Lyfjastofnun hefur móttekið 54 tilkynningar um aukaverkanir af völdum lyfja á Íslandi það sem af er árinu 2008. Af þeim 54 tilkynningum sem bárust Lyfjastofnun voru 19 alvarlegar. Af þessum alvarlegu aukaverkunum voru fjórar þeirra dauðsföll sem mögulega tengdust lyfjanotkun, þar af tvö dauðsföll í klínískri rannsókn. Tilkynnt var um eina alvarlega aukaverkun sem var sjálfsmorðstilraun og 14 alvarlegar aukaverkanir sem ollu eða lengdu sjúkrahúsvist.
Lyfjastofnun vill taka fram að ekki er öruggt að þær tilkynningar um aukaverkanir sem berast stofnuninni tengist inntöku á lyfi. Möguleiki er á að aukaverkanir sem tilkynntar eru séu vegna annarra lyfja sem tekin eru inn á sama tíma eða að ástæða fyrir einkennum sé önnur en notkun lyfsins. Flestar tilkynningar um aukaverkanir sem bárust stofnuninni tengdust fólki í aldurshópnum 60-69 ára þar á eftir kemur aldurshópurinn 40-49 ára. Lyfjanotkun eykst með aldri sem hefur í för með sér aukna hættu á að aukaverkun komi fram. Einnig er eldra fólk oft viðkvæmara gagnvart aukaverkunum lyfja vegna þess að nýrna- og lifrarstarfsemi getur breyst með aldri. Fjöldi aukaverkana eftir aldurshóp: pdf skjal Tilkynningar eftir ATC – flokk: pdf skjal Tilkynningar geta borist Lyfjastofnun með þrennum hætti: Frá markaðsleyfishafa, heilbrigðisstarfsmanni og frá almenningi. Flestar tilkynningar hafa borist frá markaðsleyfishöfum eða 30 það sem af er árinu, 24 tilkynningar hafa borist frá heilbrigðisstarfsmönnum og engin frá almenningi. Af 24 tilkynningum frá heilbrigðisstarfsmönnum hefur 21 tilkynning borist frá læknum, tvær frá lyfjafræðingum og ein frá öðrum heilbrigðisstarfsmanni.
Tekið skal fram að það er lagaleg skylda markaðsleyfishafa lyfs að tilkynna aukaverkun til Lyfjastofnunar. Heilbrigðisstarfsfólk er einnig hvatt til að tilkynna aukaverkanir og þá sérstaklega alvarlegar aukaverkanir og aukaverkanir vegna nýrra lyfja og lyfja í brennidepli. Ný lyf kallast þau lyf sem hafa verið á markaði skemur en í 5 ár. Flestar tilkynningar bárust fyrir N-flokk lyfja samkvæmt ATC flokkunarkerfi eða tauga- og geðlyfjaflokk, alls 16 tilkynningar. Næst flestar tilkynningar, 15 talsins bárust vegna lyfja úr L-flokki, flokki æxlishemjandi og ónæmistemprunarlyfja. Flestar tilkynningar um aukaverkun vegna einstaks lyfs voru vegna lyfjanna Champix og Remicade eða 5 tilkynningar fyrir hvort um sig. Næsta yfirlit yfir tilkynningar aukaverkana verður birt eftir 6 mánuði. Upplýsingar til almennings: Mikilvægt er að tilkynna lækni um aukaverkun lyfs. Læknirinn þinn sér um að tilkynna til lyfjastofnunar alvarlegar eða óþekktar aukaverkanir af öllum lyfjum og allar aukaverkanir tengdar nýjum lyfjum. Það er því mikilvægt að þú tilkynnir þínum lækni um þær aukaverkanir sem þú verður fyrir, sérstaklega ef að : – Þú metur aukaverkun sem alvarlega – Aukaverkun er ekki að finna í fylgiseðli lyfs. Læknir getur síðan metið hvort breyta þurfi lyfjameðferð þinni. Hann hefur einnig aðgang að sjúkraskrá og getur því sent tilkynningu um aukaverkunina til Lyfjastofnunar með öllum nauðsynlegum upplýsingum. Þú getur tilkynnt aukaverkun lyfs til Lyfjastofnunar Komið geta upp tilfelli, þar sem einstaklingur vill af einhverjum ástæðum ekki leita til læknis vegna aukaverkunar. Lyfjanotandi eða aðstandandi notanda hefur þann möguleika að tilkynna aukaverkun beint til Lyfjastofnunar í gegnum vefsvæðið http://www.lyfjastofnun.is/Aukaverkanir/. Einnig er hægt að tilkynna aukaverkun til lyfjafræðings í apóteki eða til annars heilbrigðisstarfsmanns og viðkomandi heilbrigðisstarfsmaður sér um að tilkynna aukaverkunina til Lyfjastofnunar.
-Auglýsing-
www.lyfjastofnun.is 05.08.2008
- Auglýsing-
-Auglýsing-