Það var gott að fá Bjössann heim af spítalanum. Það er alltaf skrítið að hafa kallinn ekki heima, kallinn sem alltaf er heima.
Ég sit hálf svona hugsi eftir daginn. Gerði mér kannski ekki alveg grein fyrir því hvað mögulega gæti komið út úr þessum rannsóknum og hver tilgangur þeirra var, hugsaði þetta ekki til enda. Það hefur svo oft gerst að honum hrakar eitthvað eða á slæman tíma, það er ákveðið að gera einhverjar rannsóknir og ekkert kemur út úr því. Staðan er endurskoðuð og einhverju breytt, eitthvað gert til að reyna að láta honum líða betur.
Hugsaði þetta bara sem þannig tjékk á stöðunni, eins og svo oft áður, og bjóst svo sem ekkert við því að eitthvað slæmt kæmi út úr þessu. Það gerði það heldur ekki. Það sem ég hafði hins vegar ekki hugsað til enda var að auðvitað var þetta liður í löngu ferli þeirra danalækna í að finna út úr því nákvæmlega hvert ástandið hans er og þá hvort þeir gætu gert eitthvað í framhaldinu til að gera líf hans betra.
Ég bjóst ekki við að þetta ferli myndi enda í dag. En það gerði það. Niðurstaðan sem kynnt var við útskrift var sú að því miður gætu þeir bara ekki gert neitt meira fyrir hann. Hmmm hvað. Blaut tuska í andlitið. Kannski hefði þetta ekki átt að koma á óvart en ég fann það þegar niðurstaðan var komin að ég hef borið í brjósti kannski örlítið óraunhæfa von. Von sem brást í dag.
Við höfum staðið í þessari baráttu fyrir heilsu og þreki frá því Bjössi fékk hjartaáfall í febrúar 2003. Það hefur ýmislegt verið reynt, ýmsir lyfjakokteilar, endurhæfing, aðgerð og við töldum það saman í dag að líklega er þetta komið yfir 10 skipti sem hann hefur farið í hjartaþræðingu. Það hefur alltaf verið eitthvað sem hefur verið hægt að reyna. Breyta lyfjum, breyta endurhæfingunni, lemja í hann þreki eða hvað sem er. Þetta er í fyrsta skiptið sem læknir segir við okkur að staðan sé bara þannig að það sé ekkert meira hægt að gera. Það er ekkert eftir sem hægt er að reyna til að gera líf hans betra. This is as good as it gets. Þar til það fer að verða verra.
Ég hafði vonað, að eitthvað uppgötvaðist, sem myndi breyta stöðunni. Eitthvað lyf gæti breytt ástandinu, það að flytja í betra veður, það að komast í hendurnar á læknum sem vissu eitthvað sem hinir vissu ekki. Ég hafði bara hreinlega ekki gefið upp vonina um betra líf fyrir Bjössa. Meiri lífsgæði. Ég vonaðist eftir kraftaverki.
Ég sit núna hugsi og ég veit að það er von í stöðunni. Við eigum gott líf, við brosum mikið, borðum steik og fáum okkur rauðvín. Ég er þakklát fyrir lífið sem við eigum. Ég mun halda áfram að vona þó vonir mínar munu breytast eftir daginn í dag. Ég bara hafði vonað í laumi að þetta myndi lagast. Þetta væri ekki raunveruleikinn, að Bjössi ætti fyrir höndum betri heilsu og meiri lífsgæði. Ég myndi fá að sjá hann hlaupa, leika við strákana, fara í tjaldferðalag, á skíði, í sund, þó ekki væri meira en bara fara í heitan pott í sumarbústað. Það er svo margt sem ég óska honum. Sem ég hafði vonast til.
Það er skrítið að heyra lækna segjast ekki eiga nein tromp uppi í erminni lengur. Að allt hafi verið reynt. Skrítið að hafa í svona langan tíma barist og átta sig svo á því að það var hægt því það var alltaf von. Þá held ég að málið sé að syrgja vonina í dag, endurræsa svo systemið, hvílast í nótt og finna svo nýja von á morgun.
Knús á ykkur
Árósum 04.05.2010
Mjöll