-Auglýsing-

Skynsemin ræður

Það er sérstakt fagnaðarefni að samningar skyldu takast í gærkvöldi í deilum Landspítalans og skurð- og svæfingarhjúkrunarfræðinga. Og neyðarástandi í rekstri spítalans þar með afstýrt. Hjúkrunarfræðingar fagna sigri en því má ekki gleyma að það þarf manndóm til af hálfu stjórnenda spítalans og ráðherra að ljúka málinu á þann veg sem gert var.

Væntanlega verður þetta mál til þess að ný vinnubrögð verði tekin upp í samskiptum stjórnenda og starfsmanna. Björn Zoëga, annar af settum forstjórum spítalans, sagði í viðtali við RÚV í gærkvöldi að samskiptum hefði verið háttað í samræmi við lög. Enginn efast um það, en samskipti stjórnenda og starfsmanna snúast um fleira en að lögum sé fylgt. Þau snúast um gagnkvæma virðingu. Þau snúast um að hlustað sé á starfsmenn. Þau snúast um að sjónarmiðum þeirra sé mætt af skilningi. Og nú á tímum þurfa stjórnendur að átta sig á að tími geðþóttastjórnunar er löngu liðinn. Einu sinni var hægt að haga stjórnun á þann veg að gefa fyrirskipanir án þess að rökstyðja þær á nokkurn hátt. Það er löngu liðin tíð að hægt sé að stjórna fyrirtækjum eða stofnunum eða hverju sem er með þeim hætti.

Kjarninn í samkomulagi því, sem gert var í gærkvöldi, er óbreytt vaktakerfi í eitt ár og að fulltrúar starfsmanna og stjórnenda setjist sameiginlega yfir það verkefni að búa til vaktakerfi sem kemur til móts við sjónarmið beggja aðila.

-Auglýsing-

Landspítalinn gat ekki án þessara starfsmanna verið. Þjóðin gat ekki án þeirra verið.

Samskipti starfsmanna og stjórnenda á Landspítala hafa lengi verið erfið. Sennilega hafa þau aldrei fyrr komizt í slíkan öldudal sem í þessari deilu. En jafnframt verður að ætla að í gærkvöldi hafi verið stigið nýtt skref sem vonandi mótar þessi samskipti í framtíðinni.

- Auglýsing-

Á spítala þarf að vera gott andrúmsloft, ekki bara milli starfsmanna og sjúklinga heldur milli allra þeirra sem koma að þessum rekstri.

Það er ástæða til að óska öllum aðilum málsins til hamingju með þessar málalyktir. Hjúkrunarfræðingarnir sögðu hingað og ekki lengra; stjórnendur áttuðu sig á síðustu stundu að þeir voru komnir í alvarlegar ógöngur.

Þetta mál mun áreiðanlega hafa mikil áhrif á Landspítalanum í framtíðinni til góðs. Þar verður áreiðanlega lögð áherzla á að slík staða komi ekki upp á ný.

Sjúklingar, sem hafa beðið eftir aðgerðum, geta andað léttar. Þeir hefðu orðið hin raunverulegu fórnarlömb ef hjúkrunarfræðingarnir hefðu horfið á braut. Deilan er að baki og starfsmenn horfa fram á veg.

Riststjórnarpistill í Morgunblaðinu 01.05.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-