SHS fær styrk frá Baugi

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hlaut í gær styrk úr Styrktarsjóði Baugs Group hf til kaupa á á fimm alsjálfvirkum hjartastuðtækjum til að setja í allar forystuslökkvibifreiðar liðsins. Styrkurinn er að upphæð 1.675.000 króna. Með styrkveitingunni rætist langþráður draumur slökkviliðsmanna, en með hjartastuðtæki af þessu tagi í slökkvibílum geta starfsmenn nýtt enn betur þekkingu sína og brugðist við á öflugan hátt strax í upphafi beri slys að höndum og þar með aukið lífslíkur fólks sem fær hjartastopp.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sinnir eins og kunnugt er sjúkraflutningum á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningi við Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og fær til þess ákveðinn fjölda sjúkrabifreiða og tilheyrandi búnað. Allir starfsmenn liðsins eru menntaðir sjúkraflutningamenn og slökkviliðsmenn, enda gert ráð fyrir að þeir geti sinnt hvoru tveggja, slökkvistarfi og sjúkraflutningum.

Eins og eðlilegt er, eru starfsmenn oft á ferðinni á slökkvibifreiðum. Fyrir kemur að slökkvibifreiðar eru næstar slysstað og/eða koma þangað fyrst. Starfsmenn hafa þá þekkingu, þjálfun og reynslu sem þarf til að bregðast við, en geta það aðeins upp að vissu marki þar sem sérhæfður sjúkrabúnaður er ekki í slökkvibifreiðum.

Oft hefur verið á það bent að sjálfvirk hjartastuðtæki í slökkvibifreiðum liðsins, gætu bætt þá þjónustu, sem liðið veitir og um leið öryggi fólks. Fram til þessa hefur ekki tekist að fá fjárveitingu til að stíga skrefið. Víða erlendis eins og í Bandaríkjunum og á Norðurlöndum eru slík tæki einmitt í slökkvibifreiðum og hafa skilað góðum árangri.

Rannsóknir sýna að „skammhlaup“ í hjarta eða svokallað sleglatif er ein algengasta orsök skyndidauða hjá fullorðnum. Á undanförnum árum hefur orðið enn frekar ljóst mikilvægi rafstuðsmeðferðar í endurlífgun. Í um það bil 80 til 90% allra tilfella hjartastopps eru sleglahraðtaktur og/eða sleglatif meginorsök. Báðar þessar hjartsláttartruflanir svara gjarnan rafstuðsmeðferð vel. Því er mjög mikilvægt að slíkri meðferð sé beitt sem allra fyrst eftir að hjartsláttartruflunin hefst, þar sem báðar takttruflanirnar geta farið yfir í svokallaða “rafleysu” tiltölulega fljótt. Þegar slíkt er staðreynd er hæpið að frekari endurlífgunartilraunir beri árangur. Líkurnar á að sjúklingur lifi hjartastopp af minnka um 7 til 10% með hverri mínútu sem líður án þess að sleglatif sé meðhöndlað með rafstuði. Fram til þessa hefur hins vegar einungis verið unnt að beita slíkri meðferð á sjúkrahúsum, eða ef sjúkrabifreið með hjartastuðtæki kemur að þar sem hjartastopp hefur átt sér stað.

Styrktarsjóður Baugs var stofnaður í júní 2005 með 300 milljóna króna stofnframlagi og var þetta í þriðja sinn, sem úthlutað var úr honum. Sjóðnum er ætlað að styðja margvísleg líknar-og velferðarmál auk menningar- og listalíf.

Auglýsing

Frétt fengin af heimasíðu Slökkviiliðs Höfuðborgarsvæðisins