Nú eru aðeins tólf dagar í að tæplega hundrað hjúkrunarfræðingar hætti hjá Landspítalanum vegna óánægju með breytt vaktafyrirkomulag. Stjórnendur spítalans hafa boðið hjúkrunarfræðingum hærri bílastyrk sem hjúkrunarfræðingur segir hreinan dónaskap.
Vigdís Árnadóttir, skurðhjúkrunarfræðingur, segist vita til þess að stjórnendur Landspítalans séu byrjaðir að taka hjúkrunarfræðinga í einstaklingsviðtöl. Þar sé þeim kynnt nýtt tilboð vegna fyrirhugaðra breytinga á vaktafyrirkomulagi sem leggst afar illa í hjúkrunarfræðinga. Hún segir tilboðið ekki til þess fallið að leysa deiluna.
,,Það er verið að tala um að hækka ökutækjastyrk um minna en 5000 krónur, en við ökum mikið, og taka hluta af vetrarfríinu okkar. Það er það sem komið hefur út úr þessum viðtölum,” segir Vigdís, sem segir að hjúkrunarfræðingar hafi gert ráð fyrir að fá einhver tilboð. ,,Þessvegna er alveg ótrúlegt að þetta boð hafi komið frá Landspítalanum, sem er í raun og veru bara dónaskapur í okkar garð. Við viljum aðallega halda því vinnuskipulagi sem við höfum unnið eftir, bæði með tilliti til öryggis sjúklinga og þannig að ekki verði gengið af okkur dauðum,” segir Vigdís.
Fram kemur í Morgunblaðinu í dag að hætti hjúkrunarfræðingarnir störfum 1. maí líkt og þeir ætla sér, verði unnið samkvæmt neyðaráætlun á Landspítalanum. Til dæmis verði aðeins framkvæmdar bráðaaðgerðir. Á skurðdeild kvennasviðs verði framkvæmdir keisaraskurðir í neyðartilfellum en ekki aðgerðir vegna brjóstakrabba. Ekki verði hægt að gera hjartaaðgerðir við þær aðstæður sem skapist.
Anna Stefánsdóttir, starfandi forstjóri Landspítalans, segir að umdeildar breytingar á vaktafyrirkomulagi eigi að auka öryggi sjúklinga. Skurðstofur verði opnar allan sólarhringinn allt árið. Stjórnendur Landspítalans hafi rætt einslega við um 20 hjúkrunarfræðinga, kynnt þeim nýja vaktafyrirkomulagið. Unnið sé að neyðaráætlun komi til þess að fjöldi hjúkrunarfræðinga hætti um mánaðamótin. Of snemmt sé að gefa nokkuð upp um hana meðan óljóst sé hverju viðræður hjúkrunarfræðinga skila. Því hefur verið haldið fram að ekki verið hægt að framkvæma skurðaðgerðir nema í neyðartilfellum. Anna segir ótímabært að tala um slíkt.
www.ruv.is 19.04.2008