðið hafa fyrir vanrækslu og einkennileg vinnubrögð þeirra þá lágmarkskurteisi að biðjast afsökunar.

Höfundur er VISA Platinum-korthafi hjá SPRON.

Morgunblaðið  15.04.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-