Neysla nokkurra bolla af te og kaffi á dag hefur góð áhrif á hjartað að því er fram kemur í nýbirtum niðurstöðum hollenskrar rannsóknar. Segir þar að þeir sem drekki meira en sex bolla af tei á dag dragi úr líkum á hjartasjúkdómum um þriðjung.
Með líku lagi var neysla tveggja til fjögurra bolla af kaffi á dag talin góð fyrir hjartað en áætlað er að hún dragi úr líkum á hjartasjúkdómum um 20%.
Kaffidrykkja er almennt talin best í hófi og vekur því athygli að neysla fjögurra bolla á dag eða meira, magn sem verður að teljast verulegt, jók ekki tíðni heilablóðfalls eða krabbameins.
Haft er eftir Ellen Mason, hjúkrunarfræðingi hjá bresku samtökunum British Heart Foundation, á vef BBC að hafa beri í huga að reykingar með kaffidrykkju og hreyfingarleysi fyrir framan sjónvarp á meðan te er sopið geti strikað út mögulegan ávinning. Málið snúist því um heilbrigðan lífsstíl.
Niðurstöðurnar eru birtar í vísindaritinu Journal of the American Heart Association.
www.mbl.is 19.06.2010