Þriðja hjartaþræðingartækið hefur verið tekið í notkun á hjartaþræðingarstofu Landspítala. Brýn þörf hefur verið á þessu tæki bæði vegna nauðsynlegrar endurnýjunar og sívaxandi starfsemi. Nú standa vonir til að biðlistar eftir hjartaþræðingum og kransæðavíkkunum heyri brátt sögunni til.
Árið 2007 voru tæplega 1800 þræðingar og tæplega 700 víkkanir á hjartaþræðingarstofu Landspítala. Nærri lætur að þeim fjölda sé þegar náð fyrir þetta ár. Hjartaþræðingar eru nú á tveimur stofum og sú þriðja er aðallega notuð fyrir raflífeðlisfræðilegar rannsóknir og meðferð, ígræðslur gangráða o.fl.
Byrjað var að nota nýju hjartaþræðingarstofuna snemma í nóvember og hefur á fimmta tug sjúklinga verið þræddur þar. Stofan er sambyggð núverandi tveimur hjartaþræðingarstofum á hjartaþræðingareiningu hjartadeildar á jarðhæð á Landspítala Hringbraut, byggð inn í húsnæði sem verið hefur hluti af vörumóttöku spítalans. Aðstaða rýmkar með nýju stofunni og tækjabúnaður batnar til að sinna hjartaþræðingum en margvíslegur búnaður var keyptur fyrir utan hjartaþræðingartækið sjálft. Gæði rannsókna aukast vegna betri mynda og annarra upplýsinga og samhæfing alls búnaðar gerir vinnu mun léttari en áður var.
Tækjabúnaður í nýju hjartaþræðingarstofunni:
Hjartaþræðingartækið
Nýja hjartaþræðingartækið er af fullkomnustu gerð, framleitt af General Electric, heitir Innova 2100 IQ og er búið stafrænum myndskynjara sem skilar mjög bættum myndgæðum.
Eftirlitsbúnaður
Kemur frá General Electric, heitir Mac-lab Hemodynamic system og er með nýjustu tækni til að mæla þrýsting í æðakerfinu.
Innanæðaómtæki
Framleiðandi er Volcano og tækið heitir IVUS Volcano S51. Tækið er notað til að meta æðaveggi og holrúm æða.
Skuggaefnissprauta
Framleiðandi er Medrad og sprautan er af gerðinni Avanta. Hún er sérstaklega gerð fyrir hjartaþræðingar og eykur mikið möguleika á að stjórna skuggaefni sem er gefið við myndatökuna sjálfa. Skuggaefnið gerir æðarnar mun sýnilegri á mynd. Sprautan dregur úr notkun skuggaefnis miðað við eldri gerðir sem skilar sér í mikilli hagkvæmni.
Hjartastuðgjafi
Framleiddur af Philips og er að gerðinni HeartStart XL. Hann er nauðsynlegt öryggistæki á hverri hjartaþræðingarstofu. Seljandi er Vistor hf.
Kerfi fyrir rennslismælingu
Framleiðandi er General Electric, búnaðurinn heitir Flow Wire FFR og er notaður til að meta rennslisgetu í kransæð.
Seljandi alls búnaðar á hjartaþræðingarstofuna nema hjartastuðgjafa er A. Karlsson hf.
Kostnaður og fjármögnun tækjabúnaðar:
Hjartaheillum, landssamtökum hjartasjúklinga og Gjafa- og styrktarsjóði Jónínu S. Gísladóttur má öðrum fremur þakka að þriðja hjartaþræðingarstofan er komin í notkun, ríkulega búin nýjustu og bestu tækjum. Framlög samtakanna og sjóðsins skipta þar sköpum. Áætlaður heildarkostnaður við nýju hjartaþræðingarstofuna nemur nú um 220 milljónum króna (miðað við gengi í dag) en af þeirri upphæð greiðir Landspítali kostnað við breytingu á húsnæði sem er áætlaður um 5 milljónir króna. Tækjabúnaðurinn er að langmestu leyti keyptur fyrir gjafafé og má að sönnu telja það þjóðargjöf á þrautartíð.
Hjartaþræðingartæki
Hjartaþræðingartækið kostar um 120 milljónir m. VSK. Andvirði 70% heildarverðs hefur verið greitt. Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur gaf 63 milljónir til kaupa á tækinu og Landspítali lagði fram tæpar 6 milljónir. Eftirstöðvar greiðslu eru um 40 milljónir án VSK sem koma til greiðslu snemma á næsta ári.
Eftirlitsbúnaður, innanæðaómtæki, kerfi fyrir rennslismælingu, skuggaefnissprauta og hjartastuðgjafi
Samtökin Hjartaheill gefa annan búnað í hjartaþræðingarstofuna og Landspítali leggur fram á móti. Heildarkostnaður er um 52 milljónir m. VSK. Eftirstöðvar greiðslu eru um 11 milljónir án VSK sem koma til greiðslu snemma á næsta ári.
Gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur var stofnaður árið 2001 með 200 milljóna króna framlagi Jónínu í sjóð til að efla hjartalækningar á Landspítala. Síðan hefur sjóðurinn stutt hjartalækningarnar ríkulega með fjárframlögum, þar á meðal vegna kaupa á hjartaþræðingartæki árið 2001.
Hjartaheill, landssamtök hjartasjúklinga eiga 25 ára afmæli á þessu ári og minnast tímamótanna meðal annars með því að styrkja kaup á hjartaþræðingartækinu og nauðsynlegum fylgibúnaði. Samtökin leggja fram 25 milljónir og ætla þar að auki að efna til landssöfnunar snemma á næsta ári fyrir átak til stuðnings hjartalækningum. Takmark Hjartaheilla hefur verið að safna 50 milljónum króna á afmælisárinu og rennur allt það fé sem safnast umfram áðurnefndar 25 milljónir einnig til hjartalækninga á Landspítala. Átakið felst í endurnýjun búnaðar og kerfis fyrir hjartalækningar og hefur kostnaður verið metinn um 300 milljónir króna. Búið er að safna fyrir um það bil helmingi þeirrar upphæðar.
Af vef Landspítla Háskólasjúkrahúss