Friðrik E. Yngvason segir frá upplifun sinni af tölvukerfi heilbrigðiskerfisins: “Sögukerfið er fullt af hortittum með slöku öryggi fyrir sjúklinga og afleitt vinnuumhverfi. Læknar hafa þeim mun meiri andstyggð á kerfinu sem þeir þurfa að vinna meir við það.”
Fyrir þremur árum var Sögu sjúkraskrárkerfið innleitt á FSA og í framhaldinu kerfi fyrir röntgenmyndir og hið þriðja fyrir niðurstöður úr blóðrannsóknum. Einnig er í notkun innskriftarkerfi. Lengst af töluðu þessi kerfi ekki saman og aðeins nýlega hafa þrjú þeirra verið lauslega tengd. Ástandið hefur verið eins og á heimili þar sem fjórir heimilismenn talast ekki við, en nú eftir tengingu eins og þeir skiptist á eins atkvæðis orðum.
Hvunndagur á mínum spítala einkennist af endalausum innslætti aðgangsorða þar sem aðgangsheimild er stöðugt að renna út.
Sögukerfið er skelfileg smíð sem ætti ekki möguleika á öðrum markaði en þeim sem leyfir ríkinu að ausa hundruðum milljóna í gæluverkefni með illa skilgreind markmið. Minkarækt, fiskeldi og Grímseyjarferja hafa fjármagnast með líkum hætti.
Sögukerfið er fullt af hortittum með slöku öryggi fyrir sjúklinga og afleitt vinnuumhverfi. Læknar hafa þeim mun meiri andstyggð á kerfinu sem þeir þurfa að vinna meir við það. Það einfaldar nánast enga hluta sjúkraskrárgerðar. Kerfið er eyðublaðakerfi tengt kennitöluskrá og almanaki. Að vinna upp úr kerfinu læknabréf eða lífeyrisvottorð er eins og að lesa Moggann í gegnum kjarnann úr klósettrúllu. Engin yfirsýn. Öll snerting á Sögu tekur að minnsta kosti 20% meiri tíma en í pappírskerfi. Mikilvæg gögn eins og nothæft lyfjakort fyrirfinnst ekki. Hlutur lang- og fjölveikra versnar umtalsvert miðað við pappírskerfi.
Er það rétt að í kerfunum þurfi stundum að slá inn kennitölu með bandstriki og stundum ekki? Er það rétt að læknanúmer sem er 4 stafa tala gangi ekki alltaf, t.d. þegar núll er fyrsti stafur? Að það sjáist varla á sjúkraskrá að sjúklingur er látinn? Er það rétt að ekki sé hægt að senda röntgenmyndir, t.d. tölvusneiðmyndir, rafrænt milli spítalanna? Get ég pantað rannsóknir á nafni annars læknis?
Get ég sent lyfseðil á annan sjúkling en þann sem er opinn í tölvunni?
Þetta er bara lítið eitt sem spyrja má og svarið við öllu er já.
Innleiðsla tölvukerfa á mínum spítala er saga þess að lélegum verkfærum er troðið upp á þá sem vinna eiga með þau og sparað í kennslu og þjálfun. Vinnuumhverfi og afköstum spillt. Kröfur um afköst síst minni. Aðgengi lækna að nauðsynlegum upplýsingum torsóttara. Öryggi síst betra. Lagfæringar koma seint og illa (2-3ár) og skellt skolleyrum við réttmætum athugasemdum.
Ekki leiða almenning á villigötur í þessu máli. Af greininni má ráða að einhverjir innlendir snillingar séu að endurfinna upp hjólið og leysa mál sem búið er að fást við erlendis og finna lausnir á. Það er jafngáfulegt og nýr íslenskur fjöldaframleiddur bíll. Kaupum og notum reynd erlend kerfi og þýðum þau hugsanlega. Hættum þessu endalausa milljónabulli í kringum handónýtt Sögukerfið eða hugsanlega afkomendur þess.
Höfundur er læknir á Lyflækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri.
Morgunblaðið 18.05.2008