Því hefur löngum verið haldið fram að tónlist geti gert kraftaverk og það sé tónlistin sem fái heiminn til að snúast.
Nú hefur rannsókn leitt í ljós að í rauninni getur tónlist styrkt hjartað, bætt líðan og aukið bata sjúklinga sem þjást af hjartasjúkdómum, en frá sessu var sagt í vefútgáfu Telegraph.
Hjartasérfræðingar segja að niðurstöðurnar gefi til kynna að allar manneskjur geti aukið heilbrigði hjartans einfaldlega með því að hlusta á uppáhalds lagið sitt.
Sjúklingum með hjartasjúkdóma var skipt upp í þrjá hópa. Einn hópurinn var látin taka þátt í þol og þrek æfingum í þrjár vikur. Aðrir voru settir í sama æfingaprógrammið, en einnig sagt að hlusta á tónlist að eigin vali í hverjum tíma í 30 mínútur á hverjum degi. Þriðji hópurinn var aðeins látinn hlusta á tónlist, og tók ekki þátt í þeim æfingum sem venjulega er mælt með fyrir sjúklinga sem þjást af hjartasjúkdómum.
Í lok rannsóknarinnar kom í ljós að sjúklingarnir sem höfðu hlustað á tónlist ásamt því að stunda þolþjálfun höfðu aukið afkastagetu hjartans verulega og stórbætt æfingagetu sína eða um 39 prósent.
Hópurinn sem aðeins stundaði þolþjálfun hafði aukið getu sína um 29 prósent. Jafnvel þeir sem tóku ekki þátt í neinum æfingum heldur aðeins hlustað á uppáhaldstónlistina sína í hálftíma á dag bætti æfingagetu sína um heil 19 prósent. 74 sjúklingar tóku þátt í rannsókninni.
Í mælingunum sem fóru fram á bættri hjartastarfsemi kom í ljós bætt virkni æðaþels sem er nauðsynlegt til að viðhalda æðasvörun í líkamanum.
Niðurstöðurnar voru kynntar á þingi á Evrópskra hjartasérfræðinga í Amsterdam. Þar kom fram að talið var að losun á lykilhormóni lægi á bak við þessar breytingar en talið er að tónlistin leysi þessi hormón úr læðingi.
Prófessor Delijanin Ilic, frá Háskólanum í Nis í Serbíu sem leiddi rannsóknina segir, „Þegar við hlustum á tónlist sem okkur líkar þá losnar um endorfín í heilanum og þetta bætir heilsuna á æðakerfinu. Það er engin „besta“ tónlist fyrir alla, það sem skiptir máli er hvað maður vill sjálfur hlusta á sem gerir mann glaðan og ánægðan.“
Hún sagði aðrar rannsóknir þar sem skoðuð eru áhrif tónlistar á heilsu benda til að sumir tegundir af tónlist væru minna góðar fyrir hjartað. Þar með talið Þungarokk sem er talið auka streituviðbrögð á meðan óperur, klassísk og önnur „gleðileg“ tónlist væru líklegust til að örva endorfín framleiðsluna.
Prófessorinn sagði : „Það er einnig mögulegt að það sé betra að hafa tónlist án orða, því hugsanlega geti orðin eða textarnir valdið tilfinningalegu uppnámi.“
Enda þótt rannsóknin hafi verið gerð á sjúklingum sem þjást af hjartasjúkdómum taldi hún líklegt að niðurstöðurnar gætu átt við stærri hóp þar sem vitað er að líkamsæfingar eða hreyfing bæti hjartaheilsu hjá heilbrigðu fólki.
Prófessor Ilic bætti við, „Að hlusta á uppáhalds tónlistina sína auk þess að stunda venjulega þjálfun eða hreyfingu, bætir virkni æðaþelsins og getur því verið góð viðbót við endurhæfingu sjúklinga með hjarta og æðasjúkdóma. Það er engin ein tegund tónlistar sem passar fyrir alla en sjúklingar ættu að velja tónlist sem eykur jákvæðar tilfinningar, gerir þá hamingjusama eða hjálpar þeim að slaka á.“
Hvað sem þessum vísindum líður þá væri heimurinn örugglega mikið fátækari og dapurlegri ef engin væri tónlistin.